Hann finnur til

Hann finnur til

Líkt og grátandi ekkjunni við borgarhliðin í Nain, vitjar Kristur sjúkra og sorgmæddra, í anda sínum til að styrkja og hugga og til að líkna. „Grátið þið eigi", segir hann, því ég er ávallt við hlið ykkar og ekkert mun gera ykkur viðskila við mig. Vonið og trúið, segir hann. Hann mætir þeim sem eru ósjálfbjarga fyrir æsku eða elli sakir eða vegna sjúkdóma, á þann hátt að blása okkur hinum, sem önnumst þau, kærleika og miskunn í brjóst.

Skömmu síðar bar svo við, að Jesús hélt til borgar, sem heitir Nain, og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið, þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar, sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana, kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: "Grát þú eigi!" Og hann gekk að og snart líkbörurnar, en þeir, sem báru, námu staðar. Þá sagði hann: "Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!" Hinn látni settist þá upp og tók að mæla, og Jesús gaf hann móður hans. En ótti greip alla, og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: "Spámaður mikill er risinn upp meðal vor," og "Guð hefur vitjað lýðs síns." Og þessi fregn um hann barst út um alla Júdeu og allt nágrennið. Lúk. 7.11-17

Grafskrift ein á legsteini er sögð á þessa leið: „Ég átti vissulega von á þessu - en ekki alveg strax”.

Þetta er mikill sannleikur og gæti sjálfsagt verið grafskrift margra. Þó við vitum frá upphafi lífsins hvert stefnir er dauðinn okkur alltaf undrunar- og áhyggjuefni. Þrátt fyrir það hve eðlilegur hann er í sjálfu sér á hann það til að læðast aftan að okkur eins og þjófur að nóttu. Í ljósi allra banaslysanna í umferðinni síðustu mánuði verður mér hugsað til þeirra fjölmörgu sem hafa fengið fréttir um andlát sinna nánustu, líkt og blautri tusku hafi verið slegið framan í þau. Nú síðast í nótt sem leið.

Og það er einmitt þegar sorgin hefur dunið yfir sem við spyrjum stóru spurninganna.

Það er nótt myrkur einhvers staðar utan úr holrúmi þagnarinnar hrópa ég: Hvar ertu?

Þannig orti einhver á seinni hluta síðustu aldar og orðin vitna um þjáningu og sorg. Gefa okkur vísbendingu um örvæntingu. Hugsanlega einhvers sem nýlega hefur misst náinn ástvin.

Þessi er einmitt veruleiki okkar mannanna. Það má segja að við gjöldum fyrir ástina og væntumþykjuna með sorginni og tárunum. Í hvert sinn sem einhver deyr á besta aldri af völdum slysa, sjúkdóma eða af öðrum ástæðum, þá vaknar þessi djúpa spurning innra með þeim sem hefur misst; Hvar er Guð og afhverju forðaði hann þessu ekki?

Stóuheimspekingar fornaldar lögðu mikla áherslu á að Guð væri tilfinningalaus og að hugarheimi hans yrði því aldrei lýst með orðfæri tilfinninga svo sem því að hann væri annað hvort glaður og ánægður eða hryggur.

Guði sé lof fyrir að guðspjallamennirnir eins og Lúkas sem samdi guðspjall þessa dags, voru ekki Stóuspekingar. Þeir höfðu fengið að sjá eða heyra um frelsarann Jesú Krist lifa sínu daglega lífi og hikuðu því ekkert við að segja eins og í dag, að Jesús hafi fundið til og kennt í brjósti um náunga sinn. Við höfum öll orðið vitni að mikilli sorg einhvern tíma og sum okkar þurft að reyna hana grimmilega á eigin skinni. Þess vegna vitum við svo vel hvernig henni hefur liðið ekkjunni frá Nain sem hafði misst eina barnið sitt, soninn sem var henni svo kær. Hún átti bágt og grét beisklega. Þannig birtist sorgin einmitt svo oft. Hún kallar fram tár og skilur okkur eftir með spurningar sem við getum ekki svarað.

Á þeim stundum þurfum við huggun og styrk og allir guðspjallamennirnir leitast við að mæta þeirri þörf. Ekki hvað síst læknirinn Lúkas sem segir okkur söguna af syni ekkjunnar. Hann skilur okkur aldrei ein eftir með sorgina, heldur reynir að sýna okkur fram á að við séum hluti stærra samfélags. Reynir að gefa okkur von og trú sem sigrar efann og kemur inn eðlilegum söknuði í stað brennandi tómleika. Hann leyfir okkur að slást í för með syrgjendum í líkfylgd til að láta okkur verða vitni að ótrúlegri atburðarás. Tákni, sem sýnir okkur hver hefur hið endanlega og afgerandi vald yfir allri neyð. Orð hans gefa til kynna að tár móðurinnar séu skiljanleg og eigi að vekja samúð. Og við sjáum vel að hann byggir frásögu sína á trú. Sannfæringu um það sem eigi er auðið að sjá með berum augum, heldur aðeins með augum trúarinnar. Hann vill að við eignumst einnig þessa sannfæringu, þessa trú, sem greina má hjá fólkinu við borgarhliðin í Nain. Hann hefur sjálfur fengið að reyna lífgefandi mátt mannsins sem gekk til ekkjunnar og bað hana að gráta eigi. Hann þekkir frelsarann af eigin raun. Hann sem á þriðja degi frá eigin dauða birtist lærisveinum sínum til að segja þeim að lífið væri eilíft og að ekkert fengi nokkru sinni sigrað mátt Guðs

Einmitt svona vill Kristur nálgast okkur enn í dag. Orð hans til ekkjunnar spretta af kærleika gagnvart öllu sem lifir. Allri sköpun Guðs. Kristur skildi vel tilfinninguna sem olli tárunum á hvörmum hennar og við huggunarorð hans breyttist sorg í gleði. Vonleysi í von og trú.

Frelsarinn Jesús Kristur nálgast okkur nú í anda sínum hér í þessari fallegu kirkju, til að boða okkur lausn. Hann þekkir mannleg kjör, mannlegar spurningar. Hann gaf sjálfan sig í dauðann fyrir okkur, svo við mættum öðlast eilíft líf. Á krossinum dó hann í eitt skipti fyrir öll, einn fyrir alla. Og sannarlega hefði sá dauði ekki markað meiri tímamót en dauði hvers annars, ef ekki hefði komið til undrið mikla að morgni hins þriðja dags. Upprisan, hið mikla máttarverk Guðs, sem braut vald dauðans á bak aftur og hnekkti veldi sorgar og þjáningar í eitt skipti fyrir öll. Með því mikla kraftaverki var bölið og þjáningin svipt veldi sínu. Hafði ekki og hefur ekki lengur síðasta orðið. Upprisan er kraftaverk sem sýnir að Guð mun alltaf þerra tárin af hvörmum þeirra sem eru sorgbitnir, eða þjást á annan hátt, vegna þess að honum er annt um okkur börnin sín. Vissulega getur þjáningin fyllt okkur vonleysi um stund, en ef við erum opin fyrir lausnarkrafti Guðs, sem opinberaðist í syni hans, Jesú Kristi, mun birta upp að nýju. Að hafna lausnarverki hans er að kjósa myrkur í stað ljóss. Tilgangsleysi í stað tilgangs.

Líkt og grátandi ekkjunni við borgarhliðin í Nain, vitjar Kristur sjúkra og sorgmæddra, í anda sínum til að styrkja og hugga og til að líkna. „Grátið þið eigi", segir hann, því ég er ávallt við hlið ykkar og ekkert mun gera ykkur viðskila við mig. Vonið og trúið, segir hann. Hann mætir þeim sem eru ósjálfbjarga fyrir æsku eða elli sakir eða vegna sjúkdóma, á þann hátt að blása okkur hinum, sem önnumst þau, kærleika og miskunn í brjóst. Frelsarinn er kveikjan að sérhverju góðu verki. Hann er uppspretta kærleikans sem við berum hvert í annars garð. Hann er ljósið sem lýsir leiðina á myrkum og erfiðum dögum og hann er sá lífgefandi kraftur sem reisir okkur aftur á fætur eftir erfiða byltu.

Sorgin reynir sífellt að brjóta á bak aftur trúna á markmið og tilgang í lífinu og jafnvel þó við teljum okkur reiðubúin að mæta henni, kemur hún okkur að óvörum. Við vitum einnig að þó tregi og vonleysi fylgi nánast öllu sem gengur miður hjá okkur í lífinu, í mismiklum mæli þó, eru tilfinningarnar alltaf mestar þegar dauðinn hefur vitjað. Ef við, kæru vinir, viljum undirbúa okkur undir sorg og áföll á þann hátt að við fáum staðist og sigrað þurfum við að fela okkur almáttugum Guði á vald. Hann mun vel fyrir sjá.

Hjarta kristins manns býr yfir sannfæringu um himnaríki. Um eilíft líf handan þess lífs sem við sjáum með berum augum. Ekkert okkar hefur þroska til að meðtaka það né skilja til fulls meðan við lifum. Trúin á frelsarann Jesú Krist leiðir af sér von sem seinna verður að skæru ljósi sannfæringar, vegna þess að Guð lifir og umlykur mig og þig á bak og brjóst.

Sálmaskáldið góða á Hvalfjarðarströndinni, séra Hallgrímur Pétursson, þurfti oft á styrk að halda og þurfti sjálfur að glíma við sorgina. Sú glíma leiddi hann að þeirri niðurstöðu sem við getum t.d. lesið um í sálminum góða um dauðans óvissan tíma; sem byrjar með kunnuglegu orðunum: „Allt eins og blómstrið eina”. Ljóðlínur hans hafa góðu heilli síast inn í sál þessarar þjóðar. Ódauðleg snilld sem vekur von og trú í brjóstum okkar allra. Hjálpar okkur til að sjá ljós hins eilífa lífs handan myrkurs og þagnar sorgarinnar. Í dag skulum við taka undir með þessum snillingi orðsins og sýna þannig dauðanum að við óttumst hann ekki, vegna þess að við höfum Krist.

Ég lifi í Jesú nafni, í Jesú nafni, eg dey. Þó heilsa og líf mér hafni, hræðist ég dauðann ei. Dauði, ég óttast eigi, afl þitt né valdið gilt. Í Kristi krafti' eg segi: Kom þú sæll, þá þú vilt. (sb. 273)