Í Biblíunni eru engir dýrlingar ... bara fólk að fylgja Guði

Í Biblíunni eru engir dýrlingar ... bara fólk að fylgja Guði

Á æskulýðsdaginn er æskulýðsstarfi hvers safnaðar fagnað og víða bera ungmenni fram ávexti starfsins með margvíslegum hætti.
fullname - andlitsmynd Sigurvin Lárus Jónsson
04. mars 2016

Æskulýðsdagur Þjóðkirkjunnar á sér áratuga hefð en á fyrsta sunnudegi í mars taka söfnuður sig saman um að fagna þeim fjölmenna hópi barna og unglinga sem sækir helgihald kirkjunnar.

Það er bæn allra sem kirkjunni unna að ungt fólk finni þar opinn faðm í anda frelarans Jesú, sem mat bernskuna mikils. Sú bæn hljómar í sunnudagaskólalaginu þekkta ‘Jesús er besti vinur barnanna’ en dýrmætari vin er ekki hægt að eiga í gegnum lífið en Jesú.

Ásýnd kirkjunnar er ólík til sjávar og sveita en allstaðar standa dyrnar opnar börnum. Sunnudaga- og kirkjuskólar eru starfræktir í öllum prestaköllum og uppfræðslu fermingarungmenna er sinnt í öllum sóknum. Þess utan skipuleggja söfnuðir fjölbreytt æskulýðsstarf fyrir börn og unglinga, foreldrasamverur og kórastarf, sem í er fólgið gríðarlegt forvarnar og uppeldisgildi. Á æskulýðsdaginn er æskulýðsstarfi hvers safnaðar fagnað og víða bera ungmenni fram ávexti starfsins með margvíslegum hætti.

Yfirskrift æskulýðsdagsins 2016 er: Í Biblíunni eru engir dýrlingar ... bara fólk að fylgja Guði’. Yfirskriftin er valin með tilliti til tveggja merkra tímamóta, annarsvegar nýliðnu 200. afmælisári Hins íslenska Biblíufélags og hinsvegar 500 ára siðbótarafmæli komandi árs. Biblíusýn siðbótarinnar snérist m.a. um að afnema helgimyndir dýrlingadýrkunar og nálgast frásagnir Biblíunnar á þeim forsendum að þær segji frá venjulegu fólki sem fékk með óvenjulegum hætti að reyna nærveru Guðs í lífi sínu.

Til að styðja við helgihald Æskulýðsdagsins hefur verið sett saman fræðsluefni sem fjallar um fjórar persónur í Biblíunni. Prestarnir Sigurvin Lárus Jónsson og Ninna Sif Svavarsdóttir skrifuðu hugleiðingar fyrir börn og unglinga um Miriam, Daníel, Rut og Maríu Magdalenu og Rakel Brynjólfsdóttir skrifaði leikþætti um sömu persónur. Loks hefur Guðrún Þóra Gunnarsdóttir teiknað áhrifamiklar litamyndir til stuðnings efninu.

Miriam getur kennt okkur margt um fjölmenningu, Daníel um ljónin á leikvelli lífsins, Rut um viðbrögð við áföllum og María Magdalena um vináttu og eftirfylgd við Jesú. Það er þess virði að leggja leið sína til guðsþjónustu næsta sunnudag og upplifa það öfluga æskulýðsstarf sem einkennir íslensku Þjóðkirkjuna. Gleðilegan æskulýðsdag.