Lofum barninu að koma fram

Lofum barninu að koma fram

Hermaðurinn horfði tilbaka og augu þeirra tveggja mættust. Jafnskrýtið og það var datt allt í einu datt á grafarþögn sem stúlkan rauf eftir stutta stund með skrækri röddu sinni er hún sagði við hermanninn sem hún horfði á: „Áttu nokkuð tyggjó?“
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
26. desember 2007
Flokkar

Lífið brýst fram

Fæðing Jesú Krists varð á þennan hátt: María, móðir hans, var föstnuð Jósef. En áður en þau komu saman reyndist hún þunguð af heilögum anda. Jósef, festarmaður hennar, sem var valmenni, vildi ekki gera henni opinbera minnkun og hugðist skilja við hana í kyrrþey. Hann hafði ráðið þetta með sér en þá vitraðist honum engill Drottins í draumi og sagði: „Jósef, sonur Davíðs, óttast þú ekki að taka til þín Maríu, heitkonu þína. Barnið, sem hún gengur með, er af heilögum anda. Hún mun son ala og hann skaltu láta heita Jesú því að hann mun frelsa lýð sinn frá syndum hans.“ Allt varð þetta til þess að rætast skyldi það sem Drottinn lét spámanninn boða: „Sjá, yngismær mun þunguð verða og fæða son og lætur hann heita Immanúel,“ það þýðir: Guð með oss. Þegar Jósef vaknaði gerði hann eins og engill Drottins hafði boðið honum og tók konu sína til sín. Hann kenndi hennar ekki fyrr en hún hafði alið son. Og hann gaf honum nafnið JESÚS.

* * * * *

Jólahátíðin gengur nú yfir, með allri sinni gleði og fögnuði og sinni djúpu helgi. Ég vona að jólin hafi verið þér gleðileg og að boðskapur þeirra hafi fundið sér leið að hjarta þínu og lifnað þar við.

Já, lifnað þar við, fæðst þar!

Jólin snúast nefnilega um fæðingu, barnsfæðingu. Það er gjöfin sem okkur er öllum færð: „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.“

Jólin eru slík gjöf. En þessa gjöf er ekki að finna undir neinu jólatré. Barnið litla, ljós lífsins, fæddist í fjárhúsi og bíður þess að þú takir það upp og veitir því skjól í hjarta þínu þar sem það getur hvílst , vaxið og dafnað, og lifað.

Lifað fyrir þig.

Öll börn eru ljós lífsins ekki satt. Það vitum við. Ekki bara við sem eigum börn sjálf heldur allir sem hafa umgengist börn. Hver fæðing er lífgjöf og lífsbjörg í senn. Líf sem fæðist skapar líf í kringum sig.

Eins og allir sem staðið hafa í þeim sporurm gleymi ég því ekki þegar ég eignaðist mitt fyrsta barn. Ég var svo órólegur og óttaslegin alla meðgönguna, hugsaði í sífellu hvort ekki væri allt í lagi með barnið, hvort það þroskaðist ekki eðlilega og væri heilbrigt. Þetta er eðlileg tilfinning þó hún sé lýjandi í heila níu mánuði.

Svo kom að fæðingunni. Stóru stundinni. Ég var búinn að ákveða að fylgjast með öllu og taka þátt í öllu því sem ég mátti taka þátt í. En innra með mér var ég logandi hræddur, rétt eins og ég væri sjálfur orðinn lítið barn. Þannig leið mér. Mér fannst eins og ég hafði ekkert að segja eða fram að færa andspænis þessu undri sem var að eiga sér stað. En það þýddi auðvitað ekki að fást um það. En tilfinningarnar sem gripu mig á meðan fæðingin stóð yfir eru ógleymanlegar, þær voru svo sterkar. Ótti og vanmáttur fyrst og fremst, ónot í maga líka (e.t.v. vegna nokkurra súkkulaðistykkja sem mér var gert að borða ef ég ætlaði mér að standa í fæturna í fæðingarstofunni – ég þótti ekki burðugri en svo), og svo tilfinningin fyrir því að vera upp á aðra og annað kominn, vera áhorfandi á mikilvægasta augnabliki lífsins.

Þannig verka undur lífsins líkt og barnsfæðing. Hún fellir allar þær grímur sem maður kann að hafa sett upp, opnar grundvallarkenndum mannsins leið upp á yfirborðið, kenndum sem ekki fer mikið fyrir í daglegu lífi. Maður stendur berskjaldaður frammi fyrir lífinu. Stríður straumur tára, djúp auðmýkt og varnarleysi eiga vel við á slíku augnabliki. Og mér þótti ekkert eðlilegra sjálfum, á því augnabliki þegar ég fékk barnið mitt nýfætt í hendurnar. Ég gat ekki talað. Þegar ég reyndi það brast röddin og tárin streymdu fram og ég skalf eins og barn.

Og ekkert varð aftur eins.

Líf skapar líf. Lífið breytist og tekur á sig nýja mynd. Í gegnum börnin mín hef ég lært að þekkja sjálfan mig betur en áður, uppgötvað hliðar á mér sem ég þekkti ekki, tilfinningar sem ekki höfðu látið á sér kræla fyrr. Barnið ummyndar allt í kringum sig, það hefur áhrif á umhverfi sitt. Það snertir líf okkar með þeim hætti sem maður hefði ekki getað ímyndað sér.

Þið vitið þetta, kæru foreldrar, með fallega barnið ykkar í fanginu, nýfætt og nýskírt. Guð geymi það og blessi.

Ég las nýlega í bók einni þar sem sagði frá fjölskyldu sem var á ferð um Miðausturlöndin. Það var faðir og móðir ásamt rúmlega tveggja ára gamalli dóttur sem hét Sara. Þau fóru um Vesturbakkann á leið sinni frá Jórdan yfir til Ísraels. Þegar þau komu á ísraelskt yfirráðarsvæði voru þau, eins og aðrir ferðamenn, færð á herstöð til yfirheyrslu. Þar var margt fólk komið saman, börn og fullorðnir, sem beið innan um vígbúna hermenn sem munduðu vélbyssur sínar. Sandpokar lágu upp um alla veggi. Öllum var órótt yfir því að að vera þarna og loftið var lævi blandið.

Þegar leið að því að fjölskyldan yrði yfirheyrð þá sá faðirinn að Sara dóttir sín litla horfði beint í augu ungs hermanns sem staddur var þarna inni. Hermaðurinn horfði tilbaka og augu þeirra tveggja mættust. Jafnskrýtið og það var datt allt í einu datt á grafarþögn sem stúlkan rauf eftir stutta stund með skrækri röddu sinni er hún sagði við hermanninn sem hún horfði á: „Áttu nokkuð tyggjó?“

Það var ekki hægt að lýsa þeim áhrifum sem rödd og orð þessarar tveggja ára stúlku hafði á þá sem þarna voru saman komnir. Það tangarhald sem vopn, stríðsrekstur og áhyggjur hinna fullorðnu hafði á fólkinu varð að engu. Jafnvel þeir sem skildu ekki orð stúlkunnar vissu að hún hafði snortið hjarta hermannsins svo um munaði. Hún afvopnaði hermanninn umsvifalaust. Augu allra voru nú á honum og biðu viðbragða hans. Öll „harkmikil hermannastígvél“ stóðu kyrr.

Hermaðurinn beið augnablik en rétti svo félaga sínum varlega byssuna sína, horfði blíðlega til stúlkunnar, gekk til hennar og tók hana í fang sér. Hann fór með hana inn í hliðarherbergi og kom aftur fram örfáum mínútum síðar. Hann hélt á henni með annarri hendinni en í hinni hafði hann bakka með þremur glösum af límonaði, eitt fyrir Söru, hin fyrir foreldra hennar. Það er skemmst frá því að segja að yfirheyrslan var stutt. Og það sem meira er þá náði hermaðurinn í jeppann sinn og keyrði fjölskylduna á leigubílastöð þar sem þau héldu ferð sinni áfram.

Já, barnið hefur ómótstæðilegt afl og getu til þess að hafa áhrif á umhverfi sitt og tilfinningar þeirra sem í kringum það eru – og það án þess að ætla sér það eða vita að það geti það. Því ekkert er því eðlilegra. Einlægnin, sakleysið og auðmýktin eru því svo eðlislæg og svo blátt áfram.

Og enn kemur litla barnið til okkar, barnið í Betlehem, ljós lífsins. Barnið sem vill hafa þessi áhrif á þig, veita ljósinu sínu til þín og vísa þér leiðina til þess lífs sem það geymir fyrir þig og vill ljúka upp fyrir þér. Enn á ný kemur það til okkar og biður um að fá að fæðast hjá okkur að nýju. Í þessu barni er Guð sjálfur að fálma til okkar, leita okkar. Það er sjálfur Guð sem eygir þig í litla barninu frá Betlehem í þeirri von að hann fái að búa hjá þér. Guð sjálfur vitjar þín í þessu barni, fæðist inn í þennan heim til þess að finna okkur, þig og mig. Um það snúast jólin, um gjöf Guðs til okkar, til þín, um Jesú Krist, sem vitjar okkar, sem vitjar þín.

Þessi gjöf er þín, ef þú vilt þiggja hana.

Barnið litla í Betlehem minnir okkur á að enginn maður er meiri en hið minnsta barn og til að nálgast Guð þarf enginn maður annað til að bera en það sem barninu er eiginlegast og eðlilegast. Jesús minnti okkur á þetta í barnaguðspjallinu sem við heyrðum lesið hér áðan: „Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma“.

Hvað er það sem barnið hefur? Hvað er það sem okkur skortir, vantar upp á?

Er það ekki einlægnin?

Það kemur að því að veruleiki heimins og lífsins opinberast okkur og við sjáum hann með augum hins fulltíða manns. Hvað gerum við? Við klæðum okkur í brynju. Eftir því sem árin líða og bernskan fjarlægist verður brynjan að sama skapi þykkari. Og þar felum við okkur. Að því kemur að sárafáir komast inn fyrir, ef nokkur. Við komumst jafnvel ekki sjálf aftur út. Brynjan verður klafi og byrði, stundum líkust fangelsi.

Er það ekki líka auðmýktin?

Barnið getur ekki séð um sig sjálft. Það er upp á aðra komið um einföldustu en mannlegstu þarfir lífsins. Það getur ekki annað en treyst á að því verði sýnt sú umhyggja sem það þarfnast til að lifa af. Fyrsti andardrátturinn, fyrsti gráturinn er slíkt bænarákall. Traustið er barninu eiginlegt og eðlilegt. En eftir því sem árin líða verðum við færari um að sjá um okkur sjálf, við förum að treysta á okkur sjálf. Við teljum okkur jafnvel trú um að okkur séu allir vegir færir og að við þurfum á engum eða engu að halda nema okkur sjálfum.

Hvað verður þá um Guð? Hvað verður þá um litla barnið?

Jesús minnir okkur á að trúin er ekki síst fólgin í hinni barnslegu einlægni og auðmýkt sem okkur er ásköpuð. Við þurfum að vera eins og börn. Við þurfum að ganga um trúna eins og við göngum um börnin, við þurfum að næra trúna eins og við nærum börnin. Og til þess þurfum við barn, svo að við getum orðið eins og barn.

„Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn.“

Þetta barn er fætt. Það bíður eftir því að fá að snerta þig, bíður þess að verða búið staður í hjarta þínu svo að það geti haft áhrif á það og ummyndað það og laðað fram þær tilfinningar og kenndir sem búa þar innst og dýpst; til þess að lýsa upp innviði hjarta þíns með trú sinni, von og kærleika og opinbera fyrir þér hið sanna líf. Já, sú birta skín úr augum barnsins litla í Betlehem, Guðs þíns, sem er komin til þess að finna þig og segja við þig: Ekki óttast, því að ég er hjá þér. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig, ég er frelsari þinn og Guð þinn. Ég einn.

Þetta segja jólin við þig: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn. Hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu. Ég vona og bið að jólin þín leiði þig á fund barnsins í Betlehem, að þú megir finna það þar og lofa því að fæðast í hjarta þér og lifa þar.