Þegar við heyrum orðið kirkja og heyrum talað um kirkjustarf sjáum við sjálfsagt flest fyrir okkur kirkjuhúsin sem standa um landið okkar vítt og breytt, kirkjuhúsið í hverfinu okkar, kirkjuhúsið í plássinu okkar, kirkjuhúsið í sveitinni, kirkjuhúsið í hinum mörgu sóknum landsins, stórum sem smáum. Og þegar við tölum um eða heyrum talað um kirkjustarf, kemur sjálfsagt fyrst upp í huga okkar margra kirkjustarfið sem bundið er þessum sömu kirkjuhúsum eða sóknum. Okkur dettur sjálfsagt í hug barnastarf, öldrunarstarf, guðsþjónustuhald, allt þetta sýnilega starf sem fram fer í lang flestum kirkjum landsins. Þá sjá sjálfsagt flest okkar líka fyrir sér hinar ýmsu athafnir sem tengjast mikilvægum tímamótum í lífi okkar, tímamótum sem snerta fæðingu lítils barns, tímamótum unglingsáranna, fullorðinsáranna, tímamótum þegar við kveðjum ástvini okkar. Þá vitum við flest, a.m.k. þegar við hugsum okkur aðeins um, að í kirkjusóknum landsins fer líka fram starf sem ekki er eins sýnilegt og það sem nefnt er hér að ofan, svo sem sálgæsluviðtöl af ýmsum toga, hjálparstarf o.fl. Í lögum þjóðkirkjunnar er kirkjusóknin skilgreind sem grunneining kirkjunnar. Það er hún vissulega og sóknirnar á Íslandi mynda net um landið okkar, þjónustunet kirkjunnar sem býður landsmönnum öllum þeim sem það vilja þjónustu sína og fylgd í gegnum lífið.
Starf kirkjunnar er þó ekki eingöngu bundið kirkjusókninni sem slíkri. Þjóðfélagið okkar er margháttað og margslungið og þjóðkirkjan hefur leitast við að endurspegla og mæta þeirri þjóðfélagsmynd. Það hefur kirkjan gert með því starfi sem gjarnan er kennt við "sérþjónustu kirkjunnar"; alveg eins og systurkirkjur hennar í t.d. Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Í gegnum sérþjónustu kirkjunnar og þau prestsembætti sem henni tilheyra hefur þjóðkirkjan árum saman innt af hendi mikilvæga þjónustu við t.d. fanga, heyrnarlausa, fatlaða, innflytjendur, sjúka auk þjónustu við Íslendinga sem búsettir eru erlendis. Um nokkurra ára skeið féll einnig undir sérþjónustu kirkjunnar mikilvæg aðstoð hennar við vímuefnaneytendur. Er það miður að á því starfi hefur orðið mikil skerðing í kjölfar þess að embætti vímuvarnarprests var lagt niður á síðasta ári. Auk þeirrar sérþjónustu sem þjóðkirkjan á beina aðild að, hafa ýmsar stofnanir, t.d. stóru sjúkrahúsin norðan og sunnan heiða auk öldrunarheimila á höfuðborgarsvæðinu ráðið til sín presta og djákna til þess að sinna m.a. sálgæslu við skjólstæðinga sína. Prestar og djákni Landspítala Háskólasjúkrahúss sinna þar t.d. fjölbreyttri þjónustu í þverfaglegu samstarfi við annað starfsfólk spítalans. Ber þar hæst sálgæslu við sjúklinga og aðstandendur þeirra sem þar dvelja um lengri eða skemmri tíma. Einnig sinna sjúkrahúsprestar og djákni starfsfólki spítalans, m.a. með reglubundinni handleiðslu auk úrvinnslu og sálgæslu í kjölfar erfiðra aðstæðna í starfi. Þá má nefna helgihald, fræðslu, ýmiss konar hópastarf, t.d. á geðdeildum spítalans, fyrir syrgjendur, aðstandendur o.fl..
Allt það starf sem unnið er á vegum sérþjónustu kirkjunnar, hvort heldur sú þjónusta er fjármögnuð af kirkjunni sjálfri eða viðkomandi stofnunum, byggir á góðri menntun og faglegum grunni auk mikillar reynslu og sérhæfingar þeirra sem á vegum hennar starfa. Þá eiga sérþjónustuprestar og djáknar oft og iðulega gott og gefandi samstarf við presta og djákna í söfnuðum landsins, enda skjólstæðingar sérþjónustunnar frá landinu öllu. Sérþjónusta kirkjunnar starfar því þvert á sóknir landsins. Hún þjónar landinu öllu. Vissulega er sóknin grunneining kirkjunnar. Vissulega er það starf sem fram fer á safnaðargrunni óendanlega dýrmætt. En sóknin er ekki almáttug. Hún mun aldrei ná til allra þeirra fjölmörgu sem kirkjan vill og á að ná til samkvæmt köllun sinni. Stöndum því vörð um sérþjónustu kirkjunnar á þeim erfiðu tímum sem nú standa yfir. Gleymum ekki skjólstæðingum hennar og aðstandendum þeirra.