Söngur eða gangstéttarhellur?

Söngur eða gangstéttarhellur?

Ég heyrði eina rödd spyrja fyrir nokkrum vikum, af hverju syngur fólkið ekki meira. Býr til kóra og semur baráttusöngva? Þetta fannst mér nokkuð góð hugmynd. Hvernig væri það?
fullname - andlitsmynd Ingólfur Hartvigsson
29. janúar 2009

Margar raddir hrópa í dag. Reiðar og bitrar raddir sem sjá ekkert nema ranglæti og vonleysi. Raddirnar heyrast í útvarpinu, sjónvarpinu og það er hægt að lesa hvað þær segja í blöðunum og bloggsíðum netsins. Ég heyrði eina þeirra spyrja fyrir nokkrum vikum, af hverju syngur fólkið ekki meira. Býr til kóra og semur baráttusöngva? Þetta fannst mér nokkuð góð hugmynd. Hvernig væri það? Skapa eitthvað úr allri þessari reiði og heift. Boðskapurinn kæmist kannski betur til skila með söng heldur en með gangstéttarhellum. Söngur og tónlist virka vel til þess að koma boðskapi til skila. Söngur og tónlist hefur verið notuð um aldir til þess að boða orð Guðs og fagnaðarerindi Jesú Krists. Í síðasta Davíðssálmi (slm 150) fáum við innsýn í helgihaldið í musterinu í Jerúsalem. Þar var leikið á hljóðfæri og sungið Guði til dýrðar. Sálmurinn endar á þessari hvatningu: Allt sem andardrátt hefur, lofi Drottin. Söngur og tónlist eru ein af mikilvægustu tjáningarformum mannsins og þá um leið kirkjunnar. Orð og tónlist saman rista oft og tíðum dýpra inn í okkar sálartetur en orðin ein. Þess vegna er það svo gott að syngja. Þess vegna byrjum við stundum að raula þegar okkur líður vel eða leitum eftir huggunarstefjum og huggunarorðum sálmaskálda þegar okkur líður illa. Þess vegna er tónlistarstarf svo mikilvægur þáttur í kirkjustarfinu.

Starf kirkjukóranna í Kirkjubæjarklaustursprestakalli, þar sem ég starfa, er afar þýðingarmikið fyrir söfnuðina. Það er krefjandi og gefandi þeim sem þar leggja til af fórnfýsi krafta sína. Kórstarf á landsbyggðinni tengist hinni almennu menningarstarfsemi á svæðinu. Kórarnir hér í prestakallinu eru afgerandi þáttur í menningarlífi hreppsins og hafa miklu víðtækari hlutverk en aðeins að syngja sálma við helgiathafnir safnaðarins. Það má því með sanni segja að stuðningur við kirkjukóranna sé lífsnauðsynlegur fyrir menningarlíf hreppsins. Kórar um allt land þurfa ekki aðeins fjárhagslegan stuðning heldur þurfa kórar fyrst og fremst á fólki að halda, fólki sem er tilbúið til að taka þátt í starfinu og efla sönglistina. Kirkjan syngur, hvort sem það er í vel æfðum kór eða hver með sínu nefi. En það að syngja í vel æfðum og samstilltum kór gefur mikið af sér.

Við heyrum margar raddir þessa dagana. Sumar eru fullar af heift og reiði. Sumar vilja sjá breytingar í átt til réttlátara og mannúðlegra samfélags. Það er gott að tjá sína skoðun. Viðra reiði sína og láta heyra í sér. Og þá er einnig mikilvægt að hlusta og heyra hvað næsta manneskja er að hrópa. Þetta eru eiginleikar sem þú lærir með því að stunda kórsöng. Þar syngur þú þína rödd en um leið hlustar þú á það sem hinar raddirnar syngja til þess að þið syngið ekki falskt. Væri ekki gott ef öll íslenska þjóðin, með sínar ólíku raddir, lærði að syngja saman sem einn kór í samhljómi?

Ingólfur Hartvigsson, sóknarprestur.