Gleðilegt sumar

Gleðilegt sumar

Sumardagurinn fyrsti er dagur vonarinnar og bjartsýninnar, við treystum algóðum Guði sem skapaði sumar, vetur, vor og haust og minnir okkur sífellt á mátt sinn, miskunnsemi og kærleika í þeim hamingjubrotum sem hvarvetna má finna.
fullname - andlitsmynd Bryndís Malla Elídóttir
24. apríl 2008

Íslendingar hafa alltaf verið nokkuð sérlunda þjóð og sjálfstæð. Við höfum viljað halda okkar einkennum og okkar sérstöðu og þó við séum áhrifagjörn þjóð, þá höfum við aldrei verið góð í því að taka við tilskipunum annars staðar frá. Saga aldanna og genginna kynslóða sýnir okkar hvernig tilskipanir voru annað hvort hunsaðar með öllu eða þá sveigðar til eftir því sem hentaði hér á landi.

Sumarblóm. Sennilega voru bæði kostir og gallar við það en einn af kostum þess njótum við þegar við fögnum Sumardeginum fyrsta en hann er einn af elstu hátíðisdögum okkar. Hann virðist hafa fylgt þjóðinni nánast frá upphafi, þegar tímatalið miðaðist aðeins við sumar og vetur. Þá var áramótum ekki fagnað sem slíkum heldur telur Árni Björnsson þjóðháttafræðingur í bók sinni Saga daganna að upphaf árs hafi miðast við Sumardaginn fyrsta.

Með kristinni kirkju barst nýtt tímatal og nýjir hátíðisdagar. Í lang flestum löndum sem tóku hinn nýja sið var tímatalið um leið tekið upp. En ekki hér á landi. Hið gamla tímatal var smám saman samræmt kirkjuárinu en aldrei alveg til hlýtar. Þannig höldum við enn í heiðri hinum fornu nöfnum mánaðanna, Þorra, Góu, Einmánaðar og Hörpu sem hefst á Sumardaginn fyrsta. Vegna þessarar sérstöðu eða sérlundar okkar, þá stóð Sumardagurinn fyrsti af sér breytingar á tímatali og er enn haldinn hátíðlegur um allt land. Einnig er það svo að margt eldra fólk sem fæddist á fyrri hluta síðustu aldar miðar afmælisdag sinni ekki við ákveðinn mánaðardag heldur talar út frá hinu forna tímatali. Afmælisdagurinn er þá í annari viku Einmánaðar, fyrsta sunnudag í vetri eða á Sumardaginn fyrsta og jafnvel er það svo að fjölskyldan er ekki viss um nákvæman fæðingardag samkvæmt tímatali nútímans.

Oft á tíðum er Sumardagurinn fyrsti okkur kærkomin staðfesting á því að sól fer sífellt hækkandi á lofti og bjartari og betri tíð sé fram undan. Eftir nokkuð snjóþungan vetur er beðið með óþreyju eftir hlýnandi veðri og bjartri sumarsól. Fyrr á öldum var það hins vegar aldrei skilningur manna að með Sumardeginum fyrsta ætti að koma sumarblíða. Einungis markaði hann upphaf sumarmisserisins og munum við enda sjálfsagt öll eftir því að hafa fagnað sumri í snjókomu, kulda og trekk. Nútíminn er hins vegar kröfuharðari og finnst mörgum sem sumarhiti eigi að vera kominn strax á morgunn.

Kröfur okkar verða sífellt meiri og þar af leiðandi kvartanir okkar einnig. Engu máli virðist stundum skipta þó kröfurnar beinist að því sem við höfum enga stjórn á eins og veðri og vindum, lækkandi gengi eða vaxandi verðbólgu. Við vitum það hins vegar að sumt er utan þess sem við fáum stjórnað meðan við höfum annað fyllilega í hendi okkar. Við vitum ekki hvernig komandi sumar verður – hvort það rigni meira og minna í allt sumar, hvort krónan haldist stöðug eða hvernig gengi hlutabréfa verður.

Við getum ekki talið sólardagana eða vikurnar fyrir fram en við ráðum samt miklu um það sjálf hvernig sumarið reynist okkur. Því hamingjuna höfum við í hendi okkar, að því marki sem okkur er gefið að vinna úr þeim dögum sem við fáum, sólarríkum sem öðrum. Þar ræður miklu að horfa með bjartsýni fram á vegin og treysta því góða, fagra og fullkomna sem lífið býður upp á.

Sumardagurinn fyrsti er dagur vonarinnar og bjartsýninnar, við treystum algóðum Guði sem skapaði sumar, vetur, vor og haust og minnir okkur sífellt á mátt sinn, miskunnsemi og kærleika í þeim hamingjubrotum sem hvarvetna má finna. Guð gefi að þú lesandi góður, megi bera gæfu til þess á komandi sumri og varðveita birtuna í hjarta þér. Gleðilegt sumar.