„Lána fætur til góðra verka“

„Lána fætur til góðra verka“

Skyldi það vera að traust sé á undanhaldi í menningu okkar? Ef svo er hvar í menningu okkar og hvenær skyldi það vera? Við fyrstu sýn virðist það ekki vera reyndin ef horft er til þess að þjóðfélagið er opnara en fyrir nokkrum áratugum síðan. Hægt er að spyrja – er það ekki gott dæmi um traust – í dag er ekki óalgengt að einstaklingur segi frá sér og sínum einkahögum í opinskáu tímarritsviðtali og eða í á einhverjum ljósvakamiðlinum.

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og hann kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: Sannlega segi ég yður, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir, er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína. Mark. 12.41-44

"Lána fætur"

Skyldi það vera að traust sé á undanhaldi í menningu okkar? Ef svo er hvar í menningu okkar og hvenær skyldi það vera? Við fyrstu sýn virðist það ekki vera reyndin ef horft er til þess að þjóðfélagið er opnara en fyrir nokkrum áratugum síðan. Hægt er að spyrja – er það ekki gott dæmi um traust – í dag er ekki óalgengt að einstaklingur segi frá sér og sínum einkahögum í opinskáu tímarritsviðtali og eða í á einhverjum ljósvakamiðlinum. Viðkomandi einstaklingur treystir alþjóð fyrir sínum innstu persónulegu málum. Stundum er það svo að það er allt að því óþægilegt aflsestrar og eða áheyrnar. Er það ekki dæmi um traust. Raunin er sú í dag að ef þú vilt vita eitthvað um náungan er minnsta mál að fletta upp á því í einhverjum að þeim fjölmörgu gagnageymslum sem er að finna á netinu.

Hugtakið traust hefur farið í “andlitslyftingu.” Ásjóna hennar er öll önnur en hér áður fyrr þegar fólk treysti fáum nema sinni allra nánustu fjölskyldu eða vinum fyrir sínum málum. Í dag er ekki málið að anda ofaní hálsmálið á náunganum og náunginn lætur sig það ekki varða. Við fyrstu sýn virðist sem að ungt fólk í dag vera fúsara að opinbera sig og sitt fyrir hverjum þeim sem hefur nennu til að lesa og að ekki sé talað um að horfa á í sjónvarpi og eða hlusta á í útvarpi um tilfinngar og hagi einstaklingsins. Í daglegu tali er talað um þær manneskjur sem leggja sig við að opinbera sig og sitt – að þær séu haldnar athyglissýki. Sumum þykir voða smart að viðurkenna fyrir alþjóð að hann eða hún sé haldin þessari sýki og virðast þannig vera að afsaka þessi og hin “fíflalætin.”

Í orðabók menningarsjóðs er orðið “traust” skilgreint meðal annars – “það að treysta” “sem má treysta.” Traust er ekki eitthvað sem við fáum í hendurnar og síðan vinnum við ekkert meira með það. Traust er ekki eitthvað sem dettur af himnum ofan og skellur á hvirfil okkar og borar sig þar í gegn þar til það hefur náð að koma sér fyrir í vitund okkar. Við ávinnum okkur traust með orðum og verkum. Að vera treyst að finna til trausts, að vera traustsins verð er hverju okkar mikilvægt. Traust til að byrja með til “smárra” verka sem síðan stækka eftir því sem við eldumst. Í þessu sambandi er vert að minna á söfnun fermingarbarna vorsins 2006.

Framundan er verðugt verk sem við í kirkjunni og Hjálparstarfi Kirkjunnar treystum unglingunum til að gera en það er að þau “láni fætur sínar” til þeirra sem minna mega sín vegna fátæktar, vegna stríðshörmunga vegna þess að manneskjan hefur fæðst inn í aðstæður sem hún ræður ekki við, aðstæður sem afskræma mennskuna. En með örlítilli hjálp frá þeim sem hefur það betra, féagslega, fjárhagslega, umhverfislega er hægt að umbreyta vonleysi í von – sorg í gleði – bara með því eins og áður segir að “lána” heilbrigða fætur. Ég er að tala um söfnun fermingarbarna mánudaginn 7. nóvember næstkomandi. Þá munu fermingarbörn vorsins 2006 um allt land ganga á milli milli húsa hvert í sinni sókn með söfnunarbauka frá Hjálparstarfi kirkjunnar og safna fyrir “systrum” og “bræðrum” sem hafa það ekki eins gott og þau. Reyndin er sú að í gegnum tíðina hefur þessi söfnun gengið vonum framar og börnin tekið heilshugar þátt í verkinu. Sérstaklega þykir þeim gaman að hugsa til þess að þau geti áorkað ýmsu með því einu að “lána fætur sína.” Með því að lána fætur sína hafa sporgöngumenn ungmennanna sem munu banka á ykkar dyr þann. 7. nóvember breytt lífi þúsunda manna ungra sem aldna. Breytt vonleysi í von. Þótt að þeim þyki það oft á tíðum harla lítið sem þau lögðu til söfnunarinnar.

Traust

Talandi um traustið. Mikilvægt er að börnin finni að þeim er treyst fyrir þessu. Þeim er treyst fyrir því að fara út í óvissuna og búast við því versta og því besta hvað mótttökur varðar.

Það er nefnilega þannig að þegar traust er annarsvegar verður það að virka í báðar áttir. Að treysta og vera treyst. Þau fara út í trausti og vilja standast það traust. Spurningin er hvort þeim sé treyst af þeim sem þau mætu þarna úti. Fyrir mörgu ungmenninu er þetta verk – þessi söfnun sem áður er nefnd fyrsta stóra verkefnið sem þeim er treyst fyrir, sem hefur einhvert vægi í þeirra huga.

Áður en til þess kemur að þau framkvæma þetta verk þá hafa þau fengið fræðslu um að það eru ekki allir sem lifa við fjárhagslegt, félagslegt, samfélagslegt, uppeldislegt, menntunarlegt öryggi hvorki hér heima eða úti í hinum stóra heimi.

Af ljónum og kisum

Sem leiðir hugan að nægjusemi. Það verður að segjast að þjóðfélagsbreytingar hér á landi hafi verið stórkostlegar ef aðeins er litið nokkra áratugi aftur í tíma. Samfélagsbreytingar sem hafa leitt til góðs og til hins verra. Eitt er nægjusemi. Þolmörk nægjuseminnar hefur rýrnað í sama mæli og krónan hefur styrkst. Auðvitað er ekki hægt að setja nægusemina og þá á móti græðgina undir mælistiku og mæla þannig styrk, þyngd og lengd hennar. Auðvitað hefur og verður nægjusemin huglæg. Því það sem einum finnst vera nægjusemi kann öðrum að þykja bruðl og flottræfilsháttur.

Ég held að allir séu sammála um að þolmörk nægjuseminnar hafi almennt minnkað í huga fólks. Sem lætur hugan sveima að texta dagsins um “eyri ekkjunnar.” Sá texti leiðir okkur inn á brautir trausts, nægjusemi, góðvildar og þakklæti fyrir það sem við höfum.

Ekkjan lagði í fjárhirsluna tvo smápeninga eins eyris virði, eins og sagði frá í frásögu Markúsar. Í augum einhverra ekki mikið, en í hennar huga og í reynd tekið tillit til hennar veraldlegra auðæva gaf hún allt sem hún átti. Hún gaf reyndar meira en það hún gaf af góðvild, hún gaf í trausti þess að vel yrði gert. Hún gaf af þakklæti fyrir það sem hún átti. Það er eitt að gefa af alsnægtum og annað að gefa af skorti. Í þessu samhengi er auðvelt að falla í þá gryfju að dæma og verðleggja gjafir. Það er sama hversu mikið er gefið hversu lítið er gefið þá skiptir hugurinn bak við gjöfina máli.

Það gerðist í fyrra að kona/móðir ungs drengs hér í söfnuðinum hringdi í örvilnan í mig og sagði farir sínar ekki sléttar. Þannig var að fermingarbörn höfðu komið og bankað á dyr hennar með söfnunarbaukana. Hún hafði þá stundina brugðið sér af bæ í fáeinar mínútur yfir í næsta hús og drengurinn var einn heima. Sonur hennar 5 ára hafði farið til dyra og farið að spjalla við þau sem knúðu dyra. Sá stutti hafði rukkað þau um allt hvað varðaði þessa söfnum og hver ætti að fá peningana. Hann fékk greið svör við því. Hann fékk að vita að þeir færu alla leið til afríku og það yrðu byggðir vatnsbrunnar fyrir þá svo að fólk þá aðallega konur þyrftu ekki að fara langar leiðir til að sækja hreint og ómengað vatnið. Það væri bæði erfitt og hættulegt fyrir konurnar og börnin. Svöng ljón gætu orðið á vegi þeirra og önnur óargadýr. Þegar hann hafði hlustað nóg bað hann ungmenninn að bíða. Hann þyrfti nefnilega að fara aðeins inn. Stuttu seinna kom hann með stútfullan sparibaukin sinn sem hann hafði verið að safna í. Hann var nefnilega að safna fyrir Playstasion tölvu. Sá stutti gerði sér lítið fyrir og sagði við ungmenninn. “Ég vil miklu frekar að börnin “ykkar” í afríku fái hreint og gott vatn og ef einhver afgangur yrði mættu þau allveg kaupa sér Playstation tölvu. Hann ætti nefnilega góðan vin í næsta húsi sem ætti svona tölvu og hann mætti og þyrði allveg að fara þangað einn því að það væru engin svöng ljón í Árbænum sem gætu borðað hann.” Hann sagði reyndar að hann væri svolítið hræddur við kisur.

Mamma hans í örvilnan vildi bara vita hvort að sparibaukurinn hafi ekki allveg örugglega komist til skila. Það sem meira var að sonur hennar væri rosalega spenntur ef hann fengi mynd af vatninu í afríku sem jafnaldra hans og “mamma hans” eins og hann hafði sjálfur komist að orði þyrftu að sækja bara heima hjá sér. Vegna þess að hann hafði gefið þeim sparibaukinn sinn. Ljón mætti allveg fylgja með á mynd.

Ykkur að segja þá fékk þessi ungi drengur áritað heiðursskjal frá Hjálparstarfinu og ekki löngu seinna fékk hann að sjá “vatnið” sem hann gaf í stað þess að fá tölvuna sína. Það sem meira var að hann fékk ljón sem geispaði ógurlega þannig að sást í vígalegar tennur þess.

Forsjá

Hvað er hægt að kalla sögu sem þessa eða í hvaða hillu lífsins er hægt að koma henni fyrir. Ekki til að rykfalla og draga fram á hátíðisdögum heldur alltaf hvenær sem er. Ein leiðin væri að tala um nútímadæmisögu mitt í efnishyggju samfélagi sem metur verðgildi hluta meira en samfélagslega aðstoð við náungan. Því miður verður að segjast eins og er að þær fregnir sem við höfum fengið að heyra undanfarin dægur af einstaklingum sem deyja drottni sínum yfirgefin af samfélaginu eru sorglegar og minnir okkur á ábyrgð og þá forsjá sem við eigum að hafa fyrir hverju öðru. Undan því verður aldrei hægt að víkja. Við viljum meina að við höfum komið okkur upp félagslegu öryggisneti sem fangar flestan samfélagslegan vandan. En þið vitið sem hafa stundað sjóinn og raunar þurfum við ekki hafa gert það til að vita að það eru ekki allir sem gefa færi á sér að vera “fönguð” í hið samfélagslega öryggisnet. Það er alltaf einhver og eða einhverjir sem viljandi komast hjá því að lenda þar og eða af einhverjum öðrum orsökum lenda utan við.

Það er ekkert auðveldara en að skella skuldina á félagsmálayfirvöld og friðþægja sjálfa sig með því. Það er of auðvelt. Það er eins og að skella dyrum á ungmenni sem þann sjöunda nóvember mun koma á þínar dyr með söfnununarbauk Hjálparstarfs Kirkjunnar og segja að þessar manneskjur sem er verið að hjálpa geti bara séð um sig sjálft.

Hitt er líka og skal alls ekki gera lítið úr því að við finnum okkur oft í þeim aðstæðum að finnast við vera lítismegnug að hjálpa náunganum hér heima og eða erlendis. Finnast við hafa lítið að gefa. Þá er gott að hugsa til frásögunar um “Eyri ekkjunar” hún gaf af fátækt sinni. Það er í raun allt sem við getum gert – að gefa af fátækt okkar. Því í vissum skilningi erum við fátæk í svo mörgu. Kann að vera að einhver eigi fúlgu fjár en er fátæk/fátækur í hugsun og verkum. Kann að vera að einhver eða einhverjir eigi ekki eyri í banka en er ríkur af mannlegri reisn og fyllt/fylltur af hugsjón þess að gera vel við náungann. Eða eins og ágætur kollegi komst að orði í hugleiðingu – “Sumar gjafir er alls ekki hægt að pakka inn í skrautpappír, en kannski eru það bestu gjafirnar. Það er til dæmis erfitt að pakka brosi inn í pappír og jafnvel erfitt að hemja það í kassa.”

Hverju orði sannara, en afhverju þurfa svona orð eiga svo oft erfitt með að eigna sér stað í huga? Afhverju er traust manna á meðal á hröðu undanhaldi í samfélagi okkar?” Ég veit vel að stórt er spurt og svörin liggja ekki við fætur okkar. Þrátt fyrir það eigum við ekki hætta að leita og reyna að lifa eftir því. Ef við gerum það – þá er ekkert eftir. Ekki einusinni einn “eyrir” til að leggja saman við allt það sem við hvert og eitt okkar eru kölluð til að sýna ábyrgð gagnvart okkur sjálfum og náunganum. Við verðum aldrei of stór eða of lítil til að leggja í þann sameiginlega sjóð sem við köllum mannlega reisn.

Dýrð sé Guði, föður vorum og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.