Afmæliskveðja til þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði

Afmæliskveðja til þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði

Næstkomandi sunnudag, 4. sunnudag í aðventu, eru liðin 100 ár frá vígslu Hafnarfjarðarkirkju, eða „Þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði“ eins og hún jafnan hefur verið kölluð.
fullname - andlitsmynd Þórhallur Heimisson
18. desember 2014

Næstkomandi sunnudag, 4. sunnudag í aðventu, eru liðin 100 ár frá vígslu Hafnarfjarðarkirkju, eða „Þjóðkirkjunnar í Hafnarfirði“ eins og hún jafnan hefur verið kölluð. Kirkjan var vígð 4. sunnudag í aðventu, hinn 20. desember 1914, árið sem Heimsstyrjöldin fyrri braust út. Á meðan heimsveldin bárust á banaspjótum reistu Hafnfirðingar kirkju, Guði friðarins til dýrðar og bæjarbúum til blessunar.

Aðdragandi byggingarinnar var nokkur. Frá fornu fari tilheyrði Hafnarfjörður Garðasókn og sóttu Hafnfirðingar kirkju að Görðum. Var um langan, ógreiðfæran vegarslóða að fara og því talið brýnt að byggja kikju í hinum ört vaxandi kaupstað sem stofnaður var árið 1908. Byrjað var að grafa fyrir grunni kirkjunnar haustið 1913, nyrst í Sýumannnstúninu svokallaða, undir Hamrinum, helsta kennileiti Hafnarfjarðar. Vorið 1914 hófst byggingarvinnan og gekk hún það vel að henni lauk á jólaföstu sama ár. Yfirsmiður var Guðni Þorláksson en Rögnvaldur Ólafsson arkitekt. Þórhallur Bjarnason biskup vígði kirkjuna, þann 20. desember eins og fyrr segir. Séra Árni Björnsson var fyrsti prestur hinnar nýju kirkju. Árið 1914 voru bæjarbúar í Hafnarfirði 1500 og sést á því hversu mikið þrekvirki byggin kirkjunnar var - að ekki sé minnst á ástand heimsmála um þær mundir.

Sóknin hét formlega áfram Garðasókn til ársins 1966 þegar Garðakirkja var endurvígð sem sóknarkirkja Garðahrepps. Þá voru tvær sóknir stofnaðar í Hafnarfirði, Hafnarfjarðarsókn og Víðistaðasókn. Sú skipan tók fyrst gildi árið 1977. Hafnarfjarðarsókn nær nú yfir kaupstaðinn sunnan og austan Reykjavíkurvegar að Kaldárselsvegi og Reykjanesbraut, en sunnan og vestan þeirra tekur við Ástjarnasókn sem stofnuð var 2001. Og þó löngu séu þannig komnir fleiri þjóðkirkjusöfnuðir í bænum, kalla bæjarbúar margir enn Hafnarfjarðarkirkju „Þjóðkirkjuna“.

Sjálfur á ég, eins og margir aðrir Hafnfirðingar óteljandi ljúfar minningar tengdar þessari fögru kirkju. Í Hafnarfjarðarkirkju gekk ég í hjónaband, þar skírði ég og fermdi börnin mín, frá henni hef ég kvatt ættmenni mín og venslafólk hinstu kveðja í gegnum árin, - og í ein 25 ár fékk ég að koma að starfi kirkjunnar með einum eða öðrum hætti.

Á þessum merku tímamótum vil ég óska öllum Hafnfirðingum til hamingju með aldar afmælið.

Guð blessi Þjóðkirkjuna í Hafnarfirði, Hafnarfjarðarkirkju.