Erum við hans fólk

Erum við hans fólk

Flestir vilja vinna að framgangi hins góða, fagra og sanna. Í sérhverri baráttu fyrir mannúð og mennsku, fyrir réttlæti og samvinnu, eiga kristnir að vera í fararbroddi.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Gleðilega jólahátíð! Annar dagur jóla og við höfum heyrt jólaguðspjallið óma hér og síðustu daga. Frásöguna sem við þekkjum öll, ferðasögu unga parsins og fæðingu Jesú barnsins.

Hvað er það sem fær okkur til að rifja upp frásöguna ár eftir ár?  Hvað geymir hún sem óvenjulegt er?

Þar er að finna eitthvað stórkostlegt. Þar er að finna þá dýpt sem mannssálin þráir og leitar að. Þar er að finna þau svör sem veita ró og frið, gefa hinum trúaða viturt hjarta.

Stíll frásögunnar er einfaldur, fá orð eru notuð til að koma miklu á framfæri.

Það voru boð sem komu frá keisaranum, einmitt um þessa mundir.

Keisarinn Ágústus vildi skrásetja alla heimsbyggðina. Hann vildi hafa yfirsýn yfir ríki sitt, telja alla menn og það var í fyrsta skipti sem slíkt hafði verið gert, samkvæmt guðspjallinu.

Hver og einn átti að fara til sinnar borgar til að láta skrásetja sig.

Unga parið heitbundna stefndi því til Betlahem, þangað sem Jósef átti sínar ættir að rekja og hann hlýddi boði keisarans þrátt fyrir að María heitkona hans ætti von á sér og væri kannski ekki ferðafær.

Þegar til heimaborgarinnar kom var ekki pláss fyrir þau. Engin laus rúm voru til taks, svo þau þurftu að hýrast undir sömu bjálkum og húsdýrin.

María átti von á sér, og í samfélagi gripa og í fjárhúsi, þar kom barnið í heiminn, þar fæddist barn þeirra á vettvangi sem má segja að hafi verið vettvangur þeirra sem eru á jaðrinum í samfélaginu, nánast á götunni.

Ekki er nein sérstök dýrð yfir þessari ferðasögu af unga parinu sem hlýddi boði keisarans í vanmætti sínum. Ferð þeirra hafði áfangastað þar sem ekki var gert ráð fyrir þeim, þar sem ekki var pláss, og barnið fæddist við bágbornar aðstæður og kröpp kjör.

Einhvern veginn finnst mér meira talað um þá sem njóta velgengni, eiga mikið undir sér, eru sigurvegarar þessa heims. Raddir þeirra sem fæðast á götunni heyrast síður.

Stundum heyrum við frásagnir af ógæfusömum einstaklingum. Börnum sem búa við kröpp kjör, foreldrum sem lenda í vanda. Stundum heyrum við frásögur af því að börn deyja fyrir aldur fram og sum þekkjum við dæmin.

Flest eiga þau það sameiginlegt að vera mönnum gleymd, hvergi minnst.

Ólíkt flestum börnum sem hafa fæðst, lifað við kröpp kjör og jafnvel dáið fyrir aldur fram og gleymst í tímans rás, gleymst okkur mannfólkinu, en þó ekki Guði, þá gleymdist frásagan ekki af þessu litla barni sem lagt var í lágan stall hina fyrstu jólanótt. Þótt litla barnið ætti ekki eftir lifa sérstaklega langa ævi. Þótt litla barnið ætti eftir að enda líf sitt á krossi fyrir aldur fram, þá lifir það enn, þá lifir frásagan, þá ríkir sá andi yfir nafni þess sem helgur blær leikur um.

Við þekkjum án efa öll fólk og frásögur af fólki sem býr við kröpp kjör, af börnum sem fæðast inn í aðstæður sem ekki eru vænlegar til þroska og lífs. Hversu mörg eru þau börn sem komið hafa í heiminn óvelkomin og hafa jafnvel látist fyrir aldur fram?

Enginn á tölu yfir þau öll! En í jólajötunni er minning þeirra varðveitt, er nafn þeirra skráð. Þótt heimurinn gleymi þá gleymir Drottinn ekki!

Á jólum eitt sinn hér í okkar góðu borg í okkar góða landi gekk ég eftir messu á jóladag upp í Gistiskýli, eins og við gerum gjarnan hér í Dómkirkjunni, klukkan var að verða eitt.

Þar var nánast fullt, þá jólanótt. Margur átti ekki höfði sínu að halla annarsstaðar, fékk inni þarna í þetta skiptið og kannski oft áður og jafnvel síðar.

Ég bauðst til að lesa jólaguðspjallið. Slökkt var á sjónvarpinu og lestrinum tekið með gleði. Spjall við nokkra og minningar, tár á kinn og bros í bland og allt það falið í þeirri bæn sem Drottinn hafði kennt. Rétt áður en ég hélt heim sagði einn þeirra ljúfu karla sem þarna gistu þá jólanótt, vinur minn:

,,Veistu hvað? Nei svaraði ég. Ég heyrði í hádegisfréttunum áðan að það fannst einn sofandi í nótt hér úti í borginni, hann hafði víst fengið sér aðeins of mikið neðan í því!"

- Ææ það var vont að heyra.

- Já en lögreglan tók hann upp og leyfði honum að sofa úr sér í fangageymslunni.

- Jæja það var gott að þeir vitjuðu hans og hlúðu að honum.

- Já það fannst mér líka, en þegar ég fór að hugsa, núna eftir að ég fékk hér að borða áðan. Eftir að ég fór að hugsa, þá komst ég að því að þetta var ég!

Og svo fór hann að hlæja, en þó með trega því í bland við þessa glettnu frásögu þá hafði hann áhyggjur af börnum sínum. Það var langt síðan hann hafði hitt þau og barnabörnin. Það var nefnilega það, þar var hugurinn þótt aðstæður væri öðruvísi en hann óskaði!

Hann er einn af mörgum sem glímir við sjálfan sig, sjúkdóma, erfiðleika. Frásögur eru fleiri af fólki sem gistir hitakompur, hýrist á stundum í tjöldum þegar hlýrra er, fær ekki þá þjónustu sem mætir þeirra þörf.

Margir glíma við sjúkdóma á líkama eða sálu, en skilningsleysið og fordómarnir eru kannski verstir.

Margir eru einir, þekkja þá kennd að vera einmana. Öll tökumst við á við breytingar í lífinu. Þegar hlutverkin breytast, þegar við förum milli þroskaskeiða, glímum við sjúkdóma eða annað.

Margt er það eða verður gleymt og grafið. En við megum í ljósi jóla vita að hugur Drottins varðveitir það allt og vill leiða það allt til góðs.

Þrátt fyrir gleymsku heimsins og á stundum skeytingarleysi þá hefur frásagan af barninu frá Betlehem varðveist. Hún er rifjuð upp á þessum tíma um allan heim.

Valdshafar, vantrúarfólk og aðrir hafa ekki getað þurrkað þau spor úr mannkynssögunni sem hófust á göngu þeirra Maríu og Jósefs sem hlýddu boði keisarans.

Sú frásaga lifir, og ekki aðeins frásagan heldur allur sá veruleika sem jólin boða.

Sviðsmynd frásögunnar er veröldin, fólk af holdi og blóði. Fólk sem ekki endilega hafði mikið milli handanna. Parið unga fékk inni og skjól hjá kusu og rollum, ösnum og öðrum skepnum.

Einhver hafði miskunnað sig yfir þau, hleypt þeim inn í fjárhús og sagt að þar myndu þau hið minnsta fá skjól fyrir kulda næturinnar og frið frá áreiti öðru.

Í sömu byggð voru hirðar úr í haga að gæta hjarðar sinnar. Þetta þekkjum við, þá frásögu alla!

En hér í borginni förum við kannski brátt að týna þeirri þekkingu sem fylgir því að vera nærri húsdýrunum, annast þau og hirða. Hirðarnir voru út í haga að gæta dýranna.

Við fjölskyldan reynum að hafa það sem sið á jólum að fara í Húsdýragarðinn í tengslum við hátíðina. Finna ilminn af kindunum, fá að klappa kollinn á geitunum, stjúka hestunum og sjá þau öll hin. Einhvern veginn færist fjárhúsið forðum nær, umgjörðin og hin helga frásaga.

En hirðarnir forðum urðu furðu lostnir því næturhimininn varð bjartur sem dagur!

Boð kom úr óvæntri átt, ekki frá keisaranum. Ekki frá fólki af holdi og blóði, en samt boð til þeirra, hirðanna.

Inn í þeirra veraldlegu aðstæður komu boð frá hinum hæsta, frá himnum! Í mikilli þversögn við hinar hörðu aðstæður litla barnsins í jötunni heyrðust boð, ólík kalli keisarans um skrásetningu.

Það eru boð af himni frá skapara alls sem er. Engill, eða sendiboði Guðs, stóð hjá hirðunum í haganum og sagði: ,,Verið óhræddir, því sjá ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum.”

Það eru hirðarnir sem samkvæmt guðspjallinu fá þau boð fyrstir manna. Hirðarnir voru nú ekki staðsettir hátt í virðingarstiga samfélagsins, en boðin voru ætluð þeim.

Fagnaðarboð til allra manna. Þau boð eru ætluð þér hér í Dómkirkjunni í dag.

Inn í kröppu kjörin, til þeirra sem lýða skort, eiga erfitt, glíma við sjúkdóma, fordóma, samskiptaleysi, afskiptaleysi, firringu og dauða. Til allra manna sem glíma við lífið og tilveruna hljóma fagnaðarboð englanna frá skapara alls sem er: ,,Yður er í dag frelsari fæddur sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.”

Í einum sálmi segir:

Velkomin vertu, vetrarperlan fríð, síblessuð sértu, signuð jólatíð.

Vegna barnsins í jötunni, höldum við jól! Fagnaðarerindið um fæðingu frelsarans er flutt um alla heimsbyggð.

Jólin flytja okkur boðskap í dimmum heimi um nýtt hugrekki sem tekur ekki óttann frá okkur heldur veitir okkur nýja fullvissu, nýtt mótvægi, nýja sannfæringu. Jólin flytja okkur rétt eins og hirðunum nýjan fögnuð sem veitir þrótt í daglegu lífi. Jólin eiga það erindi til okkar að veita nýja von, án vonar getur enginn maður lifað.

Boðskapur jólanna er ekki aðeins fyrir okkur, hann er falinn okkur annarra vegna, samfélagsins vegna, hann er falinn okkur alls heimsins vegna.

Okkar er að lifa þann frið sem jólin boða og sýna hugrekki trúarinnar með lífinu sjálfu. Vettvangurinn er okkar nánasta samfélag, fjölskyldan, heimilið, en einnig náungi okkar, hver sá sem mætir okkur á lífsins vegi.

Þar ber okkur að byrja að vinna að friði og fögnuði í heiminum, í hinu smáa, í umgengni hvert við annað, í leikjum sem við kennum börnunum, í samtali um menn og málefni, í gagnrýnni umræðu um pólitík dagsins.

Jólaguðspjallið kallar okkur til jötunnar, til hans sem lagði allt í sölurnar. Erum við hans fólk, fylgjum við fordæmi hans, treystum við honum?

Kirkjan hér í heimi og þar með sérhver kristinn maður hefur miklu hlutverki að gegna. Og það á reyndar ekki aðeins við um kirkjuna heldur öll trúarbrögð og öll samtök sem vinna að góðum málum.

Flestir vilja vinna að framgangi hins góða, fagra og sanna. Í sérhverri baráttu fyrir mannúð og mennsku, fyrir réttlæti og samvinnu, eiga kristnir að vera í fararbroddi.

Um þetta snýst jólaguðspjallið. Sagan eftir fæðinguna heldur áfram, hún hefst við jötuna og stefnir út í heiminn, til allra, hvar sem þeir búa.

Guð kom til hirðanna, hann kemur einnig til þín. Hann kemur til þeirra allra sem þrá hann innst inni og vilja gera hjarta sitt að jötu hans. Þannig veitum við Drottni viðtöku, þannig koma jólin.

Jólin eiga gjarnan sérstakan sess í lífi okkar. Minningar eigum við án efa af bernsku jólum sem við kannski rifjum upp og höfum hugsanlega notið síðustu daga.

Góðir siðir, matarlykt, tónlist, jólagjafir, jólaklæði, spil og söngur og samfélag við fjölskyldu, vini og þá sem okkur eru kærir. Einhvern veginn sameinast svo margt í þessari hátíð sem stendur okkur svo nærri.

Ég velti stundum fyrir mér hvort siðirnir og venjurnar fari að skyggja á hvað jólin snúast raunverulega um. Er það sannleikurinn um Guðs komu í heiminn sem er markmiðið með öllum undirbúningnum? Já ég hugsa það sé nú þannig oftast, hjá flestum þótt hátt láti í mörgum!

Samkenndin og samhyggðin er oft svo sterk í okkar litla samfélagi og sýnir sig svo vel fyrir og um jólin. Við lítum til náungans, við viljum að allir séu með, fái sæti við hátíðarborðið, enginn sé útundan.

Á jólum minnumst við þeirra sem látnir eru. Kirkjugarðarnir fyllast lífi og ljósum, bænarorðum, óskum og vonum, tárum á kinnum og jafnvel brosum út í annað og glettni yfir góðum minningum eða öðru sem við höfum átt.

Það er einmitt vonin sem við eigum í litla jólabarninu að lífið sé eilíft. Sú von birtist svo oft og kristillast í öllu því sem við framkvæmum og gerum um hátíðina.

Ég frétti af stórfjölskyldu einni sem alltaf hafði það fyrir sið á jólum að taka mynd af fjölskylduhópnum.

Alltaf stilltu þau sér upp, þjöppuðu sér saman og létu taka mynd af sér hópurinn allur, stórir sem smáir. Er árin liðu bættust við einstaklingar í hópinn, makar, börn og barnabörn. Á stundum vantaði einhverja sem kvatt höfðu frá því árið áður og var þeirra minnst.

Einhverju sinni hvarflaði það að einum í hópnum að fá allar myndirnar frá liðnum árum og vildi sjá, bera saman hvernig fjölskyldan hafði breyst, hvernig maður sjálfur hafði breyst. Það væri skemmtilegt að líta til baka og leyfa þessum myndum að segja söguna.

Í ljós kom að myndirnar fundust hvergi, filmur voru týndar, minniskubbar tómir og framkallaðar myndir höfðu glatast. Ekki fannst tangur né tetur af þessum heimildum. Súrt fannst þeim flestum að geta ekki nálgast þær því gaman væri að lesa sögu fjölskyldunnar í gegnum þessa árlegu myndartöku.

Þegar þau í fjölskyldunni hugsuðu meira um þetta þá komust þau flest að því að þótt gaman hefði verið að finna myndirnar þá var kannski það mikilvægasta við þennan góða sið, að ávallt höfðu þau verið saman á þessum tímamótum. Að ávallt höfðu þau þjappað sér saman, styrkt fjölskylduböndin og ræktað fjölskyldumyndina, sjálfsmynd fjölskyldunnar og líf, þrátt fyrir að myndirnar voru ekki lengur til.

Það gerum við á jólum með ýmsu móti, gefum gjafir, sendum kort, óskum gleðilegra jóla.

Yfir því öllu er friður, sá friður sem á uppruna sinn hjá þeim sem allt gefur.

Drottinn gefur svo miklu meira heldur en við getum þakkað með endurgjaldi. Það eina sem hann vill í staðinn er að sjá lífshamingju okkar og náunga okkar, sjá það að við lifum hamingjunnar ævi og glaða daga.

Hin stóra gjöf jólanna er sannleikurinn um Jesú Krist sem fæddist í fjárhúsi á jólunum fyrstu, var lagður í jötu, og ríkir himnum á.

Sú mynd tónar við mannsins dýpstu drauma um frið og kærleika, hún tónar við þann óm sem hljómar í mannsins sál. Jólin boða okkur að þú ert ekki einn og þú ert ekki ein! Drottinn er nærri, Drottinn er hér, með mér og með þér!

Fyrir það sé Guði dýrð, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen