Laugardaginn 29. október verður haldin í Reykjavík ráðstefnan “Vatn fyrir alla”. Að henni standa ýmis samtök sem vilja taka höndum saman og vekja athygli á mikilvægi vatns í margskonar samhengi. Helstu áherslupunktarnir þennan dag lúta að mannréttindum og óskoruðum réttindum allra til aðgengis að hreinu og óspilltu vatni. Sá aðgangur á ætíð að stjórnast af almannahagsmunum en ekki fyrst og fremst gróðasjónarmiðum og lögmálum markaðarins.
Þjóðkirkjan er meðal þeirra sem stendur að umræðunni að þessu sinni. Það gerir hún á þeim forsendum að kirkjan er ætíð kölluð til að játa trú sína í verki og stuðla með lífi sínu og starfi að fólksvænu og náttúruvænu umhverfi. Köllun kirkjunnar er á hverjum tíma að miðla gildum og verðmætamati sem stjórnast af virðingu fyrir manneskjunni og sköpunarverkinu öllu. Þess vegna vill hún beita sér í hjálparstarfi og vitundarvakningu um dýrmæti mannlífsins.
Vatn með orðfæri trúarinnar
Þegar rætt er um vatn er meira í húfi en hagnýtar útfærslur. Umhverfið sem við sköpum og leikreglurnar sem við setjum í kringum vatn snerta grundvallarskilning okkar á því hvers virði manneskjan er. Trúararfur kristinnar kirkju er auðugur af myndmáli sem tengist vatni á einhvern hátt og þar situr sömuleiðis mikil reynsla og djúp viska þegar kemur að umgengni okkar við umhverfið og hvort annað. Mig langar í þessari stuttu grein að draga fram nokkur biblíuleg þemu um vatn og skoða í því samhengi hvernig orðfæri trúarinnar getur auðgað samræðuna sem við eigum í dag um mannréttindi og mikilvægi vatns.
Guð og vatn
Fyrstu versin í Biblíunni greina frá því þegar Guð skapar himinn og jörð (1. Mós 1). Ástandinu sem ríkir áður en Guð byrjar að skapa er lýst þannig að jörðin var auð og tóm, og andi Guðs sveif yfir vötnunum. Áður en nokkuð annað verður til, ljósið, landið, gróðurinn, dýrin og manneskjan, er vatnið til. Vatnið var með Guði í upphafi sköpunarinnar. Þessi sérstaða vatns í kristinni heimsmynd kemur vel fram í því að kirkjan talar um Guð með vatnsmyndum. Guð er uppspretta hins lifandi vatns og hinn trúaði þráir samvistina með Guði eins og hindin þráir vatnslindir (Sálm 42.2). Umhyggja Guðs gagnvart manneskjunni er sömuleiðis tjáð með vatnsveituorðfæri þegar spámaðurinn Jesaja segir fyrir hönd Drottins: “Ég leiði vatn um eyðimörkina og ár um öræfn til þess að svala lýð mínum, mínum útvalda” (Jes 43.20).
Trúin og vatnið
Biblían er sömuleiðis gríðarauðug af vatnsmáli þegar kemur að trúarlífinu. Vatn kemur iðulega við sögu í sambandi hinnar trúuðu manneskju og Guðs. Vatnið gegnir stóru hlutverki í hjálpræðissögu Ísraels og einnig í lífi hinnar kristnu kirkju. Jesús frá Nasaret notaði vatn til að útskýra erindi sitt við manneskjuna: “Ef nokkurn þyrstir, þá komi hann til mín og drekki” (Jóh 7.37). Og það sem einkennir þau sem trúa á Jesú er að frá hjarta þeirra renna lækir lifandi vatns. Það er einnig áhugavert í þessu sambandi að vatnið gegnir langt því frá einungis táknrænu hlutverki. Vatn verður raunverulegur farvegur fyrir náð Guðs í lífi hins trúaða í skírninni. Í þessu sakramenti kirkjunnar leikur vatnið aðalhlutverkið, við hlið heilags anda sem kirkjunni var lofað fyrir orð Drottins síns.
Siðfræði vatnsins Í Biblíunni er vatn táknmynd réttlætis fyrir alla og umgengni við vatn er mælistika á siðferði manneskjunnar. Að synja þyrstum um vatn er synd (Job 22.7). Og spámaðurinn Esekíel þrumar yfir þeim sem spilla vatni svo að aðrir geta ekki notið þess: “Nægir yður ekki að drekka tæra vatnið, nema þér gruggið upp það, sem eftir er, með fótum yðar? Og svo verða sauðir mínir að bíta það, sem þér hafið troðið með fótum yðar, og drekka það, sem þér hafið gruggað upp með fótum yðar” (Esk 34.18-19).
Vonska og spilling manneskjunnar kemur líka með sérstökum hætti fram í ranglæti í vatnsumgengni. Þetta á bæði við um trúarlífið og framkomu við aðra. Jeremía spámaður, sem var samviska þjóðar sinnar á erfiðum tímum, lýsir hinu siðferðilega ástandi svo: “Því að tvennt illt hefir þjóð mín aðhafst: Þeir hafa yfirgefið mig, uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni” (Jer 2.13). Og hin endanlega svívirða þess sem valdið hefur, er að krefja fólk um borgun fyrir aðgang að vatni: “Vatnið sem vér drekkum, verðum vér að borga” (Hl 5.4).
Á sama hátt er hið góða og réttláta ástand tjáð með gnægð vatns. Hin réttláta manneskja er vatnsveita sem lætur “réttinn vella fram sem vatn og réttlætið sem sírennandi læk” (Am 5.24). Sömuleiðis stendur náð Guðs opin hverjum þeim sem vill: “Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn” (Op 22.17).
Vatnið sem Guðs gjöf
Kirkjan stendur föstum fótum í grundvallarskilningi sínum á því að vatnið sem grunnefni lífs og Guðs gjöf til allra, eigi aldrei að lúta markaðslögmálum eða gróðasjónarmiðum sem koma niður á almannahagsmunum. Hún leitar í sína eigin hefð að myndmáli og áherslum sem undirstrika samábyrgð okkar gagnvart hvert öðru og umhverfinu sem við tilheyrum. Þannig eru áþreifanleg vatnsmál tjáð með hugtökum guðfræðinnar og orðfæri trúarinnar.
Við erum minnt á að takmörkuð auðlind skapar þörf fyrir að deila því sem við höfum með þeim sem ekki hafa. Kirkja Krists er einn líkami sem nærist af sama vatni í sama andlega og efnislega vistkerfinu. Vatnið sem Guðs gjöf kallar sömuleiðis á ábyrgð manneskjunnar að umgangast það með virðingu og skynsemi. Mannréttindi og vatnsvernd eru þess vegna forgangsatriði í því umhverfi sem við viljum skapa í kringum vatn, á Íslandi og heiminum öllum.