Eining alla daga!

Eining alla daga!

Margt bendir til þess að einingarandinn sé að aukast í kirkjunum. Sem dæmi má nefna samkirkjulegar bænastundir fyrir ráðamönnum þjóðarinnar og heimilunum í landinu sem hafa verið haldnar í á annað ár í hádeginu á miðvikudögum í Friðrikskapellu við Valsheimilið.

Bænakertastjaki

Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kristninnar stendur nú yfir. Yfirskrift hennar er: Þið eruð vottar þessa. Það eru kirkjurnar í Skotlandi sem að þessu sinni senda frá sér bænir og hugleiðingar fyrir hvern hinna átta daga. Er það til að minnast þess að eitthundrað ár eru liðin frá kristniboðsráðstefnu í Edinborg sem markaði upphaf samkirkjulegu hreyfingarinnar. Það er Alkirkjuráðið ásamt kaþólsku kirkjunni sem hefur umsjón með bænavikunni. Hefur hún verið haldin hérlendis í marga áratugi, lengst undir forystu Samstarfsnefndar kristinna trúfélaga á Íslandi.

Að vera eitt

Tilgangur alþjóðlegrar samkirkjulegrar bænaviku er að stuðla að einingu kristninnar. Orð Jesú í 17. kafla Jóhannesarguðspjalls liggja til grundvallar: Að allir séu þeir eitt (Jóh 17. 21). Markmiðið er ekki að við verðum eins, enda eru manneskjurnar jafn ólíkar og þær eru margar og iðka trú sína á ólíkan hátt. En grundvöllurinn er hinn sami: Jesús Kristur, krossfestur og upprisinn. Og það er í bæninni sem við sameinumst, bæninni sem í er fólginn kraftur til breytinga, bæði á okkur sjálfum og aðstæðum okkar, þ.m.t. söfnuðunum.

Vaxtarmöguleikar

Efni bænavikunnar, sem finna má á www.kirkjan.is, gefur tilefni til sjálfsskoðunar. Á fyrsta degi vikunnar vorum við m.a. spurð hvort það sæist á lífi okkar að sköpunar- og upprisukraftur Guðs sé þar að verki. Sömu spurningu getum við lagt fyrir kirkjurnar okkar: Hvernig bera þær krafti Guðs vitni? Einnig var spurt að vaxtarmöguleikum. Hvað þarf til að við vöxum sem kristnar manneskjur? Hvernig má auka eininguna og jafnvægið í okkar eigin lífi og lífi safnaðanna?

Samhengið

Er það ekki einmitt þetta sem við þráum, eining og jafnvægi? Umræðan hérlendis á þessum vetri hefur svo sannarlega bent til þess. Og þegar kraftar náttúrunnar minna á sig með þeim hörmulega hætti sem nýorðnir atburðir í Kyrrahafinu sýna kemur enn betur í ljós hvað manneskjan er háð jafnvægi lífsins. Um jafnvægi og einingu biðjum við í samkirkjulegri bænaviku, fyrir okkur sjálf, kirkjurnar okkar og heiminn allan. Við verðum ekki slitin úr því samhengi sem við lifum í. Við erum hvert öðru háð.

Trúverðugleiki

Því þurfum við hvert og eitt að sækjast eftir einingu inn í líf okkar svo að við getum verið vitnisburður um lífið í Guði. Kristin kirkja er í eðli sínu ein stærð með ólíkar birtingarmyndir. Það er afar mikilvægt að söfnuðir og trúfélög starfi saman í einingu. Annars eru þau ekki trúverðugur vitnisburður. Leiðin til þess liggur í gegn um bænina. Biðjum þess fyrst að umbreytingarmáttur Guðs snerti okkar eigið líf, hvers og eins, og síðan að umhverfi okkar, heimilin, kirkjurnar og samfélagið umbreytist í átt til aukinnar einingar.

Bænastundir fyrir þjóðinni

Margt bendir til þess að einingarandinn sé að aukast í kirkjunum. Sem dæmi má nefna samkirkjulegar bænastundir fyrir ráðamönnum þjóðarinnar og heimilunum í landinu sem hafa verið haldnar í á annað ár í hádeginu á miðvikudögum í Friðrikskapellu við Valsheimilið. Þangað eru allir velkomnir, sem og á blessunar- og bænastundir samkirkjulegu bænavikunnar sunnan og norðan heiða. En bænin fyrir einingu þarf að vera á hjarta okkar alla daga. Þannig fær andi Guðs unnið sitt verk í okkar lífi og safnaðanna.