Ár og tár

Ár og tár

Ytri rammi lífsins verður að vera traustur til að smáblóm lífsins geri meira en að undirbúa dauðann. Lífið er til unaðar en ekki til dauða.
fullname - andlitsmynd Sigurður Árni Þórðarson
31. desember 2006
Flokkar

Lífsgæði Áramót veita tækifæri til að núllstilla lífið, gera upp, stilla kompásinn og forgangsraða. Hvað skiptir máli og hvernig viljum við lifa? Fyrir skömmu sat ég hér frammi á kaffitorginu og var að ræða lífsmál við vin minn. Hann er öflugur félagi í Ljósinu, stórkostlegum samtökum krabbameinssjúkra, sem hafa starfsstöð í kjallara Neskirkju. Hvaða áhrif höfðu veikindin á afstöðu hans? Hverjar urðu lífsbreytingar þegar veikin varð förunautur? Hvernig er hægt “lifa við” ólæknandi krabbamein? Hann sagði mér, að hann hefði lært nýja tímastjórnun, lært að nota tímann vel og gera það helst sem efldi lífið. Hann reyndi að sneyða hjá því, sem skemmdi fyrir eða drægi úr lífsgæðunum á einhvern hátt. Ég fann að ég horfði í augu viturs manns, sem talaði ekki bara um hvað skipti máli heldur iðkaði vísdóm sinn. Speki hans snart mig djúpt og hefur síðan lifað með mér. Hann hafði orðið fyrir áfalli og átti tvo kosti, sem allar kreppur neyða fólk til að velja á milli. Annað hvort bíður maður ósigur, lætur áfallið veikja sig og lífsgæðin þverra þar með - eða fólk rís upp til vaxtar og ríkulegra lífs. Veikur maður getur verið hamingjusamur þrátt fyrir mein sín. Vinur minn er maður visku, vaxtar og þroska. Hann tók ákvörðun um lifa vel.

Við eigum val Þurfum við að veikjast, ganga á vegg í lífinu eða missa mikið til að læra að meta lífsgæðin og undur augnablikanna? Í hvað notum við daga okkar, fjármuni og líkama okkar? Hlustum á þau, sem hafa kafað djúpt, hafa starað inn í nóttina, en komið til baka. Við ættum að læra af þeim lífslistina og sinna því sem eflir lífið, en sleppa hinu. Auðvitað getum við ekki dregið okkur í helgan stein afskiptaleysis, en eigum samt að nýta tímann vel og til lífs. Annar vinur minn, sem varð fyrir heilsuviðvörun á miðjum aldri, sagði mér, að hann hefði byrjað aftur að faðma börnin sín, nota tímann betur með konu og fjölskyldu, sinna vinum sínum og gera það, sem honum þætti gott.

Árið sem leið verður ekki endurlifað. En árið, sem bíður þín, er kall til þroska, gleði, blessunar og vaxtar.

Þjóðartár Matthías Jochumsson var maður grátsins, þegar hann samdi þjóðsöng Íslendinga. En Pétur Pétursson, biskup, vildi fá lofsöng ortan fyrir þjóðhátíð 1874 og út af bæn guðsmannsins Móse í 90. Davíðssálmi. Társtokkinn fór Matthías til útlanda og sálmurinn varð líklega til á leiðinni út. Og textinn varð rismikill ferðaflétta þúsund ára sögu Íslands, náttúrustemminga, kosmískrar fagurfræði og í bland við angist manns, sem hafði misst tvær konur og vissi ekki hvernig hann átti að lifa lífinu.

Sorgarúrvinnsla sem heppnast - lánlegar sorgarreisur eru spírall - við komum ekki til baka á sama stað heldur á svipaðar slóðir og þá með úrvinnslu og þroska. Matthías var sá lánsmaður að vinna með ólán sitt og nota kveðskapinn og koma inn í hann visku.

Tárin í þjóðsöngnum eru táknrænir stefnuvísar fyrir líf okkar margra. Við verðum fyrir álagi, upplifum gleði og sorgir og við finnum til. En hvernig viljum við gera upp, hvernig viljum við að framhaldið verði? Ef við höfum notið gleði og láns ættum við að halda áfram og iðka lánið. Ef við höfum búið við ólán og grátið þurfum við að vinna að umskiptum, svo að tárin þverri og umbreytist í dögg blessunar og vökvunar.

Titrandi þjóð og ár Flestir Íslendingar þekkja vísuorðið úr fyrsta erindi þjóðsöngsins “Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár.” Þó flestum detti einstaklingar helst í hug og túlki því þröngt er líklega réttast að skoða blómið sem þjóðina í heild og tárin sem safn tímans. Í tveimur seinni erindum er heilmikið táraflóð til viðbótar titrandi tárum hins fyrsta – “...morgunsins húmköldu, hrynjandi tár..” segir í öðru erindinu og svo líka í lokin “...gróandi þjóðlíf með þverrandi tár...”

Matthías grét sig til visku. Hann var sorgbitinn og ráðvilltur en megnaði þó að sjá líf sitt í samhengi sem var stærra en hans eiginn örheimur. Það samhengi var ekki bara torfan sem hann sat á, fólkið sem hann þekkti, ekki bara Íslendingar augnabliksins og 1874, heldur stórt fang og heild þjóðarsögu, sem laut lögmálum lífs og dauða, var hluti sólkerfa sem dansa geimdansa. Maður á krossgötum sá ekki aðeins tímaskil sín heldur risasamhengi. Sorgin verður aldrei unnin með sjálfri sér heldur með því að líta upp og sjá eigið sjálf í stóru fangi. Líf einstaklingsins er ekki bara líf í tíma eða félagslegu og sögulegu samhengi ákveðinnar þjóðar og náttúrusamhengis, heldur hluti miklu stærri heildar sem er trúarlegs eðlis.

Smá/stór spennunálgun Að Matthías hugsaði smá/stórt, í spennu hins smágerða og hins gífurlega, getum við m.a. greint í hvernig hann fjallar um tárin. Titrandi tár eru ekki venjuleg mannatár, ekki sorgartár einstaklinga heldur sögutár tímans. Tárin eru eiginlega tákntár þeirra ára, sem hafa fallið í sæ tímans. Tilefni söngsins var þúsund ára Íslandssaga og eitt tár er því eitt ár. Það er rosaleg ofurhugsun. Vissulega er slík söguspeki dálítið þunglyndisleg. Rétt er að sum árin höfðu margir grátið og ýmsir aldarhlutar verið erfiðir. Matthías var líka maður framfarhugsunar, trúði líkt og August Comte og fleiri á félagslegar og sögulegar framfarir, að allt væri á uppleið. Tár aldanna höfðu fallið áður en sól framfara, lausnar og frelsis rann upp. Ljóðið dregur vel saman og bindur í knippi þjóðfrelsisbaráttu, nútímavæðingu, nýja möguleika í öllum kimum mannlífs. Ytri rammi lífsins verður að vera traustur til að lífhlutar, persónur geti blómstrað, smáblóm lífsins geri meira en að undirbúa dauðann. Lífið er til unaðar en ekki til dauða.

Tárin í náttúrunni Mynd Matthíasar af morgundögginni, sem fellur í morgunkuli er laðandi. Tár og daggir eru heillandi. Þegar suddi og sól faðmast verður til gimsteinahaf. Flest höfum við lotið að dögg til að upplifa undur ljóss, lita og vatns. Mörg höfum við séð risadropa í dýjamosa og lofsungið hið mikla vatnaskáld lífsins, sem kann að meta slíkt altari undursins.

Skoppandi fjallalækur verður í sólskini besta skart veraldar. Dropar verða sem tákn fyrir allt lífið, allan heiminn, allt sköpunarverkið og svo endanlega fyrir gæsku veraldar og Guðs, ef menn eru þjálfaðir í trúarefnum. Tár getur orðið táknhluti heildar, míkrokosmos sem felur allt í táknmáli sínu. Tár okkar geta, ef við stöldrum við, orðið að stórkostlegri geislaveröld sem spegla himinljósið. Vandinn, sem við rötum í getur orðið okkur til blessunar, ef við bregðumst við með reisn eins og vinur minn í Ljósinu minnti mig svo vel á. Tár geta orðið gleðitár, ef við erum menn til að rísa upp þrátt fyrir áraun og njótum þeirrar blessunar að geta litið upp og greint samhengi og stöðu okkar.

Tárin í mannlífinu Í miðjum Suðurgötukirkjugarðinum er ljóðbrot Ólafar frá Hlöðum klappað á stein:

“Dýpsta sæla og sorgin þunga svífa hljóðlaust yfir storð. Þeirra mál ei talar tunga tárin eru beggja orð.”

Orðin hverfa oft þegar lífið ristir djúpt og kreistir okkur. Þá spretta tárin fram

- í augum móður og föður sem faðma barn sitt í fyrsta sinn - í hvörmum foreldra kveðja afkvæmi sitt hinsta sinni - þegar fólkið okkar afrekar það sem þau hafa sett sér - þegar kraftaverkin verða á spítölum - þegar við missum ástvini okkar - þegar við erum stungin, svikin, misnotuð, lamin eða föðmuð - þegar við verðum vitni að litaundri, ljósgerningi - þegar við lifum elskuverk óvænt - þegar spilltur maður rís upp úr illsku sinni - þegar fallinn er reistur við - þegar við lifnum við þrátt fyrir áföll, veikindi, sorg og þunga.

Tárin tjá.

Himnesk dögg Matthías Jochumsson grét en náði að sjá að tár sín og samfélags þverra. Í áramótasálmi Valdimars Briem, sem sunginn verður á eftir og flestir syngja á miðnætti, erum við minnt á hversu skammt er milli harma tára og blessunar. Þar segir í síðasta versi:

Ó, gef þú oss, Drottinn, enn gleðilegt ár og góðar og blessaðar tíðir, gef himneska dögg gegnum harmanna tár, gef himneskan frið fyrir lausnarans sár og eilífan unað um síðir.

Ef við höfum grátið skulum við temja okkur að sjá ljós og blessun í gegnum tárin. Ef við höfum syrgt megum við læra að sjá hið stóra fang, sem engum týnir og engri tapar. Ef við höfum fengið viðvörun skulum við læra að búa við breytinguna, faðma fólkið okkar og hlúa að lífinu. Ef við höfum bara notið láns skulum við ekki bíða þess að huga að lífsgæðunum fyrr en við höfum gengið á vegg. Með því getum við orðið til að tárin þverri og þjóðlífið batni. Þá verður blessun Guðs og lofsöngur hljómar.

Áratárið er fallið, árið þitt er liðið, en nýtt ár brosir við þér og hvetur þig til að lifa vel og njóta unaðar bæði síðar og eilíflega.

Amen.