Mömmur og bænir

Mömmur og bænir

Á mæðradeginum blessum við mæður okkar, bæði þær sem við höfum hjá okkur og líka þær sem farnar eru heim til Guðs. Við þökkum Guði fyrir þær og allt það sem þær hafa lagt á sig okkar vegna. Og við biðjum fyrir mæðrum sem eiga bráðum von á barni, kannski fyrsta barninu sínu eða því fimmta, og biðjum Guð að vaka yfir þeim hvar sem þær eiga heima í veröldinni.

Til hamingju með daginn, kæru mæður á öllum aldri. Og til hamingju með mæður ykkar, kæru börn á öllum aldri! Á mæðradeginum blessum við mæður okkar, bæði þær sem við höfum hjá okkur og líka þær sem farnar eru heim til Guðs. Við þökkum Guði fyrir þær og allt það sem þær hafa lagt á sig okkar vegna. Og við biðjum fyrir mæðrum sem eiga bráðum von á barni, kannski fyrsta barninu sínu eða því fimmta, og biðjum Guð að vaka yfir þeim hvar sem þær eiga heima í veröldinni.

Í dag ætla ég að tala svolítið um mæður og líka um bænir, því það er sérstakur bænadagur í kirkjunni - og hér í Hallgrímskirkju er líka barnadagur því að við erum öll saman í messunni til að halda upp á samverustundirnar á vetrinum sem nú er liðinn. Á eftir prédikuninni minni, áður en við göngum til altaris, munu messuþjónarnir okkar biðja bænir fyrir okkur og með okkur. Messuþjónarnir eru fulltrúar okkar allra því að þetta eru bænirnar okkar sameiginlega, ekki bara prestanna, alveg eins og söngurinn er okkar allra, ekki bara kórsins, sem í dag er Drengjakór Reykjavíkur. Drengirnir í kórnum hjálpa okkur við sönginn og syngja stundum sinn fallega kórsöng einir en sálmarnir og messusvörin eru fyrir okkur öll með þeirra góðu hjálp.

Svo biðjum við öll saman Faðir vor rétt áður en við komum í röð upp að tröppunum til að fá brauð og vín. Bænin hans Jesú er eins og borðbænin í messunni, sameiginlega bænin okkar allra í stærstu fjölskyldu í heimi, okkar sem tilheyrum kristinni kirkju. Altarisgangan er eins og það að við borðum saman fjölskyldan, þó við borðum saman standandi hér í Hallgrímskirkju af því að það koma alltaf svo margir. Börn mega líka koma með foreldrum sínum og foreldrarnir ráða því hvort börnin fá brauð og kannski vín ef ykkur sýnist svo og börnin hafa fengið að vita hvað það er að vera þátttakendur í máltíðinni sem Jesús Kristur stofnaði. Annars komið þið hér með mömmu eða pabba eða afa eða ömmu eða öðrum ástvinum og þiggið blessun, lítinn kross á ennið til að minna ykkur og Guð á skírnina ykkar.

Mamma mín kenndi mér að biðja. Það gerði pabbi reyndar líka, en af því að í dag er mæðradagurinn ætla ég mest að tala um mömmu. Mamma kom inn til mín á kvöldin áður en ég sofnaði og bað með mér. Hún byrjaði bænirnar sínar alltaf svona: Himneski Faðir. Himneski Faðir. Það þótti mér svo fallegt og minnti mig á bænina hans Jesú, Faðir vor, þú sem ert á himnum. Mér þykir enn svo gott að vita að ég á himneskan föður sem er betri en besti pabbi í heimi. Jesús kallaði Guð ,Abba´ sem merkir pabbi. Þannig megum við líka ávarpa Guð: Pabbi.

En er Guð þá ekkert eins og besta mamma í heimi – eða betri en besta mamma í heimi? Jú, í Biblíunni er Guði líka líkt við móður. Við viljum samt ekki hætta að kalla Guð föður okkar af því að hann er faðir Jesú. En Biblían líkir Guði við móður, sem aldrei getur gleymt barninu sínu. Þannig eru mömmur nú einu sinni. Þær sem gengu með barnið inni í sér í 9 mánuði og fæddu það í heiminn og gáfu því næringu við brjóstið sitt, hvernig gætu þær gleymt barninu sínu? Og svo eru líka mömmur sem fengu barnið sitt til sín tilbúið og fætt og voru búnar að bíða lengi eftir að verða mömmur. Hvernig gætu þær gleymt barninu sínu? Sumar konur eru líka bænamömmur, eiga sérstök bænabörn, skyld og óskyld, og líka hjartans málefni sem eru eins og börnin þeirra. Við getum verið mæður á svo margan hátt og fætt af okkur líf inn í þennan heim í ýmissi merkingu.

Mamma gleymir aldrei barninu sínu, ekki heldur mamman sem er á himnum. Mömmurnar biðja fyrir börnunum sínum og annast um þau eins vel og þær geta. Þannig er Guð líka: Drottinn vakir, Drottinn vakir daga´ og nætur yfir þér/Blíðlynd eins og besta móðir ber hann þig í faðmi sér, segir í sálminum (nr. 402 í sálmabók Þjóðkirkjunnar). Og þegar mömmur geta ekki verið með barninu sínu halda þær samt áfram að biðja og annast um það í huganum.

Við heyrðum áðan um að Guð hafi áætlun með líf þitt, Jer. 29.11: Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Hver einasta mamma og hver einasti pabbi óska börnunum sínum ávallt það besta. Og með Guðs hjálp geta þær góðu óskir ræst. Guð hefur hugsað sér eitthvað gott fyrir lífið þitt og mitt. Hans áætlun er góð, til heilla.

Þess vegna, kæru mæður, biðjum við fyrir börnunum okkar. Það eina sem við viljum fyrir þeirra hönd er að þau eigi vonarríka framtíð. Framtíð full af von. Hvað getum við beðið um betra? Og einmitt þess vegna biðjum við fyrir þeim, hvern einasta morgun, hvern einasta dag, felum við þau góðum Guði og biðjum að þau mættu verða sjálfum sér og öðrum til heilla og hamingju. Það er okkar eina leið - að leggja börnin okkar í hendi Guðs.