Heimur lifenda og látinna

Heimur lifenda og látinna

Í mennsku umhverfi gilda reglur og lögmál. Þegar kemur að hinum hinstu tímum, hvílum við okkur í faðmi Guðs og leggjum áhyggjur okkar og sorg þar einnig. Þar getum við örugg dvalið því hann mun vel fyrir okkur sjá.

Á miðvikudaginn var hélt fríður flokkur fólks héðan frá Neskirkju yfir í gamla kirkjugarðinn við Suðurgötu, Hólavallakirkjugarð. Þar fengum við leiðsögn um garðinn sem er eins og heimur út af fyrir sig, friðarreitur mitt í erli miðborgarinnar. Umferðin æðir um Hringbrautina og handan við kirkjugarðsveggina glittir í stórhýsi og iðandi mannlíf en í garðinum erum við ekki bara í heimi kyrrðar, þar standa líka nöfn og ártöl á steinum og minna á horfna tíð.

Endurspeglar byggðina

Að sögn Heimis Janusarsonar, sem ber ábyrgð á garðinum og leiddi okkur um rangala hans og stíga, dregur kirkjugarðurinn dám af umhverfi sínu á hverjum tíma. Má greina í skipulagi hans og uppbyggingu sömu stef og réðu því hvernig húsakynnum hinna lifandi var háttað á sama tíma. Samkvæmt því yfirfærum við strauma og stefnur í byggingarlist og fyrirkomulagi byggðar, á leiðin sem prýða grafir ástvina. Og auðvitað er garðurinn áfangastaður fyrir næturgesti og ferðalanga sem ráfa þar um í ýmsum tilgangi. En rétt eins og hann hefur svo mörg samkenni með híbýlum þeirra landsmanna sem enn eru kvikir, fer ekki á milli mála að umhverfi þetta nýtur helgi og virðingar. Einu virðist gilda hvert ástand gestanna er, þeir valda þar engum spjöllum eða sóðaskap.

Garðurinn er, bakhlið lífsins í borginni. Hann er skuggi þeirrar veru sem stendur í sólinni og minnir okkur á að handan allrar þeirrar uppbyggingar og allra okkar drauma bíður annar veruleiki. Þótt hann sé ekki eins áberandi og sjálft lífið, þá minnir hann á sig reglulega og að endingu leitar allt það sem lifir í sama farveg. Moldin eignast okkur, eins og sungið er í stúdentasöngnum.

Já þarna eru bæði látlausar grafir og grafhýsi sem hafa vart kostað minna en glæsihallir lifenda. Allt þetta blasti við göngufólki sem tók þátt í vikulegri dagskrá í Neskirkju og ber það viðeigandi heiti, Krossgötur. Í garðinum eru jú krossar víða, eðli málsins samkvæmt en táknin eru fleiri enda snerta þessar krossgötur lífs og dauða okkur svo náið að við mennirnir finnum þeim ýmsar myndir og skírskotanir í aðra heima.

Dauðinn

Fátt snertir okkur eins sterkt og dauðinn. Hann skipar sérstaka stöðu í menningu okkar. Stundum er eins og við ýtum honum frá okkur, viljum ekki við hann kannast, geymum hann inni á viðeigandi stofnunum, fjarri heimili og mannlífi. En um leið drögumst við að honum af slíkum krafti að vart kemst nokkuð í hálfkvisti við dauðann hvað vinsældir snertir og áhuga. Menningin er uppfull af honum, skáldsögur, kvikmyndir og leikrit fjalla að miklu leyti um þetta fyrirbæri.

Á sínum tíma voru miðilsfundir ómissandi þáttur í tómstundum heldri borgara hér í borg. Enn í dag laðast margir að frásögnum um ýmsa þætti sem virða ekki landamæri lífs og dauða, og skilja okkur oftar en ekki, eftir með fleiri spurningar en svör. Já, dauðinn á sér ýmis samheiti í íslensku máli, ólíkt sjálfu lífinu. Ætli það sé ekki bara sagnirnar að eira og tóra sem koma þar til greina og vísa þá vart til lífs í fullri gnægð.

Tákn

Nú hlýddum við á frásögn úr Jóhannesarguðspjalli þar sem líf og dauði eru til umfjöllunar. Þegar talað er um kraftaverk í guðspjalli Jóhannesar er talað um tákn, og rétt eins og táknin sem standa á legsteinum vísa þau til einhvers annars veruleika. Tákn hafa þann tilgang. Með því að lýsa mætti Krists, er hann breytti vatni í vín, læknaði sjúka og mettaði fjöldann, verður frásögnin um leið eins og leiftursýn inn í aðra heima. Hún opnar okkur dyr að fagnaðarerindinu þar sem maðurinn fær ekki aðeins leiðsögn um það hvernig lifa skuli góðu lífi. Boðskapurinn er ekki síður sá að handan þess sviðs sem færni hans og hæfni fær stjórnað megi hann njóta þeirrar fyrirgefningar sem Guð einn getur miðlað.

Já, við lesum um heimsókn Jesú inn á heimili Mörtu og Maríu. Hús það var sorgarhús. Dauðinn hafði vitjað þess og allt var fast í álögum harmsins. Við þekkjum þau áhrif sem dauðinn hefur. Og Marta kemur á móti Jesú og segir að hefði hann komið fyrr, þá væri bróðir hennar ekki dáinn. Þetta er að sönnu trúarjátning en hún bindur starf Jesú við stund og stað.

Svarið sem hún fékk er einmitt það að kærleikur Guðs er samur á öllum tímum. Hann vefur saman andstæðurnar, krossgöturnar renna saman í eitt, landamærin hverfa - þar sem trúin á Krist leiðir inn í lífið. Já, þetta er sá boðskapur sem birtist okkur þegar gengið er framhjá moldu fólks sem lifði og hrærðist á ólíkum tímum en var svo, rétt eins og Lazarus, kallað á brott, á einhverjum dauðans óvissum tíma.

Sjöunda táknið Sjöunda tákn Jesú í guðspjallinu ávarpar þennan veruleika okkar og þar stillir Jesús sér upp mitt á krossgötunum okkar þar sem við horfum fram til hins hulda heims sem bíður handan dauða og grafar. Þar nýtast ekki skyndilausnirnar, þar eru tæknin og vísindin jafn orðlaus og ómálga barnið - um hvað þar kann að leynast. Enda talar Biblían í táknum þegar dauðinn er annars vegar.

Tákn breytast en þau vísa engu að síður til einhvers sem hafið er yfir tíma og rúm. Krossar hafa jafnan orðið algengari í táknmáli kirkjunnar í kjölfar styrjalda og hörmunga. Nútíminn á sér önnur tákn sem vísa til hins sama. Verk þýska glerlistamannsins Jóhannes Schreiter sem átti að fara í glugga háskólakirkjunnar í Heidelberg sýnir til að mynda krossgötur lífs og dauða sem hjartalínurit deyjandi manns. Flöktandi línan verður smám saman að beinu striki, þegar hjartað hættir að slá. En svo endar það í óljósu flökti eins og sem viðurkenning á þeirri staðreynd að handan þessara mæra eru svið sem við höfum aldrei skilið til fulls - en eru þeim mun meira fóður fyrir forvitni okkar og hugarflug.

Textar þessa dags eru hlaðnir táknum. Með þeim hætti mætum við hinu óþekkta. Hið forna skáld úr Davíðssálmum hrópar úr djúpinu - þar sem sorgin hefur heltekið hann. Hann situr ofan í myrkrinu og þótt ekkert svari ákalli hans og hrópum, er Guð aldrei nær manninum en þegar sorgin er mest.

Talað í táknum Kristur talar sannarlega í ráðgátu sem skilur okkur eftir með spurningar, eins og hæfir þeim táknum sem í kringum okkur eru: ,,Ég er upprisan og lífið, sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi”. Hér er ekki fjallað um einn afmarkaðan atburð. Miklu frekar það líf sem sá fær að njóta sem er hluti af sigurliði Krists, sá sem fangar gleðina sem því fylgir að eiga lifandi samfélag við Guð sinn sem umvefur hvern mann kærleika og fyrirgefur breyskum mönnum misgjörðir sínar. Á þeim stað gilda önnur lögmál en ríkja í heimi lifenda þar sem lögmálið er að endingu það sem vitnar um rétt og rangt.

Já, fróðlegt var að fá að ganga um hinn forna Hólavallarkirkjugarð. Hann er eins og heimur út af fyrir sig. Í honum vaxa jurtir sem hvergi er að finna á öðrum stöðum á Íslandi og jafnvel í Norður Evrópu. Garðurinn er eins og spegilmynd umhverfis þeirra sem enn draga andann. Hann dró dám af því hvernig menn reistu hús og íbúðahverfi á þeim tíma sem einstakir hlutar hans risu. Það var eins og friðarstaður hinna látnu væri hliðstæða þess heims sem fólk lifði og hrærðist í. Boðskapur dagsins í kirkjunni er þó sá að þar er reginmunur á. Í mennsku umhverfi gilda reglur og lögmál. Þegar kemur að hinum hinstu tímum, hvílum við okkur í faðmi Guðs og leggjum áhyggjur okkar og sorg þar einnig. Þar getum við örugg dvalið því hann mun vel fyrir okkur sjá.