Hamingjan er hverful

Hamingjan er hverful

Og það er bæn mín, að þegar þú gengur héðan úr kirkjunni í dag, takir þú með þér þessa blessun. Alveg sama hvernig þér líður, alveg sama þótt þú finnir ekki til hamingju, og finnist líf þitt kannski ekki farsælt, þá máttu trúa því að þú getur lifað í blessun Guðs.

Mig langar að biðja þig að rifja upp hvenær þú varst síðast hamingjusöm eða hamingjusamur? Hvenær fór sú hugsun síðast í gegnum huga þinn: ,,nú, á þessari stundu, upplifi ég eitthvað sem heitir hamingja". Og mig langar að biðja þig að rifja upp hvað þú varst að gera, í hvaða aðstæðum þú varst í þegar þessi hugsun kom upp í hugann. Mér finnst líklegast að þessi hugsun hafi læðst að þér, kannski þegar þú varst með einhverri annarri manneskju, einhverjum ástvini, kannski einhverjum eða einhverri sem er ekki lengur hér og þú minnist í dag; eða þegar þú varst ein með sjálfri þér, kannski einhvers staðar úti í náttúrunni, eða að gera eitthvað sem þú hefur ánægju af. Það má líka vera að þú hafir upplifað hamingjuna þegar þú náðir einhverjum áfanga í lífinu, eða jafnvel þegar þér tókst að eignast eitthvað sem þig hefur langað í.

Við viljum öll vera hamingjusöm. Og okkur finnst að við eigum að vera hamingjusöm. Stundum er okkur líka sagt af samfélaginu að við eigum skilið að vera hamingjusöm. Bara ef við gerum þetta eða eignumst hitt. En við komumst oftar en ekki að því að það sem við viljum, gerir okkur ekki endilega hamingjusöm. Þegar ég hugsa um það, er hamingjan í rauninni mjög hverful, hún er eiginlega svolítið eins og sólin á íslenskum sumardegi, stundum dregur frá henni og þá birtir og hlýnar, en svo dregur aftur ský fyrir sólu og við þurfum að bíða eftir að hún skíni aftur. Það þýðir samt ekki að það verði dimmt og kalt, bara aðeins minna bjart, og aðeins minna hlýtt.

Jesús talar um þau sem eru sæl. Sælir eru... segir hann og telur upp öll sem eru sæl: þau sem eru fátæk í anda, þau sem syrgja, þau sem eru hógvær, miskunnsöm, hjartahrein. Einhvern veginn eru þetta allt hópar sem við tengjum ekki beint við hamingju. Getur maður t.d. verið hamingjusamur syrgjandi? Og fólk sem er hógvært, miskunnsamt og hjartahreint, það er nú ekki endilega fólkið sem við tengjum beint við hamingju, þ.e. ef hamingjan tengist einhvers konar velgengni í lífinu. Því að það virðist því miður oft vera þannig að þau sem eru hógvær og hjartahrein verða undir í hörðum heimi efnishyggju og samkeppni. Og ef við hugsum um fólk sem er t.d. ofsótt vegna trúar sinnar og þarf að flýja heimili sín, þá dettur okkur ekki fyrst í hug að kalla það fólk farsælt. Það er þannig ekki hægt að segja að þessir hópar sem Jesús talar um sem sæl, séu endilega það sem við myndum kalla farsælt fólk. Þannig að ef það að vera sæl, er ekki það sama og að vera hamingjusöm, og kannski ekki einu sinni það sama og að vera farsæl, um hvað er Jesús þá að tala?

Gegnumgangandi í boðskap Jesú er að hann talar um himnaríki. Og hann rammar sæluboðin inn í þetta hugtak, himnaríki. Með því er hann ekki að tala um einhvern stað, hvorki í nútíð né framtíð, hvorki á jörðu né á himni,heldur er hann að tala um ákveðinn raunveruleika sem tengist því þegar Guð fær að snerta líf okkar. Mig langar að nota orðið blessun til að lýsa þessum raunveruleika, og það er t.d. orðið sem er notað í ensku Biblíunni í sæluboðunum. Þegar Guð fær að snerta líf okkar og vera hluti af því, þá erum við sæl, þá erum við blessuð. Og það er allt annar raunveruleiki heldur en tengist beint hamingju eða farsæld. Því að við getum notið blessunar þótt við syrgjum. Og ég trúi því að þau sem eru hjartahrein, miskunnsöm, friðflytjendur og hógvær, njóti blessunar Guðs, jafnvel þótt það sé ekki alltaf að sjá á yfirborðinu.

Hamingjan er vissulega mikilvæg, og það að lifa án þess að finna nokkurn tíma til hamingju, hlýtur að vera sorglegt hlutskipti. Það er kannski svona svipað og að lifa án þess að fá nokkurn tíma tækifæri til að leyfa sólinni að skína framan í okkur og njóta birtunnar og hitans. En hamingjan er aðeins krydd í tilveruna, hún kemur og fer, á meðan blessun Guðs getur verið viðvarandi stöðugt ástand í lífi okkar, þrátt fyrir áföll í lífinu, þrátt fyrir sorg, þrátt fyrir missi ástvina, og þrátt fyrir það að við fáum ekki allt sem við þráum.

Upplifir þú blessun í þínu lífi? Ég held að hún standi okkur öllum til boða. Og það er ekki þannig að við þurfum að uppfylla einhver skilyrði, eins og væri kannski hægt að misskilja sæluboðin. Það er ekki þannig að Jesús sé að segja að við þurfum að vera hógvær, miskunnsöm og allt þetta, til að geta upplifað blessun. Ég held að að einmitt bara það að við gerum okkur grein fyrir því að við höfum ekki alltaf þessa eiginleika, rúmist í fyrstu skilgreiningunni, að vera fátæk í anda. Að horfast í augu við vankanta okkar og breyskleika , gerir okkur einmitt fær um að þiggja blessun Guðs. Þessa blessun sem er stöðug og óháð hamingju og farsæld.

Hugsið ykkur bara. Í hvert skipti sem við komum saman hér í kirkjunni, í lok hverrar einustu athafnar, ekki bara í þessari kirkju, eða í kirkjum á Íslandi, heldur um allan heim, blessar presturinn söfnuðinn. Við lítum kannski á þetta sem hverja aðra innihaldslausa athöfn, ritúal sem við tengjum ekkert sérstaklega við. En í dag langar mig að biðja þig, sem ert hér í kirkjunni, að hugsa um það, að þegar presturinn blessari hér söfnuðinn í lok guðsþjónustunnar, þá er Guð að bjóða þér sína blessun. Sömu blessunina og Jesús talar um í sæluboðunum. Og ég trúi því að þótt hún sé kannski ekki áþreifanleg, þá er hún raunveruleg. Og það er bæn mín, að þegar þú gengur héðan úr kirkjunni í dag, takir þú með þér þessa blessun. Alveg sama hvernig þér líður, alveg sama þótt þú finnir ekki til hamingju, og finnist líf þitt kannski ekki farsælt, þá máttu trúa því að þú getur lifað í blessun Guðs. Og þá muntu upplifa það sem spámaðurinn lýsir: Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga og tunglið ekki birta þín um nætur heldur verður Drottinn þér eilíft ljós og Guð þinn verður þér dýrðarljómi. Sól þín gengur aldrei til viðar og tungl þitt minnkar ekki framar því að Drottinn verður þér eilíft ljós og sorgardagar þínir á enda.

Dýrð sé Guði, sem er okkar eilífa ljós.