Í grein okkar í Morgunblaðinu 27. okt. sl. gagnrýndum við tillögu Hjalta Hugasonar prófessors um þjóðkirkjuákvæði í nýrri stjórnarskrá. Hann hefur nú brugðist við gagnrýni okkar í grein á trúarvef þjóðkirkjunnar og ljóst er að hann hefur á liðnum dögum nálgast sjónarmið okkar. En ástæða er til að ítreka að ekkert bendir til að þeir sem greiddu atkvæði með þjóðkirkjuákvæði hafi með því viljað draga sem mest úr vægi þess í nýrri stjórnarskrá. Þannig er ekki hægt að fallast á að það sé „ásættanlegt lágmark“ fyrir meirihluta kjósenda sem greiddi atkvæði með þjóðkirkjuákvæði að einungis sé minnst á nauðsyn þess að setja landslög um þjóðkirkju, lög sem gætu allt eins verið henni neikvæð og skert hlutverk hennar. Það er einfaldlega ekki nóg að setja stjórnarskrárákvæði um það eitt að í landinu starfi þjóðkirkja, að málefni hennar heyri undir opinberan rétt og að staða hennar sem þjóðkirkja sé skilgreind í lögum.
Það sem þarf að koma fram í stjórnarskrá er gildi þjóðkirkju fyrir samfélagið og skylda ríkisvalds til að standa vörð um það gildi. Núverandi stjórnarskrárákvæði um þjóðkirkju snýst um þetta en engu að síður mætti skerpa á því frekar og útvíkka það til annarra félaga sem skilgreina sig sem trúfélög eða lífsskoðunarfélag og myndað hafa formleg tengsl við ríksivaldið með skráningu. Taka má undir þá ábendingu Hjalta að hugsanlega megi árétta menningarlegt vægi kristinnar trúarhefðar strax í inngangi nýrrar stjórnarskrár. Það er hins vegar misskilningur að við séum að halda því fram að núverandi þjóðkirkjuákvæði sé beinlínis mælikvarði á trú þjóðarinnar. Þó má ekki að vanmeta táknrænt gildi þess að þjóðkirkju sé getið á jákvæðan hátt í stjórnarskrá einkum og sér í lagi þar sem hún er jafngömul trúfrelsisákvæðinu. Það sem árétta þarf er mikilvægi kristinnar trúar sem menningarhefðar sem samofin er íslensku samfélagi um leið og það er áréttað að hér ríki umburðarlyndi þar sem kristin og húmanísk sjónarmið þrífist hlið við hlið í góðri allsherjarreglu og séu jafnvel samofin.
Hjalti virðist ganga út frá þeirri forsendu að ríkisvald geti verið trúarlega hlutlaust en færa má rök fyrir því að ekkert raunverulegt hlutleysi sé þar mögulegt. Ennfremur má færa rök fyrir því að enginn raunverulegur aðskilnaður sé mögulegur milli ríkisvalds og trúarstofnana enda snúist málið þvert á móti um hvers konar tengsl sé þar um að ræða. Aðskilnaðarorðræðan er oftar en ekki tæki þeirra sem ýmist vilja koma í veg fyrir eftirlit hins opinbera varðandi kenningu, skipulag eða fjármál trúarstofnana eða vilja þrengja sem mest að trúarstofnunum í opinberu rými.
Það hlýtur að vera skylda ríkisvalds að styðja og vernda þau trúfélög sem starfandi eru í landinu, myndað hafa formleg tengsl við ríkið og varðveita umburðalynda trúarlega menningarhefð. Þetta hlutverk ríkisvalds er svo mikilvægt að það ber að festa það í stjórnarskrá. Hins vegar gæti verið ástæða til að skerpa betur á því hvað átt er við með stuðningi og vernd. Slíkt ákvæði snýr hvorki að fjárhagslegum skuldbindingum né vernd frá hvers kyns gagnrýni. Tilgangurinn með ákvæðinu er fyrst og fremst sá að tryggja að trúarhefðir séu metnar að verðleikum í opinberu rými og þeim ekki vikið til hliðar á þeirri forsendu að lítið sem ekkert sé um þær sagt í stjórnarskrá. Þetta er það sem Hjalti hefur greint sem jákvætt trúfrelsi en reynslan sýnir að þegar reynt er að gera hið opinbera rými „veraldlegt“ getur það hæglega snúist upp í andúð gegn hvers kyns trúarhópum og trúarhefðum. Hið svokallaða „neikvæða trúfrelsi“ þar sem ríkisvald beitir sér fyrir því að sem minnst fari fyrir öllu trúarlegu á þeim forsendum að almenningur þurfi frelsi undan öllu slíku er ekki raunverulegt trúfrelsi heldur óþol.
Tillöguna að nýju þjóðkirkjuákvæði, sem við kynntum í grein okkar, má útfæra með ýmsum hætti svo framarlega sem það inntak hennar standi að stjórnarskráin árétti að ríkisvaldi beri að vernda og styðja jafnt þjóðkirkju sem önnur sambærileg félög sem hlotið hafi skráningu og myndað formleg tengsl við ríkið. Ekkert er því til fyrirstöðu að hafa stjórnarskrárákvæði þess efnis að breyta megi því að þjóðkirkjan hafi stöðu þjóðkirkju gagnvart ríkinu. Með tillögu okkar var slíku ekki andmælt. Hins vegar má spyrja hvort eðlilegt sé að hafa ákvæði þess efnis að meirihluti kjósenda geti dregið til baka stuðning og vernd við skráð trúfélög.
Sú tillaga sem Hjalti lagði fyrir stjórnlagaráð á sínum tíma er mjög í anda þeirra sjónarmiða sem við byggðum tillögu okkar á og tökum við undir með honum að draga megi hana fram á nýjan leik. Breytingartillögur okkar við hana eru færðar inn í hornklofa: „Ríkisvaldið [styður og] verndar öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög. [Evangelísk-lúthersk kirkja] er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má [þjóðkirkjuákvæðinu] með lögum. Slíka breytingu skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu. Nánar skal kveðið á um stöðu þjóðkirkjunnar í lögum.“ Þessi tillaga er í anda tillögu okkar og í fullu samræmi við niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.