Rödd Þjóðkirkjunnar

Rödd Þjóðkirkjunnar

Undanfarið hafa raddir lýst eftir viðbrögðum hinna andlegu leiðtoga þjóðarinnar mitt í þeim aðstæðum sem þjóð okkar er stödd í. Ég hef verið spurð: ,,Af hverju segið þið ekkert, hvar eru ykkar raddir?” Ég fagna breyttu viðhorfi því stutt er síðan að mörg okkar börðust hart gegn röddum sem kvörtuðu undan hinum andlegu leiðtogum, við vorum of hávær og kirkjan allt of áberandi innan stofnana samfélagsins.
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
27. janúar 2009

Undanfarið hafa raddir lýst eftir viðbrögðum hinna andlegu leiðtoga þjóðarinnar mitt í þeim aðstæðum sem þjóð okkar er stödd í. Ég hef verið spurð: ,,Af hverju segið þið ekkert, hvar eru ykkar raddir?” Ég fagna breyttu viðhorfi því stutt er síðan að mörg okkar börðust hart gegn röddum sem kvörtuðu undan hinum andlegu leiðtogum, við vorum of hávær og kirkjan allt of áberandi innan stofnana samfélagsins. Í takt við ríkjandi frjálshyggju áorkuðu þessar raddir ýmislegt.

En þrátt fyrir það þá höfum við ekkert farið, við erum þar sem við höfum alltaf verið. Fljótlega í október á síðasta ári sendi Biskup Íslands tilmæli til allra presta og sóknarnefnda að auka bæna- og kyrrðarstundir, vera sýnilegri og var því mætt um leið. Sum staðar kom í ljós að þörfin var ekki til staðan utan hins sem hefbundið var en annars staðar eru þessar stundir vel nýttar.

Víða í kirkjum á höfuðborgarsvæðinu eru guðsþjónustur og bænastundir á ýmsum tímum sólahringsins, flesta daga vikunnar. Á landsbyggðinni er þjónusta kirkjunnar í takt við samfélagið sem hún þjónar. Innan kirkjunnar fer fram fjölbreytt starf. Á www.kirkjan.is, vef kirkjunnar má finna greinagóðar upplýsingar um þá þjónustu sem kirkjan veitir. Þar birtast daglega nýir pistlar og prédikanir sem tala inn í aðstæður okkar í dag. Þar má finna gagnrýni á okkur sjálf og þjóðfélagið en þar má einnig finna huggun og hinn kristna boðskap vonarinnar í erfiðum aðstæðum.

Það væri ekki hlutverk kirkjunnar eða hinna andlegu leiðtoga að úthrópa ákveðna einstaklinga og heimta eitt frekar en annað. Mótmælin sem í dag eru hávær eru ekki einsleit, þar er að finna margar raddir og ekki endilega eina lausn. Þau sem innan kirkjunnar starfa sinna þessum ólíku röddum. Við mætum því fólki sem glímir við vonleysi, efnahagsþrenginar og hughreystum í krafti trúarinnar, í bæn og með áþreifanlegri innanlandsaðstoð Hjálparstarfs kirkjunnar. Við heyrum í lögreglumönnum og fjölskyldum þeirra sem óttast aukið ofbeldi í mótmælum. Við hlustum á reiðina, sýnum henni skilning en hvetjum til þess að beina henni í réttan farveg. Við mætum alþingismönnum og þeirra fjölskyldum sem einnig óttast um hag sinn, hag þjóðiarnnar, aukið álag. Við sinnum börnunum okkar allra og stöndum með þeim, hlustum á þau og reynum að lesa í orð, áhyggjur eða gleði.

Barnastarf kirkjunnar er með sama sniði og undanfarin ár, þar er gegnumgangandi þema. Efni vetrarins var unnið og skipulagt fyrir um ári síðan og byggir á þeim gildum sem hin kristna trú hefur staðið fyrir alla tíð. Fyrsta ritningarversið sem börnin áttu að læra er ríflega 2000 ára gamalt: ,,Hvar sem fjársjóður þinn er þar mun og hjarta þitt vera.”

Í vetur höfum við notað fjársjóðskistu, þegar börnin sáu kistuna héldu þau fyrst að hún væri full af gulli. En svo var rætt um fjársjóði í víðara samhengi og auðvitað komust börnin að þeirri niðurstöðu að fjársjóður þyrfti ekki að vera gull, heldur voru þau fjársjóður og fjölskyldan, vinirnir, umhverfi okkar, trúin, vonin og bænin. Daglega, mætum við börnunum, þjóðinni eins og við höfum gert í mörg ár. Við erum einmitt til staðar í trausti þess að við höfum verið hér áður og áfram boðum við hinn kristna boðskap, þann hinn sama og áður. Boðskap sem þjóðin okkar studdi sig við og treysti á þegar meiriháttar áföll dundu yfir. Boðskap sem miðlað er á stundum gleði og tímamótum fólks í kirkjunni við skírnir, fermingar, hjónavígslur. Boðskap sem við höllum okkar að í sorginni við veikindi eða dauða sem skeytir engu um ástandið í þjóðfélaginu.

Í þeim aðstæðum sem og aðstæðum þjóðfélagsins talar hin kristna trú og hinir andlegu leiðtogar hennar og hún er til staðar fyrir öll þau sem til hennar leita og hún leitar einnig þeirra sem hana vilja finna eins og alltaf áður.