„Engan ég þekki, sem gæti gert þetta betur“

„Engan ég þekki, sem gæti gert þetta betur“

Sumarsólin er tákn þess Guðs sem er tilbúinn til að leiða öll sín börn inn í sumarland lífsins, tákn þess Guðs sem við felum barnið í skírninni, tákn þess Guðs sem fermingarbörnin vilja leitast við að gera að leiðtoga lífsins, eins og það er orðað í fermingarheitinu.

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, 13hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“ Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir. En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“ Lúk. 17. 11-19

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Gleðilegt sumar, segjum við á þessum fallega degi sem er sumardagurinn fyrsti. Um þennan hátíðisdag Íslendinga er getið þegar í elstu skráðu heimildum og á hann sér langa sögu meðal þjóðarinnar. Jafnvel þó að árstíðin sjálf, sumarið, sé ekki gengin í garð á þessum degi – og varla að vorið sé komið – finnst mér við hæfi að fara með tvö erindi úr sumarljóði eftir Tómas Guðmundsson sem hljóma svo:

Úðinn drýpur og sindrar í silfurgljá. Í svona veðri finnst regninu gaman að detta á blómin sem nú eru upptekin af að spretta og eru fyrir skemmstu komin á stjá.

Og léttir geislar glitra um lygnan fjörð eins og glóbjört minning um tunglskinið frá í vetur. Ó, engan ég þekki, sem gæti gert þetta betur en guð, að búa til svona fallega jörð.

Ekki einungis finnst mér þetta sumarljóð við hæfi vegna nafnsins fallega á þessum degi heldur minna blómin sem talað er um í ljóðinu – „blómin sem eru nú upptekin af að spretta“ – óneitanlega á unglingana sem hér fermast í dag. Þau eru svo sannarlega líka upptekin af því að spretta. Og „blómin sem fyrir skemmstu eru komin á stjá“ minna á barnið sem hér var borið til skírnar – það er fyrir skemmstu komið á stjá í heimi sem það þekkir svo lítið.

Þarna er líka regnið, undirstaða alls lífs á jörðinni, það sem nærir allan jarðargróðurinn. Úði þess sindrar svo að minnir á gljáandi silfur og ekki síst finnst því gaman að detta á það sem er að spretta – á það sem þarf helst á næringu þess að halda. Regnið minnir okkur á þá andlegu næringu sem orð Guðs er og þá undirstöðu sem það getur skapað í lífi okkar svo að til farsældar og gleði verði.

Lokaljóðlínurnar – „Ó, engan ég þekki, sem gæti gert þetta betur, en guð, að búa til svona fallega jörð“– skírskota til þess þakklætis sem við hljótum að finna til þegar horft er á unglingana, sem bjart er yfir á þessum degi, og barnið sem borið er til skírnar. Gæti nokkur gert betur en guð í þeirri góðu sköpun sinni?

Já, okkur er eiginlegt að fyllast fögnuði þegar sólin fer að skína eftir kulda og myrkur vetrarins. Sólin boðar nýja tíma, nýtt líf – og í birtu hennar er gott að dvelja. Það er hún sem tekur í hönd okkar og leiðir okkur inn í sumarlandið, það er hún „sem brosir á sínu himneska hlaði“, eins og segir í millierindi í áðurnefndu ljóði Tómasar, „og horfir með velþóknun yfir stræti og torg“.

Sumarsólin er tákn þess Guðs sem er tilbúinn til að leiða öll sín börn inn í sumarland lífsins, tákn þess Guðs sem við felum barnið í skírninni, tákn þess Guðs sem fermingarbörnin vilja leitast við að gera að leiðtoga lífsins, eins og það er orðað í fermingarheitinu. Sumarsólin er tákn þess Guðs sem horfir með velþóknun yfir sköpun sína.

Yfir sumarkomunni er alltaf gleðiblær. Sumarið minnir á gæsku Guðs eins og við heyrum svo gjarnan í ljóðum skáldanna, það minnir okkur á að Guð vill vekja bjartar vonir og fallegar hugsanir í hjörtum okkar á sama hátt og geislar sólarinnar vekja blómin af vetrardvala.

Í guðspjallinu sem okkur er fengið til íhugunar á þessum degi, og lesið var frá altarinu áðan, er minnst á mann sem kunni að þakka, einn mann af mörgum sem allir höfðu þó fulla ástæðu til að þakka það sem gefið hafði verið – einn mann sem mundi eftir því að þakka guði það sem vel hafði verið gert. Guðspjallið minnir okkur, eins og ljóð Tómasar, á þakklætið, á það að kunna að þakka allt það sem er gott og kunna að þakka það sem vel er gert – og það er ótalmargt í lífinu sem vert er að þakka.

Rudyard Kipling var þekktur breskur rithöfundur, fæddur rétt fyrir aldamótin 1900. Hann var mikill meistari orðsins og nánast hvert orð í textum hans er sveipað sérstökum töfrandi hljómi. Rudyard Kipling var orðinn þekktur um allan heim löngu áður en hann lést.

Sagan segir að eitt sinn hafi blaðamaður gengið upp að honum þar sem hann var á förnum vegi og sagt við hann: Hr. Kipling, ég er nýbúinn að lesa það einhvers staðar að einhver hafi reiknað það út hvað þú hefur grætt mikið á hverju orði sem þú hefur fest á blað og þú hefur grætt hundrað dollara á hverju orði. Nú, sagði Kipling með undrunarsvip, ekki hef ég heyrt af því.

Blaðamaðurinn seildist í vasa sinn og tók upp hundrað dollara seðil, rétti hann að honum og sagði: Jæja, herra Kipling, nú lætur þú mig hafa eitt af þínum hundrað dollara orðum.

Kipling leit á seðilinn í hönd blaðamannsins, teygði sig eftir honum, stakk honum í vasann og sagði hátt og snjallt: TAKK.

Já, þetta eina orð, orðið TAKK, er örugglega hundrað dollara virði, jafnvel milljón dollara virði. Það er orð sem heyrist of sjaldan. Það er orð sem við segjum ekki nógu oft. Það er orð sem of oft gleymist.

Mennirnir sem segir frá í guðspjallinu voru án efa þakklátir Jesú, þeir höfðu hlotið lækningu meina sinna – ekki er hægt að efast um að þeir hafi fundið til þakklætis. Á tímum Jesú þýddi það að fá lækningu meina sinna ekki einungis það að vera laus undan áþján sjúkdóma heldur voru þeir sem voru veikir líka útskúfaðir úr samfélaginu.

Já, þeir voru án efa þakklátir, en aðeins einn mundi eftir að þakka Guði.

Kæru fermingarbörn. Ég veit að þið eigið eftir að segja þetta orð, orðið TAKK, óvenjuoft í dag, mun oftar en þið eruð vön að gera á venjulegum degi. Ykkur eiga eftir að berast góðar gjafir og fyrir þær er eðlilegt að þakka. En hugleiðið um leið allt annað sem er þakkarvert í lífi ykkar – og hver og einn finnur það innra með sjálfum sér hvað það er.

Já, það er margt að þakka á þessum degi sem með nafni sínu flytur okkur boðskap um árstíðaskiptin sem fram undan eru í náttúrunni og flytur okkur um leið boðskap um allan fjölbreytileika lífsins, um allt það sem gefur lífinu fegurð og gildi. Við þökkum þennan dag, þökkum helga stund hér í kirkjunni, veislurnar sem fram undan eru, samveru með ættingjum og vinum. Við þökkum fyrir allar gjafir lífsins, börnin sem hér fermast og barnið sem borið er til skírnar, og við biðjum þess að þakklætið beri ávöxt í lífi okkar öllu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.