Þrátt fyrir fréttir af náttúruhamförum í Japan og önnur vátíðindi í heiminum, þar sem við biðjum góðan Guð að blessa og varðveita, sest ég samt niður hér við tölvu norðan heiða á meðan snjóstormur lemur rúður og velti upp, að því er virðist, smávægilegu máli í samanburði við heimsfréttirnar stóru. Vonarríkur minnist ég um leið orða Krists: “Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig.” Vangaveltur landabyggðarklerks snerta íslenskan ungdóm og skipulag á tilboðum, sem hann gjarnan þiggur með þökkum.
Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar var haldinn hátíðlegur í kirkjum landsins 6. mars síðastliðinn. Dagurinn sá hefur um alllangt skeið borið upp á fyrsta sunnudag í mars. Samband íslenskra félagsmiðstöðva (Samfés) hélt sitt árlega ball og söngvakeppni 4.-5. mars, það er hátíð fyrir öll ungmenni á landinu.
Nú skal það tekið skýrt fram að bæði kirkjan og Samfés bera hag unglinga fyrir brjósti og vilja veg þeirra sem mestan og bestan. Öll eigum við að vinna að því. Hins vegar velti ég því fyrir mér eftir síðasta æskulýðsdag og Samféshelgi hvort stofnanir og aðilar sem gera unglingum góð og göfgandi tilboð ættu ekki að tala meira saman. Hvað á ég við með því? Jú, það hefur ef til vill gleymst að ungmenni á landsbyggðinni vilja eðlilega sækja þennan viðburð hjá Samfés og þar sem það er um talsvert langan veg að fara þá vitanlega dvelja þau yfir helgi eða nota í það minnsta sunnudaginn til þess að ferðast aftur heim.
Það var gaman að fylgjast með tilhlökkun í andlitum unga fólksins hér í Laufásprestakalli þegar þau voru að undirbúa helgarferð til Reykjavíkur og enginn varð eftir heima nema ef svo óheppilega vildi til að veikindi hindruðu för.
Ég gladdist með þeim en ég vissi líka af fjarveru þeirra við æskulýðsguðsþjónustu á sunnudeginum og það þótti mér miður. Og þá spurði ég mig þeirrar spurningar hvort þetta þyrfti að vera svona. Í gamla daga þegar ég þjónaði t.a.m. sem æskulýðsfulltrúi í Dómkirkjunni, þá var það eitt af stóru skipulagsatriðunum í upphafi vetrar að ganga til fundar við fulltrúa félagsmiðstövðarinnar í Vesturbænum til þess að fyrirbyggja að viðburðir rækjust ekki á um veturinn. Við ætluðum ekki að standa í neinni samkeppni um ungmennin enda líka fásinna að skapa slíkt andrúmsloft. Við erum að tala um samvinnu en ekki samkeppni.
Með þessu pistilkorni að norðan hef ég nú reynt að benda á þann óþarfa að láta tvo stóra viðburði handa unglingum bera upp á sömu helgi, en þar verðum við jafnframt að hugsa um landið í heild. Vinnum saman og Guð blessi æskulýðinn sem og allt er í þessari veröld dvelur í gleði jafnt sem raun.