Lærisveinsskinn

Lærisveinsskinn

Hvernig getum við minnst Bartólómeusar án þess að minnast á hans eigin skinn, skinnið sem hann missti? Góður lærisveinn er eins og húðfruma, lærisveinsskinn. Hún er sjálfstæð eining. Hún vinnur verk sitt, en þetta verk er alltaf unnið í samhengi annarra.
fullname - andlitsmynd Sigríður Guðmarsdóttir
24. ágúst 2014
Flokkar

27Þið eruð líkami Krists og limir hans hvert um sig. 28Guð hefur gefið öllum sitt hlutverk í kirkjunni: Fyrst hefur hann sett postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi kennara, sumum hefur hann veitt gáfu að gera kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum. 29Geta allir verið postular? Eru allir spámenn? Eru allir kennarar? Eru allir kraftaverkamenn? 30Hafa allir hlotið lækningagáfu? Tala allir tungum? Útlista allir tungutal? 31Nei! En sækist eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. 1. Kor. 12:27-31a

43Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: „Fylg þú mér!“ 44Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur. 45Filippus fann Natanael og sagði við hann: „Við höfum fundið þann sem Móse skrifar um í lögmálinu og einnig spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs.“ 46Natanael sagði: „Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?“ Filippus svaraði: „Kom þú og sjá.“ 47Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: „Hér er sannur Ísraelíti sem engin svik eru í.“ 48Natanael spyr: „Hvaðan þekkir þú mig?“ Jesús svarar: „Ég sá þig undir fíkjutrénu áður en Filippus kallaði á þig.“ 49Þá segir Natanael: „Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels.“ 50Jesús spyr hann: „Trúir þú af því að ég sagði við þig: Ég sá þig undir fíkjutrénu? Þú munt sjá það sem þessu er meira.“ 51Og hann segir við hann: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn.“ Jóh. 1: 43-50.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

Í dag 24. ágúst er messudagur Bartólómeusar postula. Ég fletti upp þessum lærisveini Jesú og áttaði mig þá á því að ég vissi mest lítið um þennan frumkvöðul frumkirkjunnar, eiginlega ekkert nema nafnið og að hann hefði verið einn af postulunum. Ræðan í dag fjallar um það að vera lærisveinn Jesú og við veltum fyrir okkur lífi og starfi eins af þeim fyrstu sem slógust í för með meistaranum frá Nasaret.

I.

Í fyrstu guðspjöllunum þremur, samstofna guðspjöllunum Mattheusi, Markúsi og Lúkasi er Bartólómeus nefndur sem einn úr lærisveinahópnum. Postulasagan nefnir hann líka þar sem hann dvelur með hinum lærisveinunum í loftstofunni á Olíufjallinu. Þar er sagt að lærisveinarnir hafi í einum anda helgað sig bæn, með konunum og Maríu móður Jesú og bræðrum hans. En síðan heyrist ekki bofs um Bartólómeus í Biblíunni. Postulasagan nefnir ekkert af kristniboðsafrekum hans og enginn af þeim sem rituðu bréf Nýja testamentisins nefnir nafn hans, iðju eða dvalarstað.

Því hefur verið haldið fram að postulinn Bartólómeus og postulinn Nathanael í Jóhannesarguðspjalli séu sami maðurinn. Öll guðspjöllin segja að lærisveinarnir hafi verið tólf, en Jóhannes nefnir aldrei Bartólómeus og samstofna guðspjöllin þrjú minnast aldrei á Natanael. Það er athyglisvert að í guðspjallssögu Jóhannesar um köllun Nathanaels er hann leiddur til Jesú af vini sínum Filippusi, en Filippus og Bartólómeus eru líka nefndir í sömu andránni í samstofna guðspjöllunum. Sumir fræðimenn halda því jafnvel fram að Bartólómeus sé ekki eiginnafn, heldur föðurnafn, þar sem Bartólómeus á arameísku þýðir “sonur Tolmajs” Það má alveg hugsa sér að þessi leyndardómsfulli lærisveinn Jesú sem svo lítið er vitað um hafi heitið Nathanael sonur Tolmajs. Enginn veit það nema Guð einn.

Ef við leitum upplýsinga um Bartólómeus í gömlum hefðum og helgisögum fiskum við betur. Hann var sagður hafa prédikað fagnaðarerindið á Indlandi og í Armeníu. Eftir því sem helgisagan segir á hann að hafa verið fleginn lifandi og loks afhöfðaður af fólki sem leist illa á boðskapinn í Albanopolis í fjallahéruðum Armeníu. Okkur kann að hafa virst þessi grimmd heyra fornum tíma til, þangað til í þessari viku. Hin hryllilega afhöfðun blaðamannsins James Foley af hendi hryðjuverkasamtakanna Íslamska ríkisins og ofsóknir þeirra á hendur síta, jazída og kristins fólks í Norður-Írak setja örlög Bartólómeusar í samhengi. Það er ekki svo langt á milli Alabanópolis og Mósúl. Ofbeldi er bæði gömul og ný saga og við skyldum vara okkur á því að verða ónæm fyrir henni.

II.

Meinlætasögur, tákn og helgisögur kristninnar taka oft á sig undarlegar og þversagnakenndar myndir. Þar sem Bartólómeus var fleginn, varð hann höfuðdýrlingur sútara, sem einmitt höfðu viðurværi sitt af að flá og súta skinn. Í kristinni táknsögu er hægt að finna merki Bartólmeusar með því að hafa hugfast hvernig hann dó. Hér frammi í kirkjunni hanga tákn lærisveinanna tólf og á einni myndinni má sjá fláningarhnífinn lagðan ofan á hina helgu bók. Bartólómeus var frekar vinsælt myndefni í endurreisnar og barokk list og á hinni frægu veggmynd Michaelangelo í Sixtínsku kapellunni má sjá vegginn þaktan í líkömum. Efri helmingurinn syngur Guði lofsöng í mikilli gleði, en neðri hlutinn kvelst í takt við heimsmynd fornaldar með níu sölum himins og níu vistum heljar. Í miðri þessari frægu mynd má sjá Bartólómeus sitja við fætur Jesú, skeggjaðan og brúnaþungan. Hann heldur á skinninu í hendinni og það teygir sig eins og undarlegt Þorgeirsbolaskinn niður í svartnættið. Kannski situr Bartólómeus þarna til að minna Jesú og alla hans hirð á þau sem búa við hörmuleg kjör í heiminum, þjást og kveljast vegna heimsku og grimmdar mannanna. Sjálfur situr hann í bjarta salnum, en húðin hans verður eftir í þjáningunni

III. Það er merkilegt að fagna minningardegi manns sem við vitum lítið um, sem ber undarlegt nafn, lifði lífi sem við þekkjum að litlu einu og hvers megineinkenni er það að hann er húðlaus. Eitt vitum við þó um Bartólómeus. Við vitum að hann var lærisveinn Jesú. Við vitum að hann helgaði sig bæn, boðun og lífi kirkjunnar. Á minningardegi hans skulum við hugsa um það hvað það er að vera lærisveinn Jesú. Og við skulum hugsa um húð.

Já, ég sagði húð. Hvernig getum við minnst Bartólómeusar án þess að minnast á hans eigin skinn, skinnið sem hann missti skinnið sem hann ber með sér í öllum myndum og höggmyndum?

Bartólómeus virðist á einhvern furðulegan hátt hafa eignast nýjan óforgengilegan líkama upprisunnar, en heldur þó dauðahaldi í gamla skinnið. Bartólómeus táknanna og listarinnar er þannig manneskja í mótun hann er bæði gamall og nýr hann er á mörkum hins himneska og hins jarðneska.

Við tölum sjaldan um húð í kirkjunni, þess mun meira um augu og eyru. Þau okkar sem hafa brennt sig illilega höfum lært að taka eftir húðinni. En þegar allt er eðlilegt, er húðin er einhvern vegin fyrirfram gefin, hún hjúpar okkur, heldur utan um okkur og veitir líkömum okkar skjól. Sama húðin hylur allan okkar líkama. Hún fellur í fellingar og úr fellingum, það strekkist á henni og hún herpist saman. Og allar litlu himnurnar sem tengjast húðinni tengja okkur við öll líffæri líkamans. Húðin er eins og risastór bók þar sem líffræðileg saga okkar er skrifuð, á þennan flöt kemur þetta ör, þessi bola, þessi blettur með hverju nýju ári verða til nýjar hrukkur og rúnir á húðinni okkar. Við berum merki veikinda, áhyggna og slæms lífsstíls. Og naflinn minnir okkur á að öll höfum við fæðst. Erfiði okkar skilur eftir merki á höndum okkar, hnjám og olnbogum eins og sútari breytir húð í leður.

Húð miðlar snertingu og snerting er ein af fimm skilningarvitum líkamans, með sjón, heyrn, bragðskyni og lyktarskyni. Snertingin er ein sú sem gengur næst okkur af skilningarvitunum, sú sem við deilum með þeim sem bókstaflega standa okkur nærri, foreldri, systkini, elskanda, vini eða barni.

Við getum horft á aðra án þess að verða fyrir áhrifum af þeim. Við getum slökkt á sjónvarpinu og tölvunni þegar við viljum ekki sjá myndirnar lengur. Við getum slökkt á útvarpinu og græjunum þegar við viljum ekki hlusta. Við getum hent burtu matnum sem lyktar ekki vel. En snerting er alltaf gagnvirk. Við getum ekki snert án þess að verða snortin sjálf. Slíkir eru töfrar húðarinnar að það snertir og er snert til baka. Húðin er grundvallaraðgreining á milli okkar og hinna, okkar eigin sjálfsmörk en hún miðlar líka nánd okkar tengslum okkar við aðra líkama.

Kannski er húðin einmitt gott tákn fyrir það að vera lærisveinn, að vera lærisveinsskinn. Seinni ritningarlestur dagsins gefur okkur yndislega líkingu af líkamanum þar sem líf kirkjunnar fer fram. Þar er kirkjunni lýst eins og líkama sem er fullur af fjölbreytileika, ólíkum líffærum með ólíka getu og virkni. Allir eru ólíkir og öll líffærin í líkamanum vinna að ólíkum hlutum. Og samt er líkaminn samhæfður af því að hver líkamshluti, hvert líffæri, er jafnmikilvæg fyrir vöxt og viðgang líkamans. Og öll eru þau tengd saman með húð og himnum.

Bartólómeus og samanvöðlað skinnið á handlegg hans má þannig lesa eins og tákn um þennan lífræna veruleika þar sem allt hangir saman. Og kannski er það ekkert slæmt að við vitum ekki nafn hans, vegna þess að flestir lærisveinar heimsins eru óþekktir. Þeir vinna sitt verk í ljósi, ást og friði og hafa ekki óskað sér annars en að mega vinna Guðsríkinu. Góður lærisveinn er eins og húðfruma lærisveinsskinn. Hún er sjálfstæð eining. Hún vinnur verk sitt. Hún veit að það er mikilvægt. En þetta verk er alltaf í samhengi við verk annarra. Öllum til góða.

III. Við skulum prófa að ímynda okkur að Nathanael og Bartólómeus hafi verið sami maðurinn. Það gera þau sem settu saman lestra kirkjunnar, því að guðspjallið á minningardegi Bartólómeusar er sagan um það þegar Jesús kallaði Nathanael.

Þessi saga er sú fyrsta sem við heyrum af andspyrnu í Jóhannesarguðspjalli, af einhverjum sem hreifst ekki af guðspjallinu. Nathanael hafði hitt vin sinn Filippus sem átti ekki orð til að lýsa þessum frábæra manni Jesú og vildi endilega fara með vin sinn til hans.

Tökum eftir því hvernig Filippus talar um Jesú við vin sinn. Hann segir honum að Jesús sé það sem lofað var í hinum helgu ritum, að hann sé sá sem Ísraelsmenn hafa beðið eftir öll þessi ár. Og svo segir hann honum að Jesús sé sonur Jósefs frá Nasaret. Öðrum þræði talar hann um Messías og svo er hann líka að tala um einhvern strák þarna rétt hjá, smiðsson frá Nasaret. Nathanael er með fordóma fyrir fólki frá Nasaret.

“Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?” segir Nathanael og orðar þannig snyrtilega það sem fordómar eru í eðli sínu, að dæma fólk fyrir fram. Kemur nokkuð gott frá þessum múslimum? Kemur nokkuð gott frá gyðingum? Getur nokkuð gott komið frá þeldökku fólki í Ferguson, Missouri? Kemur nokkuð gott frá konum, fötluðum, öldruðum, hinsegin fólki? Kemur nokkuð gott frá landsbyggðinni og úr 101 Reykjavík? Getur eitthvað gott komið frá kommúnístum, krötum, Framsóknarmönnum og Sjálfstæðisfólki, svo ekki sé talað um þessa blessuðu Pírata?

Eflaust hefði Nathanael getað haldið áfram fordómum sínum í garð fólks frá Nasaret misst af því að mæta Jesú Kristi, nema vegna þess að Filippus gafst ekki upp. Og allt í einu kemur Nathanael til Jesú talar við Jesú og Jesús lofaði honum því að hann myndi sjá himnana opnast og engla Guðs stíga upp og niður yfir Mannssoninn.

Að vera lærisveinn felur í sér að vera lærisveinsskinn, að taka áhættu hugsa nýjar hugsanir opna hjarta sitt fyrir hinum nýju, vonarríkju tíðindum morgundagsins. Það merkir að gefa frá sér fordóma að taka áhættu af því að vera særður, að þora að elska að gefa þeim sem búa við aum kjör hjartarúm gefa tíma. að gefa og eignast nýjar gjafir að snerta og vera snortinn vera hluti af líkama Krists sem er kirkjan hjúpaður og umfaðmaður af elsku Guðs eins og Jesús sem breytti Nathanael.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.