Hugleiðingar á tímamótum

Hugleiðingar á tímamótum

Ef þú leyfir þér að opna dyrnar og hleypa Guði inn í líf þitt, inn í hjarta þitt og hugsun, og ef þú endurspeglar líf þitt í ljósi þeirra fyrirætlana sem Guð hefur um þig en ekki í ljósi þeirra fyrirætlana sem þú hefur um Guð, þá upplifir þú nýja og vonarríka tíma á hverjum degi.
fullname - andlitsmynd Gunnar Jóhannesson
31. desember 2006
Flokkar

En hann sagði þessa dæmisögu: Maður nokkur átti fíkjutré gróðursett í víngarði sínum. Hann kom og leitaði ávaxtar á því og fann ekki.Hann sagði þá við víngarðsmanninn: Í þrjú ár hef ég nú komið og leitað ávaxtar á fíkjutré þessu og ekki fundið. Högg það upp. Hví á það að spilla jörðinni?En hann svaraði honum: Herra, lát það standa enn þetta ár, þar til ég hef grafið um það og borið að áburð.Má vera að það beri ávöxt síðan. Annars skaltu höggva það upp. Lk. 13.6-9

Nú er verið að gera upp! Áramót eru tími uppgjöra. Um leið og það er skoðað hvað gerðist markvert á árinu sem er að líða og hvernig til tókst þá er horft til komandi árs og reynt að spá og spekúlera í því og hvernig það muni verða. Þetta er gert öll áramót. Og þetta gerum við kannski öll, hvert með okkar hætti. Áramótin endurspegla tíðarandann, þau endurspegla viðhorf, árangur, líðan og tilfinningar. Við höfum mörg hlustað á fréttayfirlit ársins og margskonar annála, séð og heyrt hvað valdhafar og stjórnendur þjóða og fyrirtækja hafa verið að fást við síðustu mánuði, hvernig hagstjórnin hefur þróast, hvernig umhverfismálin standa, hvernig stríð heimsins gengur, við erum minnt á ljós og skugga heimsins og okkar eigin samfélags o.s.frv. Allt er þetta vegið og metið, bæði í gríni og í alvöru.

Áramót eru líka tími markmiða, málamiðlana og lausna – skyndilausna stundum. Þegar við lítum tilbaka og förum yfir árið þá er samanburðurinn sjaldnast okkur eins hliðhollur og við mundum vilja. Það er alltaf eitthvað sem betur mátti fara. Mistök voru gerð og erfiðleikar gerðu vart við sig. Samskiptin voru önnur en við ætluðum, væntingarnar stóðuðst ekki fyllilega. Á nýju ári á að gera betur. Markmið eru góð ef þau nást en ef við bregðumst og stöndum ekki undir þeim væntingum sem við og aðrir gera til okkar þá verða vonbrigðin enn meiri. Og stundum gerum við líka of miklar kröfur til okkar og ætlum okkur of mikið. Það er ekki gott. Það er betra að fara sér hægt. Áramótin geta vakið okkur til umhugsunar um ýmislegt, tímamót gera okkur jafnan næmari á kosti okkar og galla, og það er ágætt. En þetta er bara einn dagur. Leyfum honum að líða, tökum svo á móti næsta degi og sjáum svo til. Það er gott að segja við sjálfan sig á hverjum degi: Í dag ætla ég að gera það besta sem ég get, hvorki meira né minna.

Þeim sem flytja í sveitina af höfuðborgarsvæðinu er tíðrætt um allan þann tíma sem allt í einu stendur til boða og hversu miklu meira verður úr deginum hér í sveitinni. Það er rétt að mörgu leyti. Það er ekkert nýtt að sumir lifa ekki fyrir daginn í dag því þeir eru svo uppteknir að búa sig undir morgundaginn. Það getur þó gerst í sveitinni líka að sumt er skilið eftir í dagsins önnum, kannski það sem síst skyldi. En ein besta sveitaspekin sem ég hef heyrt, og hef ég heyrt ýmislegt, hnaut af vörum roskins bónda sem sagði í þessu samhengi: Oh, ætli þú hafir ekki allan þann tíma, sem til er. Og það er rétt. Og kannski mætti bæta við og segja: allan þann tíma sem þú vilt. Tímaleysi er eitthvað sem við búum okkur til sjálf, skortur á tíma felur yfirleitt í sér skort á einhverju öðru eða jafnvel flótta frá einhverju, meðvitaðan eða ekki. Spurningin snýst um forgangsröðun og hvað gefur þér mestu hamingjuna og lífsfyllinguna.

Nú ætla ég ekki að spyrja þig hvernig þér hafi vegnað á þessu ári og hvernig þitt uppgjör lítur út. Það er bara einn sem getur gert líf þitt upp. Og það ert ekki þú sjálfur nema að litlu leyti. Boðskapur guðspjallstextans minnir okkur á þau sannindi sem reynslan hefur löngum kennt okkur að uppskeran í lífinu helst í hendur við það sem sáð er. En það þarf að rækja lífið, hlú að því og sýna þolinmæði og það þarf að velja og hafna. Það er okkar að lifa lífinu og gera eins gott úr því og við getum – en það er aðeins einn sem getur gert það upp um síðir.

Og ég vil minna þig á það hér að hann hefur fyrirætlanir með þig. Og hann þekkir þær fyrirætlanir, sem hann hefur í hyggju með þig, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla, en ekki til óhamingju, að veita þér vonarríka framtíð (Jer 29.11).

Þær fyrirætlanir eru bundnar við barn. Þær fyrirætlanir voru opinberaðar þér fyrir nokkrum dögum. Ég vona að þú sért ekki búinn að gleyma því. Ég sagði hér á aðfangadag að jólin bera manninum vitni um það hvernig hann getur verið, þau sýna okkur hvað getur orðið þegar maður og Guð mætast og þegar við leyfum Guði að ráða för hjarta okkar. Það er erindi jólanna, boðskapur þeirra í sinni tærustu mynd, boðskapur um frið og kærleika milli manns og Guðs og manna á meðal. Og þetta finnum við aldrei betur en á jólunum. Engin frásögn getur kallað fram viðlíka kenndir og frásagan af fæðingu Jesúbarnsins í Betlehem. Ekkert getur endurspeglað jafn mennska mynd og jafn fagrar vonir og væntingar og litla barnið í jötunni, né heldur kallað fram jafn einlægan vilja hjá fólki til að bæta sjálft sig og umhverfi sitt. Á jólunum fáum við að skyggnast inn í þann heim sem við óskum okkur helst og við sýnum þá hlið okkar sjálfra sem fallegust er. Um stund leyfum við okkur að láta Guð ráða för hjarta okkar og móta hugsanir okkar, orð og breytni.

Og ég bað þig einnig að lofa jólunum að vara í huga þér og hjarta. Gerðu það! Ekki sem nokkra afmarkaða daga á ári, ekki aðeins sem vettvang hefða og siða, veislumatar og skrauts, heldur sem lífsafstöðu, sem hugafar, sem viðhorf er mótar og grundvallar allt þitt líf. Að baki jólanna er veruleiki sem kallar til meðvitundar og verka. Og það er Guð sem kallar í Jesú Kristi. Það er Guð sem vill ná til þín og hann teygir sig í átt til þín í litla barninu í jötunni. Þær fyrirætlanir sem hann hefur um þitt líf eru bundnar við það. Þær fyrirætlanir eru kærleikur, friður, náð, blessun, von og trú.

En margir loka dyrum sínum og úthýsa Guði og finna honum ekki pláss í sínu lífi. Sumir gægjast inn fyrir dyrastafinn, svona rétt yfir bláhátíðina, en loka jafnharðan aftur. En Guð hverfur ekki á braut. Guð leitar ekki að fullkomnun í fólki heldur aðeins trausti og vilja til að bæta sig og umhverfi. Hann knýr á dyr þínar á þessari stundu. Þess vegna höldum við jól, þess vegna tökum við á móti nýju ári! Kærleikur Guðs og vilji Guðs er að verki, ekki okkar eigin. Opinn hugur og fagrar vonir um áramót eru ekki ávísun á „farsæld á komandi ári“ en þau geta vísað þér leiðina í þá átt. Trú er ekki ávísun á áfallalaust og fullkomið líf en hún vísar þér leiðina í þá átt og hjálpar þér að feta hana. Og til þess þarft þú ekki háar hugsanir eða tilteknar gáfur. Nei! Aðeins traust í hjarta þínu, traust til Guðs og fyrirætlana hans, traust til Jesú og boðskapar hans. Ef þú leyfir þér að opna dyrnar og hleypa Guði inn í líf þitt, inn í hjarta þitt og hugsun, og ef þú endurspeglar líf þitt í ljósi þeirra fyrirætlana sem Guð hefur um þig en ekki í ljósi þeirra fyrirætlana sem þú hefur um Guð, þá upplifir þú nýja og vonarríka tíma á hverjum degi.