Opið bréf um ofbeldi

Opið bréf um ofbeldi

Opið bréf frá Martin Junge, aðalritara Lútherska heimssambandsins, til Dr. A.B. Augustine Jeyakumar, forseta Sameinuðu evangelísk lúthersku kirknanna á Indlandi, dagsett 14. janúar 2013.
fullname - andlitsmynd Martin Junge
31. janúar 2013

Opið bréf frá Martin Junge, aðalritara Lútherska heimssambandsins, til Dr. A.B. Augustine Jeyakumar, forseta Sameinuðu evangelísk lúthersku kirknanna á Indlandi, dagsett 14. janúar 2013.

Kæri dr. A.G. Augustine Jeyakumar.

Við höfum fylgst með fréttum af hrottalegri líkamsárás og nauðgun ungrar konu þann 16. desember í Nýju Delhi á Indlandi með djúpum sársauka og hryllingi. Ólýsanlegur hrottaskapur glæpsins leiddi til dauða hennar sem var 23ja ára nemi.

Lútherska heimssambandið (LH) vottar fjölskyldu hennar og öllum þeim sem syrgja hana samúð vegna þess miskunnarlausa ofbeldis sem hún mátti þola. Við biðjum Guð um að gefa þeim öllum styrk og hugrekki til að takast á við þessa erfiðu áskorun. Það er átakanlegt að það sem gerðist í Nýju Delhi á Indlandi er ekki einangrað atvik. Við gerum okkur fyllilega grein fyrir að konur um allan heim verða fyrir ofbeldi og áreitni vegna þess að tengsl karla og kvenna einkennast af ójafnræði og kúgun. Því miður er það svo að refsingu er iðulega ekki beitt í tilvikum ofbeldis og áreitni. Mörg brot eru ekki kærð og jafnvel þó það sé gert eru gerendur sjaldnast látnir svara til saka.

Það atvik sem hér um ræðir sýnir enn á ný að ofbeldið sem er innifalið í ranglátum tengslum kynjanna kemur aftur og aftur upp á yfirborðið og finnur sér leið út í ofbeldisgjörðum. Þetta mega konur um allan heim reyna í sínu eigin lífi og jafnvel gjalda fyrir með lífinu sjálfu.

Samt sem áður er þetta tiltekna atvik ólíkt öðrum og það varð mér hvatning til að skrifa þetta bréf. Það sem er sérstakt er hvernig indverskir borgarar rufu þögnina og létu í ljósi þá ákveðnu skoðun að ofbeldi og nauðgun eigi ekki að líðast lengur og að hlutirnir verði að breytast. Við hjá Lútherska heimssambandinu lofum Guð fyrir þessi viðbrögð sem eru í sterkri andstöðu við það hugarfar afneitunar og þöggunar sem svo oft ríkir í sambærilegum málum.

Í ljósi þessara merkilegu viðbragða indversks samfélags sendi ég þetta bréf sem hvatningu til Sameinuðu evangelísk lúthersku kirknanna á Indlandi (United Evangelical Lutheran Churches in India, UELCI) og meðlimakirkna þeirra í stuðningi þeirra við þá samfélagsþróun sem hafin er. Þetta skref ber vott um hugrekki og stuðlar að þeirri djúpu umbreytingu sem þarf að eiga sér stað til þess að uppræta algjörlega þær aðstæður sem þessi unga kona og margar aðrar ungar konur á Indlandi hafa mátt þola.

Meðlimakirkjur UELCI eru vissulega vel í stakk búnar til að láta sig varða og styðja slíkt umbreytingarferli. Skjal LH „Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum“ [2002, kom út á íslensku 2003, ath. þýð.] hefur verið þýtt á fjögur tungumál sem notuð eru á Indlandi. Þetta skjal skilgreinir ofbeldi gegn konum sem synd. Ég bið þess að prestar, prédikarar, kennarar og starfsfólk kristniboðs kirknanna muni nota þetta tækifæri til að koma þeim boðskap á framfæri, bæði af prédikunarstóli, í biblíuleshópum og sunnudagaskólum. Þannig geta þau hjálpað þeim sem koma til kirkju að takast á við þær sársaukafullu fréttir sem voru svo áberandi í fjölmiðlum. Skjal LH „It shall not be so among you: a faith reflection on Gender and Power“ [„Eigi sé svo meðal ykkar: trúarleg umfjöllun um kynferði og völd“, kom út 2009 en hefur ekki verið þýtt á íslensku, ath. þýð.] sem bendir á tenginguna á milli kynferðis og valda er önnur heimild sem kirkjufólk og söfnuðir geta nýtt sér til að efla virka þátttöku í umbreytingarferlinu.
Við erum þakklát fyrir að UELCI hefur þegar skuldbundið sig til að vera vakandi fyrir jafnræði milli kynjanna, til dæmis með því að hafa sett á laggirnar sérstaka skrifstofu sem miðar að því að vekja karla og konur til vitundar um nauðsyn þess að stöðva ofbeldisfull samskipti. Mörg verkefni eru nú þegar á dagskrá UELCI sem eiga að stuðla að heilbrigðu jafnvægi milli kynjanna. Ég hvet meðlimakirkjur UELCI til að skuldbinda sig ennfrekar í þágu þessara verkefna sem lið í framlagi þeirra til samfélagsumræðunnar sem nú á sér stað á Indlandi.

Meðlimakirkjur Lútherska heimssambandsins um allan heim draga lærdóm af sársaukafullum aðstæðum í líkingu við þær sem indverska samfélagið þarf að horfast í augu við nú. Lærdómurinn er sá að til þess að hugsjónin um jafnræði í samskiptum karla og kvenna geti orðið að veruleika þurfi að fara fram víðtæk sjálfsskoðun innan kirknanna, byggð á bæn. Eitt mikilvægasta framlag kristinna kirkna í að uppræta ofbeldi gegn konum er að gæta þess að innan þeirra sé vitund, árvekni og viðbúnaður gagnvart slíku ofbeldi, leyndu og ljósu. Okkur er að skiljast að þessu verði best náð með því að koma á framfæri skýrum skilaboðum um að ofbeldi verði aldrei liðið og hafa ákveðnar verklagsreglur þegar kemur að kærum gegn misnotkun.
Ég vil í þessu opna bréfi nota tækifærið til að hvetja allar meðlimakirkjur LH til að láta ekki staðar numið við þann lamandi hrylling sem ofbeldið og grimmdin vekja með okkur heldur halda áfram að dýpka skuldbindinguna við jafnrétti kynjanna. Þögnina sem oft umlykur ofbeldi verður að rjúfa, við verðum að vakna til vitundar um mikilvægi þessa máls, fræða leiðtoga og móta stefnu. Sú sára reynsla sem saga ungu indversku konunnar lýsir minnir okkur á að það að ná fram jafnrétti kynjanna er spurning um líf og dauða!

Í lokin vil ég senda mínar bestu óskir til handa meðlimakirkjum UELCI í þjónustu þeirra og vitnisburði. Á þessum tíma kirkjuársins erum við minnt á þá hluti sem Jesús Kristur birtir okkur og það hvetur kirkjurnar um allan heim til að halda á lofti hugsjóninni um líf í fullri gnægð. Sá er grundvöllur boðunar þeirra, kærleiksþjónustu og vitnisburðar um stræti og torg.

Í Jesú Kristi, sem er Drottinn og frelsari,
Sr. Martin Junge
Aðalritari

Ísl. þýð: María Ágústsdóttir, verkefnisstjóri á Biskupsstofu.