Spurning til Kirkjuþings
Nú þegar verið er að endurskoða lögin um þjóðkirkjuna frá 1997 er eðlilegt að spurt sé hvort sú skipan mála sem þá var komið á hafi náð tilgangi sínum, hvort hin frjálsa og sjálfstæða þjóðkirkja sé betur tengd við þjóðlífið og lifandi starf í söfnuðunum en áður. Ekki hefur verið gerð kerfisbundin úttekt á því hvernig hin nýja skipan virkar en þeir eru margir sem efast um að þjóðkirkjan sé öflugri nú en fyrir tíu árum - að fleiri taki þátt í helgihaldi hennar og láti til sín taka í samfélaginu á grundvelli kristinnar trúarsannfæringar sinnar. Nú er því tilefni til að skoða stjórnkerfi og skipan kirkjunnar og kanna hvaða leiðir eru færar til þess að hún verði það krydd og ljós í þjóðlífinu sem vonir standa til, því víst er um það að margir líta til hennar og óska þess að starf hennar megi eflast á sem flestum sviðum. Til þess að hún styrkist sem þjóðkirkja verður einnig að huga að hinum margslungnu sögulegu tengslum hennar við þjóðina. Aðgreining ríkis og kirkju gerir það enn brýnna en áður að hugað sé að þessum tengslum og að skipulaginu sé hagrætt þannig að þjóðkirkjan verði lifandi og skapandi trúfélag sem geti tekist á við margbreytileg viðfangsefni.
Eitt af því sem vel hefur tekist með þeirri nýju skipan sem komst á í kjölfar laganna frá 1997 var valið á forsetum kirkjuþings. Það þarf að efla stöðu þeirra og um leið þarf að styrkja stöðu biskupafundar og fá biskupunum á Hólum og í Skálholti eiginleg biskupsdæmi. Starfshættir kirkjunnar á landsbyggðinni eru með öðrum hætti en á Reykjavíkursvæðinu. Ábyrgir biskupar á hinum fornhelgu stöðum myndu gera starf hennar skilvirkara sem var einmitt markmiðið með sjálfstæði kirkjunnar og aðgreiningu hennar frá ríkinu. Biskupinn í Reykjavík gæti þó áfram verið oddviti biskupafundar í ýmsum málum. Þetta er hugmynd sem hefur oft skotið upp kollinum í umræðum um skipan íslensku þjóðkirkjunnar og það ætti að vera auðvelt að kanna það hver sé vilji kirkjufólks nú varðandi þetta atriði.
Sú stefna að gera Þjóðkirkjuna sjálfstæða og frjálsa virðist að mati margra fela það í sér að vald biskups Íslands þurfi að ná yfir sem flestar stofnanir og nefndir kirkjunnar. Það er í sjálfu sér skiljanlegt að ríkisvaldið (og fjölmiðlar) vilji geta snúið sér til eins aðila sem tali í öllum málum fyrir hönd kirkjunnar og það getur verið skynsamlegt út frá lögfræðilegu og rekstrarhagfræðilegu sjónarmiði, en það er alls ekki gott fyrir þjóðkirkju sem er eining um ólíkar trúarskoðanir, reynslu og lífsviðhorf.
Það má færa rök fyrir því að biskupsembættið í Þjóðkirkjunni eigi rót sína að rekja til hinna fornhelgu biskupsembætta sem erlent vald lagði niður um aldamótin 1800 til þess að ná betri tökum á stjórn landsins. Þjóðkirkjan varð í raun til eftir að Íslendingar fengu heimastjórn í upphafi síðustu aldar og þá urðu tímamót varðandi skipan kirkjumála í landinu. Þegar stiftsyfirvöldin voru lögð niður (amtmaður og biskup) töldu ýmsir mætir alþingismenn og prestar að leggja mætti biskupsembættið niður eða sameina það prófastsembætti eða embætti forstöðumanns Prestaskólans. Þórhallur Bjarnarson forstöðumaður Prestaskólans gegndi lykilhlutverki í því að móta Þjóðkirkjuna eins og við þekkjum hana og hann neitaði að fara til Kaupmannahafnar til að vígjast þar af Sjálandsbiskupi (sem var eins konar erkibiskup dönsku ríkiskirkjunnar).
En hvað þá með biskupsvígsluna? Jú, Þórhallur gat þegið hana af forvera sínum og vildi auk þess styrkja stöðu embættisins með því að láta vígsluna fara fram í Skálholti. Það reyndist þó útilokað því að forveri hans, Hallgrímur Sveinsson, var fársjúkur auk þess sem allt var í niðurníðslu í Skálholti, engin boðleg hús og kirkjan lítil timburkirkja. Þórhallur biskup tengdi embætti sitt enn frekar hinum fornhelgu biskupsembættum með því að halda prestastefnuna árið 1910 á Hólum og gera úr henni eins konar kirkjuþing. Alþingi rak svo smiðshöggið á þennan skilning hans með því að samþykkja lög um vígslubiskupa fyrir hin fornu stifti á Hólum og í Skálholti og voru til þess valdir mætir prestar sem þó sátu áfram í prestaköllum sínum. Nú sitja þessa virðulegu staði biskupar sem kosnir hafa verið á sama hátt og biskup Íslands sem situr í Reykjavík. Búið er að leggja mikið fé í það að byggja þessa staði upp sem kirkju- og þjóðmenningarmiðstöðvar og mikill stuðningur hefur fengist frá Norðurlöndunum vegna þess að þar hefur sá skilningur verið fyrir hendi að þessir fornhelgu staðir séu aðalsmerki íslensku Þjóðkirkjunnar.
Þjóðkirkjan skilgreinir sérstöðu sína þannig að hún þjóni landsmönnum öllum, veiti kirkjulega þjónustu óháð því hvar þeir búa á landinu, en nú virðist sem kirkjuþing ætli að skilgreina sjálfstæði þjóðkirkjunnar þannig að best sé að færa sem mest frumkvæði og ábyrgð á einn stað, á biskupstofuna við Laugaveg 31 í Reykjavík. Er það virkilega vilji sitjandi kirkjuþings sem túlkar vilja kirkjufólks í hinum dreifðu byggðum landsins?
Pétur Pétursson er prófessor í guðfræði og starfandi forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands.