,,Draumur um veg”, enn og áfram til Jakobsborgar

,,Draumur um veg”, enn og áfram til Jakobsborgar

Thor hrífst af dómkirkjunni í Leon, sem kallar fram minningar um ritstörf heima og upphaf rithöfundaferils hans í Frakklandi. Í León er einnig kirkja heilags Ísidórs frá Sevilla með konunglegri grafhvelfingu sinni, þar sem varðveist hafa rómaðar myndskreytingar frá miðöldum. Þær draga fram gildi myndlistarinnar í höfundarverki og listsköpun Thors.
fullname - andlitsmynd Gunnþór Þorfinnur Ingason
10. nóvember 2012

thor-2.jpgKvikmyndabálkur Erlends Sveinssonar „Draumurinn um veginn”, þar sem hann lýsir göngu Thors Vilhjálmssonar rithöfundar á ,,Jakobsveginum” frá Suður Frakklandi um Norður Spán og vestur til Jakobsborgar á  Spáni (Galisíu) er mikið stórvirki í fimm kvikmyndum í fullri bíómyndalengd. Þær mynda samfellda heild en hver þeirra er heildstæð sem kvikmyndaverk. Enda þótt best fari á því að sjá kvikmyndabálkinn allan til að njóta hans til fulls, hefur hver kvikmynd hans mikið að gefa í sjálfri sér ekki aðeins með ytra borði kvikmyndafrásögunnar heldur sem listrænt og trúarlegt íhugunarferli er víðtæk áhrif hefur á þá sem sjá og reyna. 

Þriðja, fjórða og fimmta kvikmynd ,,Draumsins” eru nú sýndar í Bíói Pardís. Um er að ræða þvílíka menningarfjársjóði og trúar svalalindir, að allir sem láta sig varða andlega uppbyggingu og menningarverðmætti ættu ekki að láta þær framhjá sér fara í andvararleysi heldur leita þær uppi og svala sér á þeim til blessunar og gleði.

Það er sem nútíð og fortíð renni saman á Jakobsveginum enda koma við sögu sígildir íslenskir og evrópskir miðaldatextar sem tengjast veginum samhliða því að Thor finnst á stundum sem hann sé staddur inni í eigin bókaköflum. Hugarmyndin af íslenskum forfeðrum, sem fyrr gengu ,,veginn” skerpist og smám saman glæðir ,,ferðin”, sem er reyndar grunnstef í höfundarverki Thors, skynjun og næmi hans fyrir því, að pílagrímsgangan sé táknmynd lífsgöngunnar sjálfrar.

thor-3.jpg

Þriðja mynd ,, Draumsins” nefnist ,,Gengið til orða”.  Leið Thors liggur þar um spænsku hásléttuna. Kennari frá New York í kvikmyndahandritsskrifum, sem haldið hefur námskeið á Íslandi, verður á vegi hans og þeir hafa margt um að spjalla. Í Rannsóknarstofnun í ,,Jakobsfræðum” skilur Thor eftir bækurnar tvær, sem hann hefur burðast með í bakpokanum. Thor hrífst af dómkirkjunni í Leon, sem kallar fram minningar um ritstörf heima og upphaf rithöfundaferils hans í Frakklandi. Í León er einnig kirkja heilags Ísidórs frá Sevilla með konunglegri grafhvelfingu sinni, þar sem varðveist hafa rómaðar myndskreytingar frá miðöldum. Þær draga fram gildi myndlistarinnar í höfundarverki og listsköpun Thors. Gangan heldur áfram um sveitir Leónhéraðs þar sem mjög reynir á líkama og sál, svo að málarinn Vincent Van Gogh verður að íhugunarefni og bærinn Arles í Suður-Frakklandi, þar sem hann starfaði, en einnig hinn franski útgefandi Thors, Hubert Nyssen, sem Thor hitti að máli skömmu áður en hann fór í pílagrímsgönguna. Að lyktum stendur hann undir Járnkrossinum, hinu dulúðuga minnismerki Jakobsvegarins, þar sem pílagrímar skilja eftir steina að heiman.

Fjórða myndin nefnist ,,Lærisveinar vegarins”. Í þessum myndhluta kynnist Thor tveimur af frægustu sæluhúsahöldurunum við veginn, þeim Tómasi musterisriddara af Manjarín og Jesus Jato í Villafranca. Tómas gerir Thor að heiðursgesti í morgunandakt musterisriddarareglunnar, sem verður sérstæð reynsla fyrir skáldið. Í Villafranca tekur Thor þátt í víðfrægum helgisiðum/ritúali Jatos. Samkvæmt fornum venjum og kúnstarinnar reglum blandar Jato og hitar svokallaðan Queimada-drykk undir vökulum augum pílagríma sem komnir eru til að gista næturlangt í sæluhúsi Jatos. Hann kallar það ,,mystíska”/ launhelga altarisgöngu, þegar viðstaddir njóta drykkjarins sameiginlega. En þegar hér er komið sögu er heilsa Thors að bila og smám saman blasir það við, að áframhald pílagrímsgöngunnar er komið í óvissu. Thor þarfnast lækningar eigi hann að halda göngunni áfram, -vandkvæði og ,,krísa” - sem öldum saman hafa hrjáð margan pílagríminn. Vegferð Thors verður fyrir bragðið sú píslarganga hans sjálfs, sem úrslitum veldur um framgang ferðarinnar, en í draumsýnum þrautanna boðast jafnframt komandi lausn og fullnun hennar.

thor-vilhjalms.jpg 

Fimmti og síðasti hluti ,,Draumsins” hefst á dýradegi eða Kristslíkamahátíð í Benediktínaklaustrinu í Samos, sem er smábær í Galisíuhéraði í norðvesturhluta Spánar. Thor hefur náð heilsu á ný eftir veikindin sem hrjáðu hann í fjórða hlutanum og getur fylgt eftir ásetningi sínum um að ganga til grafar Jakobs postula í dómkirkjunni í Santiago de Compostela. Inn í gönguna fléttast tengsl hans við aðra pílagríma og íbúa Galisíu, minningabrot að heiman, auk þess sem kaflar úr skáldsögu hans, Morgunþulu í stráum (1998), líkt og lifna við ásamt textum úr íslenskum fornritum. En að því kemur, að pílagrímurinn sér turna dómkirkjunnar í Santíago horfa við sér ofan af Hæð fagnaðarins (Monde del Gozo) eins og hæð þessi nefnist í íslenskri miðaldaþýðingu. Við tekur inngangan í Santiagoborg, sem á öllum öldum hefur haft djúpstæð áhrif á pílagríma og hrært við tilfinningum þeirra. Pílagrímamessunni í Dómkirkjunni, þar sem Thor fær óvænt sérstætt og veglegt hlutverk, er lýst með magnþrungnum hætti.

Hver sá sem séð hefur kvikmyndastórvirkið ,,Drauminn um veginn” og hrifist af hlýtur að þakka og lofa og hvetja til þess að sem allra flestir fái notið þess og nærst af sem gagntakandi menningarlegri og trúarlegri reynslu.