Gleði í ást og aga

Gleði í ást og aga

Hvernig getur það verið gleðiefni að rata í ýmiss konar raunir? Hverjum dettur í hug að agi geti verið gleðiefni? Jú, Biblían og mannleg reynsla eru sammála um það. Demantar verða til undir miklu álagi. Skapgerð mannsins mótast við þrengingar. Agi gefur barni kleift að ná tökum á sjálfu sér og umhverfi sínu, ver það gegn hinu mannskemmandi markaleysi.

Þessar vikur lifum við gleðidaga hinnar kristnu fjölskyldu. Gleðidaga, vegna upprisu Drottins - gleðidaga, vegna náðar Guðs - gleðidaga, vegna þess lífs sem við megum deila með Jesú Kristi fyrir anda hans.

Biblíutextar dagsins – sem á latínu ber nafnið Jubilate!, Gleðjumst! – undirstrika gleðina. Lexían, Davíðssálmur 126, líkir gleðinni við draum, munnurinn fyllist hlátri, tungan fögnuði. Eins og lækirnir í Suðurlandinu skoppum við af kæti yfir Guði sem snýr hag okkar við. Þjáningin er tímabundin – þrengingin skammvinn - uppskera erfiðisins er gleðin, eilíf dýrð “sem stórum yfirgnæfir allt”. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni (Sl 30.6).

Pistillinn, 2. Korintubréf 4. kafli, segir okkur nánar um á hvern hátt Guð snúi hag okkar við. Hann gerir það í upprisu Jesú, krafti andans sem við þiggjum inn í daglegt amstur. Guð leiðir okkur fram ásamt Jesú. Er það ekki stórkostlegt?

Og í guðspjallinu, Jóhannes 14. kafli, er að finna hin mögnuðu orð Jesú þar sem hann lýsir sjálfum sér svo: “Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið”, segir hann. Það er ekki lítið. Vegurinn, sannleikurinn og lífið. Þessi er uppspretta gleði okkar. Þurfum við nokkurs framar við?

Agi er gleðiefni Nú er það ekki þannig að allir atburðir lífsins eigi samhljóm við gleðina sem einkennir hið kristna líf. En þá koma upp í hugann orð úr Hebreabréfinu og Jakobsbréfinu:

Í bili virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni, heldur hryggðar, en eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis (Heb 12.11).

Álítið það, bræður mínir og systur, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir (Jk 1.2).

Hvernig getur það verið gleðiefni að rata í ýmiss konar raunir? Hverjum dettur í hug að agi geti verið gleðiefni? Jú, Biblían og mannleg reynsla eru sammála um það. Demantar verða til undir miklu álagi. Skapgerð mannsins mótast við þrengingar. Agi gefur barni kleift að ná tökum á sjálfu sér og umhverfi sínu, ver það gegn hinu mannskemmandi markaleysi.

Staðfesta í raunum vekur þolgæði. Agi gefur ávöxt friðar og réttlætis. Getum við litið svo á að erfiðleikar lífsins séu til þess fallnir að aga okkur og styrkja trúargrundvöllinn? Þannig séu þeir ekki hryggðarefni, heldur tilefni gleði, sem veitt geti frið og réttlæti.

Að vera salt, ekki spegill Á nýliðinni prestastefnu á Húsavík komu fram ólíkar skoðanir í viðkvæmu máli. Nú er það svo að hin kristna fjölskylda verður seint sammála um allt, ekki frekar en fjölskyldur almennt, hversu samlyndar sem þær eru. Í mínum huga er þó mikilvægt að við sem tilheyrum Þjóðkirkju Íslands getum verið samstíga hinni stóru kirkjufjölskyldu heimsins. Okkar skylda er fyrst og fremst við orð Guðs og samhengi hefðarinnar, ekki samtímann með þeim ólíku áherslum sem hann býður. Við eigum að vera salt, ekki spegill, þjóðfélagsins.

Mér fannst mikilvægt að fylgja biskupnum mínum, herra Karli Sigurbjörnssyni, í umræddu máli. Ég treysti hans dómgreind og visku til að gera það sem rétt er fyrir Þjóðkirkjuna sem heild.

Það sem stendur eftir er hins vegar hvernig fjölmiðlar hafa farið offari í þessu máli. Það er auðvitað hryggilegt en ætti að skerpa okkur öll til góðra verka, minna okkur á að nota dýrmætan tímann til að boða það sem máli skiptir, ást Guðs og aga og hin eilífu verðmæti. Alvara lífsins Orð Jesú í guðspjalli dagsins eru alvöruorð og minna okkur á að uppsprettu gleði okkar, lífið í Kristi, ber að taka alvarlega:

Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig (Jh 14.6).

Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig, segir Jesús. Það er enginn annar vegur til Guðs, enginn annar sannleikur, ekkert annað líf, nema í Jesú Kristi. Jesús talar sannleiksorð Guðs, og ekki aðeins það - hann er sjálft Orð Guðs, ástar- og áminningarorð Föðurins til barna sinna. Þannig vísar hann ekki bara veginn til Guðs, heldur er sjálfur vegurinn, hann leggur líf sitt fram sem braut, brú yfir gjá syndarinnar, þeirrar sundrungar sem manneskjan býr til með því að hafna vináttu Guðs í lífsafstöðu sinni og lifnaði. Og það getur hann gert þar sem hann ber fram líf Guðs, sjálfan frumkraftinn, sköpunarmáttinn, sem okkur stendur til boða að nærast af.

Ég vitnaði í Hebreabréfið áðan, 12. kaflann þar sem fjallað er um agann. Í 7. versinu segir: Þolið aga. Guð fer með yður eins og syni. Hver er sá sonur, sem faðrinn ekki agar?

Guð fer með okkur eins og börnin sín. Við erum synir og dætur Guðs. Er það ekki dásamlegt? Er það ekki gleðiefni?

Við munum flest bernskuna og finnum daglega þau áhrif sem uppeldisaðferðir foreldra okkar hafa á líf okkar. Aginn er eins og við vitum stór hluti heilbrigðs uppeldis. Án aga finnur barnið til öryggisleysis. Það elst upp við markaleysi og lærir seint þann sjálfsaga, sem nauðsynlegur er farsælu og gleðiríku lífi.

Að reynast traustsins verð Við tölum allt of lítið um aga. Agaleysi ber oft á góma, gjarnan í tengslum við skólastarf og lifnað ungmenna. En við megum til með að læra að nota hugtakið agi á þann jákvæða og sterka hátt sem það sannarlega býður upp á. Agi er annað og meira en hirting og skammir. Agi er að setja mörk, kenna að gera ekki bara hvað sem hverjum og einum kann að detta í hug, heldur staldra við og kanna kosti og galla tiltekinnar hegðunar. Agi vinnur gegn hvatvísi, tillitsleysi, trúnaðarrofi. Agi – samfara ástúð, mikilli ástúð og umhyggju – er okkur öllum lífsnauðsyn daglega.

Þegar við vorum að ræða saman, messuhópurinn sem hér þjónar í dag með okkur sr. Jóni, gaf ein úr hópnum okkur eftirminnilega lýsingu á þeim aga sem faðir hennar ól hana upp með. Hún sagði okkur m.a. frá því að þegar hann ók henni á skólaböllin á unglingsárunum hélt hann engar langar ræður um það sem bæri að varast. Hann sagði einfaldlega við hana: “Þú veist að ég treysti þér, heillin mín”. Og í þessu trausti fór hún á skemmtunina – og reyndist traustsins verð. Guð treystir okkur fyrir lífi sínu. Hann breiðir út líf sitt sem veg, leggur það að fótum okkar, og leiðsögnin er gefin í sannleiksorði Guðs. Okkur verða á mistök. Við erum ekki alltaf traustsins verð. Mistökin okkar kalla yfir okkur ýmis konar þjáningu. Mistök annarra einnig. Rétt breytni getur líka orsakað þrengingar ef hún er ekki í samræmi við almenningsálitið. En þau sem sá með tárum, munu uppskera með gleðisöng (Sl 126.5).

Látum ekki hugfallast. Höldum áfram að stunda frið við alla menn – og helgun, því að án hennar fær enginn Drottin litið (Hb 12.14). Þiggjum af Guði bæði ástúðina og agann og gætum hvert að öðru. Við erum e.t.v. ekki sammála um hvernig við best fáum hlúð að meðbræðrum okkar og systrum, hvað er rétt og hvað er rangt, en munum að markmiðið er að fá hlutdeild í heilagleika Guðs (Heb 12.10), ná vaxtartakmarki Krists fyllingar (Ef 4.13).

Og ég segi með postulanum (Fl 2.1-2):

Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs, þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.