Ljóð útfrá þrjátíu fegurstu orðum íslenskrar tungu

Ljóð útfrá þrjátíu fegurstu orðum íslenskrar tungu

Jæja, hvað get ég sagt? Einstök hughrif. Að horfa hugfanginn á ljósmóðurina, vinna af einurð við hlusta hjartað í þessari agnarögn sem er svo velkomin í þessa veröld.
fullname - andlitsmynd Guðni Már Harðarson
11. nóvember 2013

Faðir í fyrsta sinn

Jæja, hvað get ég sagt? Einstök hughrif. Að horfa hugfanginn á ljósmóðurina, vinna af einurð við hlusta hjartað í þessari agnarögn sem er svo velkomin í þessa veröld.

Vitandi að núna, er konan sem ég elska orðin mamma Hvílíkur harðjaxl. En sú seigla!

Það er fiðringur innra með mér og þakklæti, en jafnframt kvíði og kraðak. Því þetta litla líf með spékoppana sína og sindrandi blik í auga, fæddist í svo undurfagra, en brotna veröld.

Hvítvoðungurinn minn grunlausi, á eftir að upplifa svo margt, að elska, sakna og sitja hljóður. Kynnast skúmaskotum mannlegrar tilveru, en vonandi jafnframt, greina bergmál trúarinnar.

Ég bið þess af hjarta að honum auðnist, að standa vonarmegin í lífinu. Vera kotroskinn í gluggaveðri, með sjónauka þó engan veginn sé ratljóst.

Að hann finni sig ekki, utanveltu eins og ugla hlaupandi um á bárujárni. Guð minn, sama hverju litla lífið mætir, þá vona ég, að hann njóti blessunar og öðlist víðsýni, með ívafi auðmýktar. Visku þess sem horfir í brestina, iðrast og er tilbúinn að segja: ,,Fyrirgefðu."