Að eiga sér draum

Að eiga sér draum

Hamingja felst í því að láta drauma sína rætast og maður er aldrei of gamall til þess að láta draumana rætast. Er ekki betra að deyja hamingjusamur með uppfyllta drauma heldur en að hafa aldrei reynt að uppfylla drauma sína þrátt fyrir mörg tækifæri?

Átt þú þér draum? Eiga sér ekki allir draum? Ég á mér draum sagði Martin Luther King. Hans draumur var að allir væru jafnir sama af hvaða litarhætti eða kynstofni þeir væru. Jón Sigurðsson átti sér draum um að Ísland yrði sjálfstætt land. Þeir lögðu báðir mikið á sig til þess að draumar þeirra rættust.

Ég er búin að vera í kirkjustarfi allt mitt líf og má segja að kirkjan sé mitt annað heimili. Þegar ég var 12 ára gömul var æskulýðsfulltrúi Vídalínskirkju nýkomin frá Indlandi en þar hafði hann dvalist í nokkuð langan tíma og unnið með börnum sem búið var að leysa úr ánauð. Hann fræddi okkur sem voru í æskulýðsstarfinu og fermingafræðslunni um þetta starf og þá kviknaði áhuginn. Áhuginn á hjálparstarfi. Ég fór að vera meira í kirkjunni og fór að starfa sem sjálfboðaliði hjá hjálparstofnunum landsins. Mér fannst yndislegt að geta hjálpað til og lagt mitt af mörkum til samfélagsins. Það kom að því að ég eignaðist mér svo stærri draum. Drauminn um að heimurinn yrði betri staður til að búa í og ef allir myndu leggja sitt af mörkum myndi heimurinn örugglega verða betri, en því miður er það ekki svo einfalt. Minn stærsti draumur er þó að fara í hjálparstarf til Afríku þar sem neyðin er mikil. Árið 2012 var ég svo heppin að fá að fara með Kristniboðssambandi Íslands til Kenía og fá að kynnast starfinu þeirra þar. Aldrei nokkurn tímann hefði mér dottið í hug að svona stór draumur myndi rætast svona fljótt hjá tvítugri píu sem átti ennþá lífið að leysa. Ferðin til Kenía var æðisleg í alla staði en tók samt líka gríðarlega á. Það var margt sem kom á óvart og margt sem maður er ekki vanur. Að koma til Afríku er eins og að ferðast aftur í tímann um mörg ár. Stéttaskiptingin er mjög mikil og á flottustu hótelum höfuðborgarinnar horfiru yfir eitt af stærstu fátækrahverfum Afríku. Þar býr fólk í einhverju sem varla kallast hús. Litlir kofar með rifnu bárujárnsþaki, moldargólfi og brotnum moldarveggjum. Lítil börn leika sér með rusl, ungar stelpur selja sig í von um betra líf og mikill óróleiki er í hverfinu vegna fátæktar. Við fórum úr höfuðborginni til héraðs sem heitir Pókot. Þar starfa íslenskir kristniboðar. Sumir pókotbúar höfðu aldrei séð hvítan mann áður og var mesta sportið að fá að koma við húð og hár okkar (hvíta mannsins). Sumir höfðu aldrei séð sjálfan sig og þegar við tókum mynd af þeim og sýndum þeim fannst þeim það ótrúlega fyndið. Það er ótrúlegt starf sem kristniboðssambandið hefur unnið, að breiða út trúna og hjálpa fólkinu að hjálpa sjálfum sér, eins og fræðsla um hreinlæti, læknisþjónusta og þess háttar. Flestir í Pókot höfðu kynnst Jesú og þeim langaði alltaf að heyra meira og meira um hann og trúna. Þeirra draumur er að fá að vita meira um Jesú og trúin er þeim allt. Þrátt fyrir að sumir væru í slitnum fötum og slitnum skóm og áttu varla mat fyrir sig og sína vissu þeir að allt myndi verða léttara ef trúin var til staðar. Draumur barnanna er að komast í skóla og fá að læra. Þrátt fyrir að börnin séu lamin með priki í skólanum og fá kannski ekkert að borða í marga daga vilja þau bara fá að læra. Það er jú kannski skrítið þar sem við tökum því sem sjálfsögðum hlut að senda barnið okkar í skóla og mennta það. Krakkarnir sátu fimm, stundum sex saman á einum litlum trébekk sem rúmaði þrjá, fjóra í mesta lagi. Bekkirnir voru risastórir, allt að 50 nemendur í hverjum bekk. Draumur kvennanna á fæðingardeildinni er að börnin þeirra muni lifa, þrátt fyrir að þau hafi fæðst mörgum vikum og stundum mánuðum fyrir tímann í einskonar risastóru þvottahúsi þar sem kettir eru rottufangarar og hreinlætið ekki mikið. Draumur kvennanna í kvennafangelsinu er að fá dóm þrátt fyrir að þær hafa setið inni í mörg ár án dóms. Margar þeirra sitja inni fyrir smávægileg brot og þær sofa á þunnri dýnu á fangelsisgólfinu. Það eina sem þær vilja er að komast úr fangelsinu og lifa eðlilegu lífi.

Í ferðinni fannst mér verst að sjá aðstöðu barnanna. Sum þeirra búa við erfitt heimilislíf, eru lamin og fá ekkert að borða svo dögum skiptir. Stundum fá börnin áfengi ef það er ekki til matur. Sum börnin eru mikið vanrækt og eiga engin föt til skiptana. Þrátt fyrir að fátæktin sé gríðarleg og svo mikil að maður getur ekki einu sinni ímyndað sér hana, eru allir alltaf brosandi og glaðir. Þrátt fyrir að þetta fólk á ekki neitt, og þá meina ég ekki neitt, er það alltaf með bros á vör.

Eftir svona ferð og eftir að hafa séð ótrúlegustu hluti sem maður trúir varla að séu til og svona mikla fátækt hef ég velt fyrir mér, hvað er hamingja? Felst hamingja í að eiga öll nýjustu tækin og nýjustu fötin eða felst hún í að þakka fyrir það sem maður hefur, brosa og njóta lífsins?

Sýn mín á lífið breyttist algjörlega eftir þessa ferð. Trúin varð sterkari sérstaklega þegar maður sá fólk sem átti ekkert nema trúna. Ég er mun þakklátari fyrir það sem ég hef og met allt miklu betur en ég gerði. Til dæmis bara að fá að fara í skóla, mennta mig og fá að útskrifast.

Þakklæti er mjög mikilvægur partur í lífinu ásamt trúnni. Í hraða samfélagsins gleymum við oft að tala við Jesú og þakka fyrir lífið og það sem við fáum. Því það er jú ansi oft sem við tökum lífinu sem sjálfsögðum hlut. Að finna ró og kyrrð í sálinni er mjög gott í þessum hraða. Bara að stoppa í smástund og horfa á dýrðina í kringum okkur, hugsa um það góða í lífi okkar og draga djúpt andann, það þarf ekki meira til.

Draumar eru margvíslegir, flestir framkvæmanlegir en aðrir ekki. Mig langar til þess að þú hugsir um hver draumur þinn er og gerir þitt allra besta til þess að láta hann rætast. Stundum þarf að taka mörg lítil skref í átt að draumnum en ef þú heldur áfram að reyna þá rætist hann að lokum. Stundum verður lítill draumur að stórum draum eða stór draumur að ennþá stærri draum. Nýttu tækifærin sem þú færð til að láta drauma þína rætast, kannski eru hindranir en þá þarftu að yfirstíga þær. Þessi tækifæri koma kannski aldrei aftur nýttu þau því vel. Ekki bíða eftir morgundeginum eða öðrum tækifærum, byrjaðu strax í dag.

Ég er nýútskrifuð frá Fjölbrautarskólanum í Garðabæ. Mig langar ekki í háskóla strax, mig langar til þess að halda áfram að láta drauma mína rætast og þess vegna stefni ég á að fara aftur til Afríku næsta vetur. Tíminn eftir framhaldsskóla er mjög dýrmætur og af hverju ekki að nýta hann í að elta drauma sína og gera eitthvað stórkostlegt?

Hamingja felst í því að láta drauma sína rætast og maður er aldrei of gamall til þess að láta draumana rætast. Er ekki betra að deyja hamingjusamur með uppfyllta drauma heldur en að hafa aldrei reynt að uppfylla drauma sína þrátt fyrir mörg tækifæri? Aldrei láta neinn segja við þig að þú getir ekki eitthvað því þú getur allt ef þú trúir og reynir. Prófaðu bara og vittu til!

-Torfey Rós Jónsdóttir