Vinur í raun

Vinur í raun

Hann er orðinn svo ansi vinmargur. Þvælist út um bæ, kemur víða við og hittir marga. Ótrúlegt hvað hægt er að koma sér upp tengslaneti á no time. Fólk fer á námskeið til að læra að tengja, svo fer HANN bara á Facebook - og er um leið kominn með 2.435 vini!
fullname - andlitsmynd Anna M. Þ. Ólafsdóttir
19. nóvember 2009

Aukapokinn er aðalpokinn

Hann er orðinn svo ansi vinmargur. Þvælist út um bæ, kemur víða við og hittir marga. Ótrúlegt hvað hægt er að koma sér upp tengslaneti á no time. Fólk fer á námskeið til að læra að tengja, svo fer HANN bara á Facebook - og er um leið kominn með 2.435 vini!

Já, aukapokanum er ekki fisjað saman.

Ef þú vilt kynnast honum, þá þarftu ekki að gera annað en tína nokkrar geymsluþolnar vörur í pokaskjatta næst þegar þú verslar og skilja hann þar eftir. Hann á svo vini sem sækja hann og koma honum á réttan stað. Nettó í Hverafold, Nettó í Mjódd og á Akureyri eru nýjustu stoppustaðir aukapokans. Þar getur þú keypt kaffi, pasta, hreinlætisvörur, rúsínur og kornfleks og skilið eftir í þar til gerðu íláti.

Vörurnar þínar verða svo sóttar og þeim deilt út úr matarbúri Hjálparstarfs kirkjunnar. Krónan er líka með, um allt höfuðborgarsvæðið, og Bónus bæði á Reykjavíkusvæðinu og á Akureyri. En fólk um ALLT LAND fær að njóta. Svo verður Hagkaup bráðum með. Og alltaf er hægt að skutla vininum beint til okkar í Grensáskirkju. Þar er nóg að gera að afgreiða fólk hér í bænum og senda út á land.

Og aukapokinn hefur sannarlega létt undir. Búðirnar hringja þegar aukapokinn fer að gerast helst til frekur á pláss og við sækjum. Gaman er að sjá hvað fólk velur í pokana, vöruúrvalið hjá okkur verður fjölbreyttara og gaman þegar upp koma sérþarfir sem við getum uppfyllt núna af því aukapokinn er kominn til sögunnar.

Ég hvet ykkur til að gera ykkur bara nógu dælt við aukapokann. Hann er snaggaralegur, kankvís og áreiðanlegur. Allt sem prýða má einn vin. Svo er hann svo ótrúlega hjálplegur! Enda er hann aukapoki Hjálparstarfs kirkjunnar. Þú getur kynnst honum nánar á facebook.com undir aukapoki eða fræðst um hann á help.is.