Helgi mannlegs lífs

Helgi mannlegs lífs

Þekktu sjálfan þig. Enginn gerþekkir sjálfan sig. En því betur sem við þekkjum sjálf okkur, því betur vitum við hversu lítið við vitum og skiljum, vitum hversu skammt okkar eigin geta nær, hversu mikið okkur er áfátt. Hversu mikið við þurfum að leggja á okkur til að vaxa og um leið hversu mikið við þörfnumst Guðs og náðar hans til að geta vaxið. Það að þekkja sjálfan sig er að vita, að við þörfnumst handleiðslu Guðs.
fullname - andlitsmynd Valdimar Hreiðarsson
31. desember 2006
Flokkar

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni, Jesú Kristi. Amen.

Innan skamms kveður árið 2006, og við hlutverki þess tekur nýtt ár, árið 2007.

Það er eins og hvert ár verði hluti af lífi okkar, eins og að það eignist sína eiginleiga og sinn eiginn persónuleika.

Og nú á síðasta degi ársins lítum við til baka og virðum fyrir okkur liðið ár. Við kveðjum tryggan ferðafélaga. Við tölum um árið sem er að líða, hvernig það hafi nú verið, gott eða slæmt hvað ýmsa þætti varðar, þó að í raun og veru séum við að tala um líf okkar og samferðamanna á ákveðnu tímaskeiði.

Árið 2006 var viðburðarríkt ár, eins og árum er eiginlegt. Eflaust munum við minnast þess fyrir mismunandi hluti. Því hvert og eitt okkar eigum okkar eigið ár, árið 2006, og næsta víst að þau séu ólík þessi ár, þó að þau beri öll sama talnaheitið.

Í gær barst sú frétt út um heimsbyggðina, að Saddam Hussein hefði verið tekinn af lífi. Mörgum hnykkti við þessari frétt sem barst okkur inn í hátíð jólanna.

"Svo skal böl bæta að bíði annað meira", segir forn málsháttur. Við vitum að þessi maður var ekki neins góðs maklegur og hefur á samviskunni marga ljóta glæpi.

En hver er bættari með því að svipta mann lífi með villimannlegum hætti? Og er til nokkur annar háttur en villimannlegur þegar einstaklingur er sviptur því lífi er honum var af Guði gefið?

Málið er ekki einkamál stjórnvalda í Írak. Það snertir okkur öll meðal annars vegna þess að málið er sett fram eins og verið sé að taka Saddam Hussein af lífi í nafni alls mannkyns, líka í nafni okkar Íslendinga. Því sakargift hans samkvæmt dómsúrskurði er glæpur gegn mannkyni.

Þó er það svo, eins og við vitum, að Ísland, eins og ríki Evrópusambandsins leyfir ekki dauða­refs­ing­u og framselur ekki sakamann til annars lands ef líkur eru á að hann verði tekinn af lífi í því landi sem krefst framsals.

Þess vegna kemur það óneitanlega á óvart að bresk stjórnvöld, sem afnámu dauðarefsingu formlega árið 1999, gáfu í gær út yfirlýsingu þar sem þau fögnuðu því að að Saddam Hussein hefði verið látin gjalda fyrir glæpi sína gegn írösku þjóðinni.

Þar að auki hafa mannréttindasamtök bent á að málareksturinn gegn Saddam Hussein sé meingallaður.

"Þér skuluð ekki mann deyða". Þannig hljóðar fimmta boðorðið. Bak við þetta boðorð er sá sannleikur, að mannlegt líf sé heilagt, helgað þeim Guði sem það skapaði og ekki á valdi manna að svipta menn því.

Fórnardauði Krists á krossinum skerpir þetta boð, því að með honum var mannlegt líf gætt nýrri helgi, því var gefin ný vídd, vídd endurlausnar og frels­unar og eilífs lífs.

Og þetta boðorð, "þú skalt ekki mann deyða", það nær lengra. Það meinar okkur að svipta aðra öllu því, sem gæðir líf þeirra innihaldi og gæðum.

Allir þeir sem ganga á rétt annara, svipta þá lífshamingju eða lífsgæðum, þeir eru að brjóta gegn fimmta boðorðinu. Í því felst róttæk krafa um virðingu, mannhelgi og mannréttindi. Og þeir sem gegn því bjrjóta, þeir eru að svipta sjálfan sig þeirri virðingu og helgi sem Guð hefur gætt manninn.

Í guðspjalli gamlársdags er sagt frá fíkjutrénu, sem ekki bar ávöxt. Því var gefið eitt ár til viðbótar og hafi það ekki borið ávöxt að því ári liðnu skuli það fellt.

Öll munum við þurfa að svara fyrir gerðir okkar frammi fyrir dómstóli Guðs. Með einhverjum hætti. Við munum verða spurð, hvern ávöxt við höfum borið í okkar lífi.

Að sjálfsögðu er það svo. Því annars væri réttlæti Guðs ekki réttlæti, heldur skrumskæling af réttlætinu.

En við eigum í Guði náðugan og miskunn­ar­ríkan Guð, sem er reiðubúinn að fyrirgefa syndir, reiðubúinn að taka okkur í sátt. Ef við iðrumst. Ef við viðurkennum vanmátt okkar og ófullkomleika.

Ef við viður­kennum, að við erum ekki guðir, heldur menn, að okkur er ekki falið guðlegt vald, að okkur hefur ekki verið falið að dæma aðra og síst um líf þeirra eða dauða.

Einu sinni fyrir óralöngu var sagt: "Þekktu sjálfan þig". Þetta eru sannindi enn í dag. Og ef við komum ekki auga á vanmátt okkar og ófullkom­leika, ef við sjáum aðeins hversu frábær við erum og fullkomin, réttsýn og umburðarlynd, þá þekkjum við ekki sjálf okkur.

Því allir hafa syndgað. Enginn hefur Guðs dýrð. Ef til vill er mesta syndin, mesta tjónið sem við völdum sjálfum okkur það, að koma ekki auga á eigin ófullkomleika og vanmátt.

Þekktu sjálfan þig. Enginn gerþekkir sjálfan sig. En því betur sem við þekkjum sjálf okkur, því betur vitum við hversu lítið við vitum og skiljum, vitum hversu skammt okkar eigin geta nær, hversu mikið okkur er áfátt. Hversu mikið við þurfum að leggja á okkur til að vaxa og um leið hversu mikið við þörfnumst Guðs og náðar hans til að geta vaxið. Það að þekkja sjálfan sig er að vita, að við þörfnumst handleiðslu Guðs.

Nú hillir undir nýtt ár. Einn áfangi í för okkar gegnum lífið er að baki og nýr framundan. Ef til vill söknum við gamla ársins því að það, tímar þess og tíðir, var orðið okkur kunnugt. Nýja árið færir okkur hið óþekkta, og okkur er gjarnt að óttast það sem við þekkjum ekki.

En þó að margt sé okkur hulið, þó að við þekkjum ekki það sem framundan er, þá erum við þekkt. Við erum gjörþekkt af honum, sem okkur skapaði, helgaði og frelsaði.

Þess vegna getum við óhrædd gengið fram, á vit hins óþekkta, á vit óræðrar framtíðar og falið honum alla okkar vegi. Hann mun vel fyrir sjá.

Hönd hans leiðir okkur, aðeins ef við réttum hana út, út í myrkrið. Og þar er hún, höndin hans, reiðubúin að leiða okkur áfram, jafnt í gegnum dimman dal sem sólbjartan sumardag.

Við þökkum algóðum Guði liðið ár og allt það það færði okkur. Við biðjum Drottinn um að við megum læra af atburðum ársins sem er að kveðja og að þeir verði okkur til gæfu, jafnt þeir sem góðir voru sem og þeir sem reyndust okkur þungir í skauti.

Við biðjum hann um leiða okkur til móts við komandi ár, á vit ókunnrar framtíðar. Við biðjum hann að blessa okkur og gefa okkur meiri þekkingu á okkur sjálfum, aukna visku og meiri kærleika á komandi ári, að komandi tímar verði áfangar á leiðinni til hans.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verða mun um aldir alda. Amen.