Skoðanir á síðasta söludegi?

Skoðanir á síðasta söludegi?

Og svo er talað um að kirkjan sé úrelt og gamaldags. Og þá er engu líkara en að dagstimplar séu komnir á allar skoðanir, allt gildismat, eins og viðkvæm matvæli í verslun. Allt sem er eldra en frá því í fyrradag er talið úrelt! Allar skoðanir, öll viðhorf sem eru á öndverðum meiði við umræðu dagsins, eru dæmd úrelt og afturhaldssöm.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
03. maí 2007

Prestastefna var haldin á Húsavík í apríl. Þar fóru fram mikilvægar umræður um afstöðuna til homma og lesbía. Margt fleira var á dagskrá en stefnan stóð í tvo daga. Umræðan um málefni samkynhneigðra var hreinskiptin og heiðarleg og án allra öfga. Hún var yfirveguð eins og hæfir þroskuðu fólki. Skoðanir voru skiptar en umræðunni lauk með því að samþykkt var að kenningarnefnd kirkjunnar gengi frá blessunarritúölum til notkunar innan kirkjunnar. Þjóðkirkjan er tilbúin að ganga eins langt og nokkur kirkjudeild í heiminum hefur gengið í þessum efnum.

Á vef Biskupsstofu er vitnað í ummæli biskups Íslands um þessi mál:

„Það er alveg skýrt að réttur samkynhneigðra er viðurkenndur af kirkjunni og um það er samstaða. Staðfest samvist er sambúðarform sem er viðurkennt af kirkjunni. Umræðan snýst aðallega um hjónabandið, stofnun sem á sér ríka hefð í kirkju, sögu og menningu. Sú umræða er ekki til lykta leidd. En það er ljóst að það er samstaða í kirkjunni um að ná sameiginlegri niðurstöðu, þannig að kirkjan markist ekki af andstæðum fylkingum.“
Ein skoðun eða margar?

Ég átti samtal við mann eftir að ég kom heim af stefnunni og hann var aldeilis ekki ánægður með afgreiðslu kirkjunnar svo vægt sé til orða tekið. Hann hafði sagt sig úr Þjóðkirkjunni og sagðist ekki vilja tilheyra félagskap sem væri ekki umburðarlyndara en þetta. Hann sagðist vilja stuðla að umburðarlyndi í þjóðfélaginu. En er hann ekki sjálfur að sýna skort á umburðarlyndi með því að una ekki öðrum að hafa aðra skoðun en hann?

Í raun hafa engir tveir menn nákvæmlega sömu skoðanir, hvorki innan né utan kirkju. En þegar hitamál eru ofarlega á baugi fara sumir offari og hættir til að gleyma umburðarlyndinu. Fjölmiðlar hafa farið mikinn í þessu sambandi og krafist þess af kirkjunni sem kallað er „pólitískur rétttrúnaður“. Gerð er skýlaus krafa um að allir hafi sömu skoðun.

Dagstimplar á gildismat

Og svo er talað um að kirkjan sé úrelt og gamaldags. Og þá er engu líkara en að dagstimplar séu komnir á allar skoðanir, allt gildismat, eins og viðkvæm matvæli í verslun. Allt sem er eldra en frá því í fyrradag er talið úrelt! Allar skoðanir, öll viðhorf sem eru á öndverðum meiði við umræðu dagsins, eru dæmd úrelt og afturhaldssöm. Nútíminn, þessi undarlega skepna, virðist ekki megna að sjá út fyrir eigin andrá. Er saga og viska aldanna honum algjörlega hulin? Nú hefur löggjafinn tryggt hommum og lesbíum sama rétt og hjónum. Og kirkjan amast ekki við því. Hún fagnar því! En meirihluti presta - og almennings trúlega líka - er ekki tilbúinn að leggja samband tveggja homma eða lesbía að jöfnu við hjónaband, en vill hins vegar að staðfest samvist geti hlotið blessun kirkjunnar. Svo einfalt er þetta nú. Og fyrst kirkjan er ekki tilbúin til að kalla samband tveggja homma eða tveggja lesbía hjónaband, þá verður hún ekki þvinguð til þess með lögum. Hún verður ekki þvinguð til „pólitísks rétttrúnaðar“ frekar en einstaklingar eða aðrir hópar samfélagsins. Um það snýst umræðan og þess vegna fór Prestastefnan með þetta mál eins og raun ber vitni til þessa að rjúfa ekki eininguna í kirkjunni sem byggir á samstöðuhefð. Eining kirkjunnar hér á landi og í heiminum öllum er í húfi. „Gagnrýnin samstaða“ heitir það þegar fólk ákveður að standa saman þrátt fyrir ágreining og virðir þar með skoðanir annarra. Sagði ekki einhver vitur maður að hann væri reiðubúinn til að berjast fyrir skoðunum meðbróður síns sem hann væri allsendis ósammála, einungis vegna réttar hans til skoðanafrelsis? Grein eftir mig undir yfirskriftinni Gagnrýnin samstaða er á vefnum. Þú finnur hana á Google.

Valdmörk fjölmiðla

Undanfarna daga hefur verið dapurlegt að fylgjast með hverjum álitsgjafanum á fætur öðrum skrifa eða tala í fjölmiðlum í anda skoðanakúgunar og vandlætingar í garð meirihluta presta og Þjóðkirkjunnar.

Maðurinn sem sagði sig úr kirkjunni vildi ekki vera með í þessum félagsskap sem að hans mati sýnir ekki umburðarlyndi. En um leið sagði hann sig úr samfélagi þeirra sem eru honum sammála innan Þjóðkirkjunnar. Já, lífið er flókið! Kirkjan er nefnilega ekki samfélag einnar skoðunar heldur ólíkra viðhorfa. Kirkjan er í reynd umbyrðarlynd í þessum efnum því hún umber ólíkar skoðanir.

Fjölmiðlar eru stundum kallaðir fjórða valdið í þjóðfélaginu. Þeim er vandi á höndum og þurfa að fara varlega í öllum málum. Vinnubrögð fjölmiðla á Íslandi eru oft mjög ámælisverð. Þeim hættir til að vera tækifærissinnaðir og yfirborðskenndir. Fjölmörg dæmi mætti nefna í því sambandi. Stundum er sagt þeim til varnar að þeir séu svo fáliðaðir að þeir geti ekki unnið fréttir sem skyldi. Hvernig væri þá að sleppa „ekki-fréttunum“ og vinna þeim mun betur að þeim fréttum sem máli skipta? Fréttir fjölmiðla af Prestastefnu voru margar hverjar einhliða og sumar settar fram í vandlætingartón. Í mörgum tilfellum var gert meir úr áliti jámanna og skoðanasystkina fréttamanna en þeirra sem hafa önnur og ólík viðhorf.

Vandi fjölmiðla er mikill og ábyrðin stór. Lifi gagnrýnin samstaða!

Ritað fyrir Vesturbæjarblaðið 29. apríl 2007 og birt í blaðinu í byrjun maí.