Gæfuspor

Gæfuspor

Ég man eftir Sigga gamla einbúa á Akureyri. Hann bjó einn í timburskúr, smíðaði úr járni og hellti sér upp á lútsterkt kaffi. Ég var stundum sendur til hans með nýsteiktar kleinur í poka.
fullname - andlitsmynd Gylfi Jónsson
17. nóvember 2013
Flokkar

Í dag erum við umvafinn náð Guðs. Við höfum gengið hingað inn til að finna handleiðslu Guðs. Tekið frá stund á sunnudegi fyrir andlega næringu. Taka undir lofsönginn, leggja bæn okkar í lófa Guðs og hlusta á það sem hann vill við okkur tala. Í dag talar hann afar skýrt til okkar. Síðari ritningarlesturinn, pistillinn, er eins og sniðinn fyrir okkur kirkjustarfsfólk og fer vel á því að hér eru kirkjuþingsfulltrúar með okkur í dag.

Í guðspjalli dagsins sem er úr 11 kafla Matteusarguðspjalls segir Kristur fyrst, að hyggindamönnum og spekingum hafi ekki hlotnast opinberun Guðs heldur hafi smælingjunum hlotnast að þekkja vilja Guð. Þarna er Kristur að setja ofan í við spekinganna sem hreyktu sér upp vegna þekkingar sinnar. Þeir höfðu hafnað Kristi. Kenning hans féll ekki að speki þeirra eins og þeir túlkuði hana. En Kristur var boðberinn á torgunum, sá er kallaði alla til fylgdar, og undirstrikaði köllunina er hann tók að sér tollheimstumenn og syndara, útrásarvíkinga og afbrotamenn.

Og þar sem ekki var þegar ljóst hvar þekkingin á Guði var og spekin sanna, þá segir Kristur: Sonurinn býr yfir þekkingu Guðs, og miðlar henni til læriveina sinna. Orð hans hafa þannig fengið vægi, þau eru hin sönnu, og eru ljáð eyrum fólksins svo að allir komis til þekkingar á sannleikanum.

Þar með er grunnur orðanna lagður. Kletturinn sem líf hvers manns á að byggjast á eigi hann að standast í lífsins straumi. Í dag segir Kristur við okkur. Komið til mín, þið sem erfiðið og hafið þungar að bera. Ég mun gefa ykkur hvíld. Og lærið af mér: Sýnið hógværð, sýnið lítillæti og munið að hjá mér er uppspretta lífsins hjá mér getur sálin hvílst. Lærið af mér segir Kristur.

Kenn þeim unga þann veg sem hann skal ganga, og hann mun á gamals aldri eigi af honum víkja.

Grunnstoðir samfélags okkar byggja á kristnum grunni. Kristin siðfræði er viðmiðið í löggjöf okkar. Eignarétturinn, réttlætið, fyrirgefningin náungakærleikur. Allt á þetta rót sína í orðum Jesú Krists.

Allt frá upphafi skóla á Íslandi hefur kristinn boðskapur átt fastan sess í menntin Íslendinga. Biskupsstólarnir voru vagga mennta. Prestsheimilið kom næst sem mennta- og menningarstofnanir. Skólar fyrir almenning urðu til.

Á Sauðárkróki er athyglisverður hin menningarlegi þríhyrningur í miðbæ Sauðárkróks. Þar sem er kirkjan, skólinn og spítalinn.

Í skólagöngu okkar eldra fólksins voru lestur, skrift, reikningur og biblíusögur fastar námsgreinar. Þar hafa foreldrar falið skólanum ákveðinn þátt af menntun barna sinna þar með talið skírnarfræðslunni.

Nú hefur kristindómsfræðslu verið vikið til hliðar í mörgum skólum. Börn og unglingar þekkja ekki orð Jesú Krists um náungakærleika, fyrirgefning, umburðarlyndi og ást.

Hér hefur stór grein verið höggvin af þeim meiði er nærði hana. Slík grein gerir ekki annað en visna.

Hér þurfuð við kristið fólk að tryggja að væntanlegt sveitarstjórnarfólk sjái til þess að kristinfræðsla verði föst námsgrein í skólum á ný. Þannig styrkjum við samfélagið okkar til að varðveita og styrkja hin andlegu og siðferðilegu gildi sem eru okkur svo verðmæt

Önnur er sú grein sem af kristilegum meiði er sprottin. Lækning og hjúkrun sjúkra. Þar má langt skyggnast aftur í aldir. Látum nægja að benda á þá samfélagsþekkingu sem Steinunn Kristjánsdóttir hefur lokið upp fyrir okkur með rannsókn sinni á Skriðuklaustri. Á heilsugæslum og sjúkrahúsum er tekið við þeim sem eiga erfitt og þunga sjúkdóma eru hlaðin. Út frá orðinu um að bera elsku hvert til annars er læknað og líknað. Af hugsjón og þrá til að láta gott af sér leiða. Yfir og allt um kring eru bænir fjölskyldna, ástvina, safnaða og fyrirbænahópa. Bænir um nærveri Guðs, handleiðslu, bæn um að Drottinn Guð komi með sitt breiða bak og taki á sig þunga sjúkdóma og blessi handarverk lækna og starfsfólks. Hér má síst missa sjónar á hvaðan krafturinn kemur, hver setti markið um umhyggju eins fyrir öðrum. Þröngar kransæðar heilbrigðiskerfisins þarf að hreinsa, vel launað og ánægt starfslið er lykill að árangri umhyggjunnar. Grunnurinn liggur í orðum Jesú Krists.

Hér skal líka minnst á umhyggju fyrir fötluðum og öldruðum. Einhver okkar muna trúlega eftir fötluðum einstaklingi sem hér á árum áður var sagður aumingi. Ég minnist þess að hafa komið á bóndabæ norður í landi þar sem einn heimilismanna var kölluð Gauja aumingi. Kona, líkamlega og andlega fötluð.

Ég man eftir Sigga gamla einbúa á Akureyri. Hann bjó einn í timburskúr, smíðaði úr járni og hellti sér upp á lútsterkt kaffi. Ég var stundum sendur til hans með nýsteiktar kleinur í poka.

Í báðum þessum málflokkum hefur orðið mikil breyting. Það þekkjum við vel. Sr. Guðmundur Einarsson á Mosfelli í Grímsnesi stofnaði Barnaheimilisnefnd Þjóðkirkjunnar til að vinna með Sesselju Sigmundsdóttur að uppbyggingu Sólheima í Grímsnesi. Leiðin að þeim Sólheimum sem við getur heimsótt í dag er þyrnum stráð. Beittum og bitrum. En kærleikshugsjón Sesselju slokknaði ekki hjá þeim sem hafa byggt þá Sólheima sem í dag er dýrmæt umgjörð okkar minnstu bræðra og systra. Það er eftirtektarvert að sú bygging sem þar gnæfir yfir byggðahverfið er kirkjan.

Nefnum einnig til sögunnar upphaf öldrunarheimila á Íslandi. Þekkiði sögu Líknarfélagsins Samverjinn? Örfáir hér inni, en það var stofnað af guðfræðingnum Sigurbirni Ástvaldi Gíslasyni og fleirum með það markmið að byggja heimili fyrir aldraða Reykvíkinga. Þá var árið 1921. Þá bjuggu í Reykjavík 11 þús. manns. Dvalarheimið við hringbraut var svo vígt 28. Sept. 1930. Þá voru heimilismenn 56.

Í lok þessarar upptalningar skal því einnig haldið til haga að einn af leiðandi arkitektum að Félagsmálastofnum Reykjavíkur var gamlatestamenntisfræðingurinn og borgarfulltrúinn dr. Þórir Kr. Þórðarson.

Allt það starf sem hér hefur veið nefnt og svo ótal margt annað er sprottið og nært að sama meiði. Þennan meið, þessi burðarstofn þarf sífellt að eiga sína næringu. Þá næringu er að sækja í trúna. Guðræknina. Bænalífið. Helgihaldið. Þekkingu á Guðs orði. Samfélagið þar sem trúaðir koma saman.

Í dag er vegið hart að þessum þáttum. Kristindómsfræðslu í skólu hefur víða hrakað, hún næstum horfin. Ríkisvaldið hefur tekið söfnuði landsins kverkataki svo liggur við köfnun. Sum staðar hefur okkur mistekið að halda úti nægilega kröftugu helgihaldi.

Hér þurfum við kristið fólk að setjast niður, já krjúpa niður og kalla eftir lausnum.

Byrja á bæn guðfræðingsins Niebuhr:

Guð gefðu mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.

Vinna lausnarmiðað að þvi sem við getum breytt. Byggja hvert annað upp sem lifandi steina í það kristna, kærleiksríka samfélag sem viljum lifa í. Gerum sem Páll postuli nefnir við okkur í ritningarlestrinum: Sýnið þeim virðingu sem erfiða yðar á meðal og veita yður forstöðu í Drottni.....og lifið í friði yðar á meðal. Verið ætíð glöð, biðjið án afláts.

Þessa dagana eru fulltrúar okkar á kirkjuþingi að ræða þau verkefni sem brýn eru í starfi kirkjunnar í dag. Þau eru að tala sig niður á góðar lausnir mála. Þau eru að styrkja raðirnar. Þau eru að efla innviðina. Biðjum fyrir störfum þeirra. Eflum þau til að“...prófa allt og halda svo því sem gott er.“

Það er svo persónulegt ánægjuefni mitt að mega þjóna hér í dag á afmælishátíð safnaðarins. Hér var ég hluti af blómlegu safnaðarstarfi með ungum sem öldnum. og á ég hlýjar minningar frá þeim dögum. Þar var frækornum sáð. Þar komu margir við sögu, svo margir að sóknarnefndarformaðurinn orðaði það þannig, að sökum fjölda væri öldrunarstarfið komið úr böndunum.

Hér áttum við sr. Halldór Gröndal okkar vikulegu biblíulestra og bænastundir. Guð blessi minningu hans.

Þá þykir mér afar vænt um að mega þakka Margréti Pálmadóttur og kór hennar fyrir að leiða lofsöng okkar í dag, - en hingað kom hún fyrir mín orð á sínum tíma til að stofna stúlknakór við kirkjuna.

Góðir kirkjugestir og vinir.

Guð blessi og leiði þennan söfnuð, - þau sem hingað sækja og - þau sem hér þjóna orði kærleikans. Megi kirkjuþingsfulltrúarnir okkar finna fyrir handleiðslu Guð við úrlausn þeirra mála er þingsins bíða. Megi sérhvert gengið spor verða okkur og samferðafólki okkar gæfuspor.

Í Jesú nafni. Amen.