Söngur Cecilíu

Söngur Cecilíu

Thor fylgir íslenskri miðaldaþýðingu á helgisögunni um guðsást og dygðir heilagrar Cecilíu, trúarstaðfestu hennar og píslarvætti og einnig brúðguma hennar Valeríanusar og bróður hans Tíbúrkíusar. Thor færir söguna hingað til lands sem vitrun förumanns er situr á árbakka í Húsafelli, þar sem kirkja var helguð dýrlingnum í kaþólskum sið.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
17. nóvember 2009

Cecilia

,,Undir þrútnum himni og bólgnum skýjum, í grámanum sortna tindar saxaðir í rótinu, í strinda grillir í vafningi þeim, en förumaður situr á bakka, heyrir meira í ánni en sjái, lokar augum við atlæti og niðinn hins kvika vatns.“

Þannig byrjar ljóðrænn og seyðandi oratóríutexti Thors Vilhjálmssonar, rithöfundar, um heilaga Cecilíu, dýrling tónlistar og tónsköpunar, en Áskell Másson hefur samið tónlist oratóríunnar. Einsöngvararnir Þóra Einarsdóttir, sópran, Bragi Bergþórsson, tenór, Ágúst Ólafsson, barítón, og Bjarni Thor Kristinsson, bassi, munu frumflytja verkið ásamt fjölmennum Mótettukór Hallgrímskirkju og hljómsveit undir stjórn Harðar Áskelssonar í Hallgrímskirkju á sunnudaginn kemur 22. nóvember, sem er dýrðardagur heilagrar Cecilíu og hefst flutningurinn kl.16.

Thor fylgir íslenskri miðaldaþýðingu á helgisögunni um guðsást og dygðir heilagrar Cecilíu, trúarstaðfestu hennar og píslarvætti og einnig brúðguma hennar Valeríanusar og bróður hans Tíbúrkíusar. Thor færir söguna hingað til lands sem vitrun förumanns er situr á árbakka í Húsafelli, þar sem kirkja var helguð dýrlingnum í kaþólskum sið.

,,Úr djúpi þegar skerst í margar aldir aftur fer vætturin um óháð því sviði sem svifasjón færir, þá kemur mær undraskær í þessari inndregnu vitrun sem eilífðarstreymi vatnsins. -Kváðu svo vottar að blóm spryttu í sporum hennar, og fylgdi sætur ilmur hennar för; angaði blómgresi um velli, fór sveipur um grösin ýmsu og lághljómandi bærðust tónaleiðslur.“

Thor segir frá í meitluðum orðum með miðaldamálfari sem skilst þó án vanda ef að er gætt enda taktfast og hljómmikið. Thor lýsir tign Cecilíu, þokka og glæstum búnaði er ,,duldi aga og tyftan,“ og brúðkaupi þeirrar Valeríanusar, en hann má ekki njóta ástar brúðar sinnar, því að engill Guðs gætir hennar, sem Valeríanus fær ekki séð nema skírist. „Urbanus páfi skírði Valeríanus og kenndi honum alla setning réttrar trúar,“ sem leiðir til þess að Tíbúrkíus bróðir hans skírist líka af Urban. Það felur þó lífshættu með sér: ,,Og munum leiddir til dauða á jörðu, ef við leitum guðdóms þess er leynist á himnum.“ Þessum efasemdum Tíbúrkíusar svarar Cecilía: ,,Væri bara þetta líf og ekki annað betra, þá gætum við hræðst að týna þessu. En nú er annað líf miklu betra og endar aldrei.“

Trúarjátning Cecelíu er hvað merkasta efni textans og einkum skilgreining hennar á leyndardómi þrenningarinnar sem þar kemur fram: ,,Einn er Guð í guðdómi sínum; en vér skiptum persónum svo í þrenningu sem vér segjum þrídeilda speki í einum manni. Það er mannvit, minni og skilningur. Því af mannviti finnum vér það er vér höfum eigi numið, í skilningu greinum vér hvað vér sjáum og heyrum. Eignast þá ein speki þessa þrjá hluti.“

Þar sem bræður nýskírðir vildu í Róm ,, eigi blóta skurðgoðinu, þá voru þeir sverði slegnir, og skildust við líkamlegt blóð; tóku við eilífa dýrð.“

Er riddarar og þjónar Almakíusar greifa ,,hafa uppi harmatölur að svo fögur mær og göfug“ sem Cecilía skyldi líka eiga að deyja fyrir sömu sakir og segja við greifann: ,,Týndu ekki svo mikilli fegurð í dauða,“ svarar hún: ,,Það er fegurðar bót og ekki tjón, líkt og að taka gull við eiri, eða dýrlegan gimstein við grjóti, eða selja hraklegan kofa fyrir höll, prýdda gulli og gimsteinum, láta það sem brátt skal fara fá hitt sem aldrei glatast né spjallast.“ Frammi fyrir Almakíusi minnir Cecilía á Jesú frammi fyrir Pílatusi. Þegar Almakíus spyr hana:,,Hvaðan kom svo mikil dirfð, til að svara mér svo tignum manni, svarar Cecilía honum svo: ,,Af góðu viti, og óloginni trú.“

Þegar miklir eldar eru kyntir í húsum greifans ,,var hún höfð í ærnum hita og byrgð. Þó stóð hún þann dag og líka nóttina alla en sakaði hvergi.“ Ekki tekur höfuð mærinnar heldur af þótt höggvið sé ,,þrym sinnum leiftrandi sveðju“ ,,Hin sæla Cecilia lifði þrjá daga í sárum, og styrkti áfram þær meyjar sem hún hafði alið og nært, skipti svo öllum auði með þeim, fal svo þessar konur Úrban páfa.“

Sagt er að Cecilía hafi heyrt himneska tóna í hjarta sér og sálu og því varð hún verndardýrlingur tónskálda og tónlistarmanna, sem í göfgandi tónlist leita til hæða og himins.

* * *

Thor hefur verið marghamur í skáldsskap sínum og fært hingað til lands grósku og menningarstrauma frá meginlandi Evrópu einkum Miðjarðarhafslöndum. Efnistök hans báru í upphafi ritferils með sér áhrif frá tilvistarstefnunni, Sartre og Camus, þar sem hvorki finnst lífstilgangur né huggun í guðlausum heimi, og umkomuleysi og einstæðingsskapur manns skín fram í innri óvissu og angist í viðleitni til að leita merkingar með hugsun og orðum án nokkurra sérstæðra viðmiðana. Heiti fyrstu bókar hans, ,,Maðurinn er alltaf einn“, ber þetta með sér. Hugsun og áþreifanlegur veruleiki skynfæranna er gáta, sem í þessum hugmyndaheimi á sér engin svör.

Thor lokast þó ekki inni í þröngum hring endaleysunnar. Hann nemur undirstrauma og fjölþættari víddir tilverunnar en þær rökrænu og yfirborðslegu. Thor dregur upp fjölbreyttar lífsmyndir í ritverkum sínum, teiknar og málar í leiftrandi orðum enda listmálari jafnframt því að vera rithöfundur, og samspil manns og náttúru kemur fram í oft stórfenglegum lýsingum hans.

Ferðabækur Thors bregða ekki aðeins upp myndum af fólki og umhverfi heldur tjáir hann þar listilega andrúm og innri áhrifastrauma, mótunaröfl og menningu og þar kemur kristin trú sem djúptækur áhrifavaldur mjög við sögu.

Í skáldsögum sínum sem hafa sögulegar skírskotanir eins og verðlaunaverkunum ,,Grámosinn glóir“ og ,,Morgunþula í stráum“ fæst Thor við siðferðilega ábyrgð og álitamál og spyr hvað sé rétt og hvað rangt, sekt og sakleysi í oft flóknum samskiptum manna og samleið. Hann lýsir í Morgunþulunni pílagrímsferð Sturlu Sighvatssonar til Rómar, eins helsta geranda í Sturlungu, sem með göngu sinni leitar Guðs og lausnar frá sekt og syndum.

Sjálfur gekk Thor fyrir fáeinum misserum, rétt áttræður, Jakobsveginn (El Camino de Santiago), helgileiðina til Santiago de Compostella í Galisíu á norðvestur Spáni og var sú ganga hans kvikmynduð. Pílagrímsgangan er löng og verður þó ekki metin eftir kílómetrafjölda sínum heldur fyrir þau áhrif sem hún hefur á líkama, innri vitund og sálu, því að hún glæðir skynjun og næmi fyrir því að leið manns í tímans heimi, daga og ár, sé ferð og mótunarferli til að geta náð því marki að skila af sér byrðum jarðar lífs, viðhorfum og verkum farsællega í hendur Guðs með lofsöng í hjarta.

Thor hverfur á ný til samtíðar í lok frásagnar sinnar af heilagri Cecilíu og tekur sér stöðu með þeim förumanni, sem fær á Húsafelli vitrun í upphafi sögu og styrkist af og getur betur en áður séð annmarka harks og glaums í heimi. ,,Vex nú glaumur í heimi með harki, því hafnar hugur og heldur hinu fast, mjúkum tökum þó, sem gafst á þessari ferð.“

Og sem í óræðum tíma: ,,Förumaðurinn situr enn við ána, niðurinn blandast röddum barnanna að leik, skvampar undan steinum sem þau kasta í ána. Móðir brosir til bónda síns sem brýnir ljáinn. Ást þeirra fleytir kyni manna fram. -Vita að Cecilía andar á stráin, blítt, líka þau sem skárust frá svo að fáist mjólk úr spena ..“

Helgisagan um Cecilíu á sér fornan uppruna sunnan úr löndum, en í hrífandi texta Thors með miðaldahljómi verður hún virk á ný og ber með sér heilnæm áhrif að utan og frá fyrri tíð og kynslóðum hér á landi sem virtu helgi Cecilíu sem endurspeglun anda og náðar Guðs.

Óvíst er hvort íslensk þjóð og samfélag hafi hag af því að halla sér að og hverfa inn í stórt efnahagsbandalag í Evrópu en hún hefur tvímælalaust gagn og hag af því nú sem áður að sækja sér föng í auðugan trúar -og menningararf álfunnar og veita varanlegum verðmætum þaðan farvegu inn í menningu sína og mannlíf til þess að geta sem best gengið til góðs á förumannsveginum með háleitt mið og mark fyrir augum.

Tónlist Áskels Mássonar við texta Thors Vilhjálmssonar mun fagurlega miðla þeim boðskap helgisögunnar um heilaga Cecilíu í tónum og söng að lífið eigi sér þrátt fyrir gerningaveður, glaum og hark háleitan himneskan tilgang sem fórnfús elska og lífsþjónusta vísa til í Jesú nafni.

Frumflutningur oratoríu um heilaga Cecilíu, verndardýrling tónlistar og tónlistarmanna, í Hallgrímskirkju á dýrðardegi hennar 22. nóvember er mikill menningar-og listviðburður sem sannarlega á að geta laðað marga að til að njóta hennar og upphefjast í hjartans fögnuði og lofsöng.

Soli Deo Gloria