Íslendingar stunda þá íþrótt og þá einkum á útivelli - þegar þeir eru staddir á erlendri grundu - að leita að sameiginlegum kunningja eða samferðamanni. Sjálfur hef ég margsinnis orðið vitni slíku þegar landar koma saman af einhverju tilefni og samræður eru á frumstigi. Þá taka menn leita ýmissa upplýsinga um viðmælandann, oftar en ekki í þeim tilgangi að kanna hvort þar kunni ekki leynast einhver sem spyrjandinn sjálfur þekkir.
Hver kannast ekki við að hafa fengið spurningar eins og þessar? „Hvað segirðu, ertu frá Siglufirði? Þekkirðu þá ekki..?“ „Já, varstu í MH? Þá hlýtur þú að þekkja..?" "Bjóstu í Seljahverfinu? Nú, kannastu þá ekki við ...?“
Þetta má kalla „að rekja sig saman“. Viðmælendur reyna að finna einhvern sem þeir báðir þekkja. Það veltur svo á ýmsu hvernig menn nýta sér upplýsingar um hinn sameiginlega kunningja eða samferðamann. Stundum er ekkert meira um hann rætt en menn geta þá rólegir tekið upp annað hjal því þeim hefur tekist að staðsetja hvor annan í mannhafinu. Að þessu leyti er það lán að tilheyra svo fámennu samfélagi. Og ef tilefnið eða dægurþrasið hrekkur ekki til sem efniviður í samræður hafa menn þá alltaf einhvern til að tala um.
Einu sinni sat ég í boði þar sem tveir menn gátu ómögulega rakið sig saman. Fram eftir kvöldi voru þeir hvað eftir annað að brjóta upp samræðurnar þegar þeim hafði skyndilega flogið einhver í hug sem hinn kynni að þekkja: „Já, en þú hlýtur að þekkja ...“, „En þekkirðu þá ekki...?“ Það leyndi sér ekki að þeim þótti þetta óþægilegt.
Það er jú næstum því eins og að hitta gamlan kunningja þegar kemur á daginn að viðmælandinn þekkir einhvern sem maður sjálfur þekkir. Í ljós kemur snertipunktur úr fortíðinni á milli fólks sem hittist í öðru landi. Menn kynnast með öðrum hætti, fá örlitla innsýn hvor í annan.
* * *
Við upphaf aðventu er lesinn í kirkjum frásögn guðspjallamannanna af því þegar Jesús reið inn í Jerúsalem undir dynjandi gleðilátum borgarbúa. Þetta er merkileg frásögn. Það er greinilegt að fólk hefur átt von á slíkum atburði. Sú var og raunin. Fornir textar, spádómar liðinna alda, urðu þarna ljóslifandi fyrir fólkinu sem hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“
Þarna reið hann inn í borgina helgu: „Sjá konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola“. Með þeim orðum hafði spámaðurinn Sakaría sagt fyrir um atburðina fimm hundruð árum áður og sá spádómur hafði, ásamt þeim öðrum sem skráðir voru í ritningu gyðinga, haldið voninni í þjóðinni í gegnum þrengingar og löng tímabil þar sem ekkert virtist blasa við nema svartnættið og dauðinn.
Fólkið sá spádómana rætast. Það skildi jafnframt skilaboðin, las boðskapinn, út úr þeirri umgjörð sem var um atburðinn. Í guðspjallinu segir að Jesús hafi riðið á asna, sem fyrir okkur nútímamönnum er heldur óvirðulegur reiðskjóti. Í hinum gamla heimi var asninn hins vegar friðartákn, ólíkt hestinum sem var merki ófriðar og styrjalda. Þarna reið friðarhöfðinginn inn í Jerúsalem. Nýir tímar voru í uppsiglingu og nýtt skeið í sögu mannsins. Og friðurinn hafði víðtækari merkingu en hann hefur á okkar dögum. Friður eða „shalom“ þýddi ekki aðeins hlé á ófriði, logn á milli óveðra, heldur merkti hann fullkomna sátt, ósundrað samfélag - maðurinn átti að lifa í sátt við sjálfan sig, náunga sinn og umhverfi með þeim hætti sem hann var skapaður til að gera. Friðarhöfðinginn var kominn til þess að endurheimta þetta samfélag.
Fortíð og nútíð mættust. Spádómar rættust. Draumar urðu að veruleika. Kristur reið inn um borgarhliðin með þeim hætti að allir skyldu að nú voru stór tíðindi framundan.
Frásögnin markar upphafið að aðventunni. Þá ættum við að undirbúa okkur fyrir fæðingarhátíð frelsrarans og gleði Jerúsalembúa mætti vera okkur fyrirmynd að því hvernig við sjálf tökum á móti Kristi er hann heldur til okkar. Því Kristur leggur leið sína inn um ótal önnur borgarhlið. Hann kemur inn í líf fólks. Hann breytir því hvernig við hugsum, hrekur á brott óttann og glæðir ljós og von í umhverfi þar sem myrkur ríkti og vonleysi.
Margt annað markar reyndar upphafið á aðventunni og flest af því er frekara á athygli okkar en þessar frásagnir Biblíunnar. Sumt er líka fjarri boðskap aðventu og jóla. Aðventan getur verið hávaðasamur tími, litríkur og skær, en að sama skapi innantómur og í engu samhengi við sinn upphaflega tilgang. Við búum ekki í því umhverfi og kunnum ekki skil á þeim táknum og tilvísunum sem fólkið þekkti á dögum frásagnanna. Það lifði í heimi sem var nátengdur liðnum tíma og varðveitti gamlar sögur og spádóma sem glæddu von í brjósti þess og fylltu líf þess tilgangi. Við ættum að sama skapi að gefa slíku gaum.
* * *
Kristnir menn fagna aðventunni með hætti minnir um margt á það sem kalla má „að rekja sig saman“, þennan leik sem íbúar fámennrar þjóðar geta stundað og gera ekki síst þegar þeir eru fjarri ættjörðinni. Gjarnan þegar fólk er nýflutt að heiman og finnur sig ekki enn heima á hinum nýju slóðum. Eins í tilviki þeirra sem spyrja sig reglulega hvort þeir eigi að halda aftur „heim“, með vorinu - eða kannske næsta haust. Og af þeim sem hafa tekið þá stóru ákvörðun að flytja aldrei aftur til Íslands.
Við leitum að samhengi í fortíðinni sem tengir okkur við annað fólk og ýmsa ákvörðunarstaði á lífsins leið. Það er þó aðeins lítið dæmi þess hversu mikilvægt það er að slíta ekki aburðina hvern frá öðrum. Hafa ekki aðeins ákvörðunarstaðina í huga heldur einnig þá staði sem haldið var frá.
Aðventan á sér djúpar rætur í kristinni trú og heilagri ritningu. Það er öllum dýrmætt að rækta þann arf og gæta þess að hann sé ekki fjarlægur því lífi sem við lifum nú. Því þegar við svörum fyrir það hver við erum leitum við aftur í tímann, við leitum í sjóð minninganna og þess sem hefur skapað umhverfi okkar og okkur sjálf. Þar er að finna allt það sem við kunnum, getum og þekkjum.