Þegar vorið og árrisult sumarið renna saman í eitt, eins og núna á Íslandi, magnast allt líf, gróður og mannlíf upp í mikla öldu athafnasemi og eftirvæntingar. Og það er eins og allt sem anda dregur, horfi fram á daginn nóttlausan og nú skuli hver stund nýtt, áður er sumarið líður hjá og „allt er búið“. Hvort sem er vinnudagur eða frídagur, þá er viðkvæðið: best að drífa sig. Þetta er oft kallað íslenski stíllinn.
En þetta er líka í stíl við Hvítasunnuna, sem er eiginlega elsta kirkjuhátíðin, og margir næstum búnir að gleyma, nema kannski til þess að skreppa í smá ferðalag. Frí eru góð og hvíld öllum mikilvæg. Hvítasunnuhátíðinni skulum við hins vegar ekki gleyma því hún getur haft ákaflega mikla og djúpa andlega merkingu í lífi fólks, - hugsandi fólks, drífandi fólks, vinnandi fólks og ekki vinnandi fólks. Þessi hátíð varðar alla, heilbrigða og sjúka, venjulega og óvenjulega. Já, í öllum aðstæðum okkar, fólksins á jörðinni, er þessi gamla hátíð mjög mikilvæg. Af hverju? Af því að hún opinberar hreyfiafl mannlífsins til jákvæðrar hugsunar og góðra verka.
Fyrir nokkrum dögum kleif ung íslensk kona fjallið Everest, hæsta fjall veraldar og vinkaði af toppnum heim úr ramma skjátækninnar og það var sannarlega einlægt og fallegt bros sem hún sendi yfir fjöll og firnindi alla leið í hjarta ástvina sinna. Slíkt afrek vitnar um getu mannsins, skarpa hugsun, vilja og þrek, og framkallar bros og von í brjósti. Afreksfólk vekur einnig upp þá tilfinningu, að kannski getum við hin líka eitthvað meira en við höfðum sjálf haldið. Fjallganga er sigur í sjálfu sér, eflir hugmyndaauðgi, hugrekki og möguleika.
Á þeim sömu dögum flaug valdamesti forseti heimsins frá Washington til Saudi Arabíu og hældi sér af því að selja þar vopn fyrir 100 milljarða bandaríkjadala. Einhverjum dettur í hug að það hafi verið afrek og miklu þýðingarmeira fyrir afkomu heimsins en fjallganga, en þó að þessi sölumaður hafi veifað til alls mannskyns gegnum fréttaveitur, kallaði það ekki fram neitt bros. Vera kann að einhver vopnasmiður hafi innra með sér verið hreykinn af þessu svokallaða „afreki“, sem varla getur verið annað en kaldhæðni einhvers sem vill græða peninga þótt einhverjir skuli drepnir fyrir vikið. Karlar og konur - og börn. Manndrápsvélar eru lífinu ógn og skelfing, mannkyninu hörmung, en þær megna aldrei að draga úr mikilvægi einstaklingsins. Peningar eru fyrirbæri, verkfæri sem eru ýmist notaðir eða misnotaðir í lífi hins viti borna manns. Vitnisburður mannfólksins um lífið á jörðinni birtist m.a. í því hvernig peningar eru notaðir.
Hér eru tiltekin tvö dæmi af nýliðnum atburðum daglegs lífs. Slíkir atburðir eru ekki hljóðir, þeir tala, þeir hrópa og þeir bera vitni um manneskjuna, í báðum tilvikum. Við áttum okkur hins vegar á því hversu gífurlegur munur er hér á vitnisburði. Þá vaknar spurningin: Hvar lendum við hin almenna manneskja á mælikvarða slíkra andstæðna? Hvers konar vitnisburður lýsir af okkur?
Þeir sem hlusta eða lesa um hinn upprunalega hvítasunnuatburð, gerast um leið þátttakendur í hópi þeirra. Þeir höfðu safnast saman eftir páskana, þegar Jesús var krossfestur og eftir að þeir höfðu orðið vitni að upprisu hans. Hann hafði áður kvatt þá hlýjum orðum, hópinn sinn, og sagt: „Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig því ég lifi og þér munuð lifa.“ (Jóh. 14:19). „Ég mun gefa yður annan hjálpara, sem verður hjá yður að eilífu, anda sannleikans.“ Já, það vill stundum gleymast í ryki samtímans, hraða og fyrirgangi, sérvisku og sérhyggju, að atburðir Hvítasunnunnar, kraftbirting anda Guðs, er söguleg staðreynd, sem lærisveinarnir, bæði karlar og konur, vitna um í einlægni og tryggð, af því að þeir fylltust löngun og þreki til þess að gera það. Þeir áttu val, en þeir ákvaðu að tala, bera vitni, taka sér það til fyrirmyndar, sem þeir höfðu séð og heyrt, þar sem það illa snerist til góðs fyrir augum þeirra. Vitnisburður þeirra byggist eingöngu á því, sem þeir sáu og heyrðu og fundu á sjálfum sér í því sem Jesús hafði sagt þeim. Hann undirbýr þá fyrir þetta sterka afl og segir: „Ég sendi ykkur anda minn sem faðir minn hét ykkur, en verið kyrr í borginni...uns þér íklæðist krafti af hæðum“. (Lúk. 24:49)
Margir óttast að nefna Guð á nafn í daglegu lífi og halda að þeir fyrirgeri rétti sínum til frjálsrar hugsunar með því hlusta eftir orðum hans og treysta á þau sem sannleika. Efi af því tagi er langoftast mjög heiðarlegur og á sér þann grunntón að leita sannleika og réttlætis. Meiri ástæða er til að óttast þá sem nota Guðs orð sjálfum sér til framdráttar og til þess að bera á aðra bönd og höft af einhverju tagi, - og ná þannig valdi yfir annarri manneskju með tilgerðarlegri ásýnd sinni eða jafnvel grimmdarlegri framkomu. Það eru falsspámenn. Þess vegna er þessi tilvera hugsunarinnar, - efi, trúartraust og vitnisburður, aldrei auðvelt viðfangsefni. Það er í rauninni svo erfitt að sérhvert samfélag verður að gera það upp við sig hver sé þungamiðja siðalögmálsins, sem hafa ber í heiðri, og hvert viðmiðið sé við ákvörðun þess. Þess vegna er stjórnarskrá landsins t.d. svo mikilvæg. Hvert orð sem hún inniheldur verður að hvíla á grundvelli, sem hefur staðist ítrustu umræðu um frelsi, réttlæti og kærleika.
Fullorðinni, þroskaðri, manneskju er það ekki endilega auðveld ákvörðun að tileinka sér frásögnina af Jesú, ævi hans og orð. Það gefur auga leið, að lærisveinarnir áttu í sömu baráttu. Trúargleði, ótti og vonbrigði toguðust á. Aldrei meir en eftir páskaatburðinn. Spurningar hrönnuðust upp, svörin voru hikandi. Þeir urðu að láta tíma, heiðarleika og samhug vinna saman. Þeir létu hjartað tala sínum rómi, sameinuðust í því sem hafði hrifið þá, gert þá hugfangna og gefið þeim nýja von og tilgang í lífinu og nýja sýn frammi fyrir dauðanum.
Trú á Guð verður ekki keypt, ekki frekar en traust manna í millum. Sé orðið trúarbarátta notað hér, má minna á að slík barátta vekur auðveldlega upp kvíða. Kvíði er ávöxtur óvissunnar, rétt eins og þegar við missum trú á okkar eigin tilveru og persónu. Ekkert fer ver með eina manneskju, en sú ánauð að hrærast í kvíða og angist. Það gerist þegar við sjáum ekki tilganginn í morgundeginum eða voninni í því sem við lifum hverju sinni. Þess vegna er það tekið föstum tökum í geðlæknisfræði og sálfræði, þegar kvíðinn nagar, og dregur úr mætti og möguleikum einstaklingsins. Í trú á góðan Guð, ræktun trúarinnar og bæn, eflist hugur og hjarta, og tilfinningin fyrir því að vera og geta orðið sterkari. Um leið þroskast með okkur vitundin um það hvað sé gott og hvað sé ekki gott, hvað séu góð verk og hvað séu vond verk. Í þessa vitund og von héldu lærisveinarnir. Fyrirheitin sem Jesús gaf þeim og bænin í nafni hans hélt þeim staðföstum og vongóðum.
Vitnisburður sérhvers manns er tjáning hans á því hver hann er og fyrir hvað hann vill standa. Það sem við segjum og það sem við gerum er vitnisburður um það sem við setjum okkur sjálfum að leiðarljósi. Því miður getur eitt slíkt ljós orðið villuljós. Hin stórkostlega tækni í samskiptum í veröld ljósleiðara og netheima á t.d. sínar slæmu hliðar, sem við höfum enn ekki ráðið bót á. Mest áberandi í þeim almennu samskiptum er svokölluð hatursumræða og alls kyns illmælgi sem þar er viðhöfð. Það er vitnisburður um framkomu, sem fæstir vilja standa við augliti til auglitis. Þá er spurningin hvernig við finnum grunngildi, sem ná að sannfæra þá, sem eru villuráfandi í þessum efnum, um það hvað sé betra og auki á vellíðan þeirra frekar en reiði og hatur. Jesús sagði: „Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín... Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau er sá sem elskar mig. En þann sem elskar mig mun faðir minn elska og ég mun elska hann og birta honum hver ég er.“
Hver einstaklingur er óendanlega mikilvægur. Sérhvert barn sem Guð gefur er mynd gleði, framtíðar og vonar. Ekkert er eins mikilvægt fyrir samfélag manna, en finna grunn að samstarfi, sanngirni, velvild og hvatningu. Andlegar fræðigreinar eins og heimspeki og guðfræði eru þar rannsóknarleiðir sem ekki má vanrækja. Ekki er öðrum greinum mismunað með þeim orðum.
Þegar Jesús býr lærisveina sína undir framtíðina segir hann: „26Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig. 27Þér skuluð einnig vitni bera...“
Andi Guðs birtir mátt Guðs í lífi mannsins.. Í þeim anda er fólginn ávaxtaríkasti kraftur kærleika og mannskilnings. Þetta hreyfiafl er frá Guði komið og í vitnisburðinum njótum við þess. Best að drífa sig. Hver veit nema við komumst á fjall!