Þegar ég vona, vænti ég einhvers af framtíðinni!

Þegar ég vona, vænti ég einhvers af framtíðinni!

Ég trúi því að Jesús gráti yfir framandleikanum, þegar hann sér að við erum orðin óttaslegin, hrædd, erum hætt að tala saman og hætt að vilja þekkja hvert annað og vita hvaðan við komum.

„Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir“ ¨ Ég veit ekki hvað varð þess valdandi í síðastliðinni viku að ég staldraði við þessa setningu eina og sér í guðspjalli dagsins sem fel í sér heilmikinn og þungann texta og býður í raun og veru upp á margvíslega vangaveltur frá ólíkum sjónarhornum. Það er einmitt svo dásamlegt við Biblíuna að það er hægt að lesa sama textann aftur og aftur og sjá alltaf eitthvað nýtt, skynja eitthvað nýtt sem vekur ákveðin hugrenningartengsl eða minningar.

Ég fór að hugsa um þessa setningu, af því að hún er svo merkileg og svo djúpvitur, að það er hægt að heimfæra hana upp á heilu þjóðirnar og ástand þeirra á hverjum tíma, samfélög, hópa og einstaklinga. Ég fór að hugsa þessa setningu út frá sjálfri mér og minni líðan og lífi og ótal margar myndir spruttu fram í hugann.

Ég veit ekki hve oft í lífinu ég hef lent í aðstæðum þar sem ég hugsa einmitt á þessum nótum, bæði eftir að ég hef kannski sjálf klúðrað hlutum og hugsað á eftir, hvers vegna í ósköpunum varstu að hræra í þessum polli og fundið hjá mér löngun til að lifa friðartímana góðu aftur, áður en ég setti ákveðna atburðarrás af stað sem ég sé jafnvel alveg dæmalaust eftir, af því að það fer svo mikil orka í að laga og bæta það sem úrskeiðis fer. Svo kann sama hugsun með ólíkum formerkjum að koma fram í hugann þegar áföll dynja yfir. Ég stend mig stundum að því eftir að móðir mín greindist með ólæknandi krabbamein fyrir rúmu ári síðan, að hugsa hvernig tímarnir voru áður en þessi vátíðindi dundu yfir okkur, hvernig lífið var áður en áhyggjurnar komu, áður en lífið varð allt í einu ekki sjálfsagt og kominn ákveðinn tímanleiki á lífshlaup mömmu, þó að við vitum öll innst inni af eigin tímanleika, þá verður það einhvern veginn verra þegar hann er orðinn svona sýnilegur og áþreifanlegur.

Þá kom þessi hugsun ósjálfrátt fram í hugann: Hvernig hefði ég lifað ef ég hefði vitað af því, að þetta myndi gerast, hefði það verið einhvern veginn öðruvísi. Hefði ég notið lífsins betur, hefðu áhyggjurnar verið minni, hefði ég passað upp á að hringja oftar, koma oftar í heimsókn, ekki verið að valda pirringi eða hefði ég jafnvel hagað mér betur sem unglingur, ekki verið að valda foreldrum mínum áhyggjum með alls kyns uppákomum sem fylgja unglingsárunum einum eða verið þægari sem barn.

Er einhvern tímann til sá dagur eða tímabil í lífinu, þar sem það er kyrrlátt eins og spegilslétt stöðuvatn í stafalogni sem ekki einu sinni gárar. Eða er friðurinn sem um er ræddur, einmitt ekki eins og spegilslétt vatn sem aldrei gárar. Þar sem reynsla hvers dags, góð eða slæm, í sorg eða gleði mótar friðinn sem textinn felur í sér.

Myndi maður haga lífinu sínu öðruvísi, ef maður vissi fyrirfram á ófriðartímum hvað til friðarins heyrir? '

Ég verð að viðurkenna að ég er enn svolítið hugsi yfir þessu og veit að það er ekki til neitt einfalt svar eða lausn. En ég fór á stúfana og fór að velta hugtakinu „friður“ fyrir mér í tilraun til að komast að einhverri niðurstöðu. Í hebreska texta þessa guðspjalls er hebreska heitið sem notað er yfir „frið“ hugtakið Shalom. Þegar það hugtak er skoðað kemur fram að það hugtak felur svo miklu meira í sér en einfalda hráa merkingu.

Í raun og veru er friðurinn sjálfur bara lítill hluti af merkingunni; Hugtakið er t.d. notað til að heilsa fólki og biðja því blessunar. Hebreskan er þannig að hvert orð felur meira í sér er hrein orðanna hljóðan, hvert hebreskt orð miðlar tilfinningu, ásetningi og virkri meðvitund, hvert orð er í raun og veru lifandi eining og þar sem er líf, þar er heilmikin virkni. Merkingin á bak við Shalom er heildstæður friður, að vera heil manneskja eða heilt samfélag. Eina leiðin til að finna hið sanna shalom er í gegnum Guð. Leiðin er ekki í gegnum veraldlega hluti sem veita stundaránægju, en ná ekki að fylla upp í gatið á sálinni, sem bara Guð nær að fylla. Veraldlegir hlutir hafa bara þær afleiðingar að gera okkur fjarlæg Guði og koma í veg fyrir að við finnum hinn sanna frið. Það er því ljóst að hugtakið shalom felur í sér blessun á svo mörgum sviðum lífsins og það er gott að hafa það í huga þegar rýnt er í þessa setningu sem að ég hóf þessa predikun:

„Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir“

Ég hef verið að lesa bók eftir guðfræðinginn Miroslav Volf sem heitir „A public faith“ How followers of Christ should serve the common good“.

Þetta er merkileg bók, sem ég á reyndar eftir að klára en hann kemur á ákveðnum stað bókinni nálægt þessum skilningi á hugtakinu shalom sem ég var að reifa hér áðan . Það er mjög áhugavert að sjá hvernig hann nálgast einmitt hugmyndina þegar hann fjallar um hvernig fólk á að blómstra í nútímanum. Hann kemur inn á þetta hvernig vestrænn heimur hefur fundið það upp að fullnægja í lífinu næst einmitt í gegnum það að hámarka ánægjuna og þá ánægju sem fæst í gegnum það að vera alltaf fullnægður á veraldlegan máta. Gott líf er veraldlega fullnægt líf. Síðan á móti ræðir hann hugmyndina um Guð sem uppsprettu allra gæða og mér finnst það einmitt harmónera við það sem felst í hugtakinu shalom, það er þetta litla gat á sálinni sem þarfnast huggunar, fróunar, friðar, sem þarnast Guðs. Það er þessi hugsun að í ótryggum heimi, þar sem allt er tímanum háð, þá sé fullvissa til um það að yfir mér sé vakað og ég sé ekki ein á ferð.

Og þegar sú hugsun er til staðar, þá ríkir ákveðinn heildstæður friður í sálinni, í lífinu og allt í kringum þig. Og þá gildir einu hvort um fríðartíma eða ófríðartíma í lífinu er að ræða. Þá er sálin heil. Þá ríkir shalom.

Það er svo margt í lífinu sem getur orsakað og valdið ófriði bæði í hinu opinbera rými og á einkasviðinu. Við erum einhvern veginn svo berskjölduð og hrædd sem manneskjur; Hrædd við að láta til okkar taka, hrædd við að hafa skoðanir; hrædd við mistök, vera ekki fullkomin, hrædd við að gleymast, týnast og hrædd við að deyja.

Það er í raun og veru á svo margan hátt erfitt að vera manneskja í nútímanum af því að álagið er svo mikið og í raun ríkir svo mikill undirliggjandi ófriður á svo margslunginn hátt í heiminum að við erum alltaf á verði fyrir hinu óvænta á sama tíma og við horfum upp á stríðsátök, trúarbragðadeilur og deilur á milli mannfólks um allt og ekkert, að það er auðvelt að fyllast vonleysi. Lausnin hjá mörgum er þá einmitt sú að ýta því sem er erfitt, óutskýranlegt og vont út úr almannarýminu, hætta að tala um það en með því myndast gap á milli fólks, þar sem siðir og menning verða framandleg og í slíku ástandi ríkir svo mikill ótti. Þegar við hættum að tala um hvaðan við komum, hver við erum, hvað það var sem mótaði okkur, siði okkar og venjur, að þá missum við hæfni til að tala saman og viðurkenna hvort annað. Framandleikinn myndar gat á sálinni, ófullnægju og ótta og getur vakið upp hjá manneskjum alls konar undarleg viðbrögð reiði og jafnvel grimmd.

Hluti að því að vera friðsælt og heilt samfélag felur í sér að við lærum að þekkja hvert annað, tölum opinskátt um það sem mótar okkur og á hvað við trúum eða trúum ekki. Með opinskárri umræðu lærum við að þekkja hvert annað, með fræðslu og kennslu lærum við að skilja hvert annað. Og í þeirri viðurkenningu myndast friður/shalom, bæði persónulegur og almennur. Þetta getur jafnvel skapað þannig ástand að jafnvel þó að við tölum ekki sama tungumál, komum frá ólíkum menningarheimum og trúarbrögðum, þá getum við mæst í þögninni, í sameiginlegri viðurkenningu á ólíkum ritúölum og siðum. Og þannig hverfur framandleikinn og friðurinn ríkir.

Svona ástandi er ekki náð sársaukalaust, en þannig er heildstæður friður, til að samfélög og manneskjur séu heilar, þá þarf oft aðeins að gára vatnið, stundum þarf töluverðan öldugang. Það krefst þess að við tölum saman, náum saman um það að við ætlum ekki að láta óttann við það sem við þekkjum ekki, sigra, heldur þora að hlusta, læra og elska hvert annað, sem þær manneskjur sem við erum fæddar af góðum guði til að vera. Að eiga þannig tækifæri í heiminum til að vera til.

Ég trúi því að Jesús gráti yfir framandleikanum, þegar hann sér að við erum orðin óttaslegin, hrædd, erum hætt að tala saman og hætt að vilja þekkja hvert annað og vita hvaðan við komum. Þegar við erum hætt að byggja brýr milli hvers annars. Hann vill að við séum heil, bæði sem samfélög, sem manneskjur og jafnvel sem heimur. Hann vill að sálin sé heil.

Eftir á að hyggja þegar ég hugsa um allt það sem fór í gegnum hugann við lestur þessarar setningar:

„Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir“

Er ég ekki viss um að ég hefði gert nokkuð öðruvísi ef ég hefði vitað allt sem ætti eftir að dynja á í lífinu, þó get ég aldrei vitað það með vissu, af því að sumt í lífinu er bara þess eðlis að við getum ekki haft fullvissu um það fyrirfram og ég er ekki viss um að maður eigi að festast í þessari hugsun, hvað ef og hefði ég gert eitthvað annað, ef og þá. Eftirsjá og fortíðarþrá er ekki af hinu góða, það kemur í veg fyrir framþróun og persónulegan þroska. En þessi setning getur líka samt sem áður haft þau áhrif að maður einmitt reyni að vanda sig, ekki alltaf vera að stíga í sömu drullupollana, að maður hugsi áður en maður framkvæmi, að maður reyni á hverjum degi að vera heil manneskja, koma vel fram við aðra og þannig smátt og smátt mun ríkja friður. Ef að allir legðu sig fram um þetta á hverjum degi, þá værum við á leið til betra samfélags, til betra lífs, til betri framtíðar. Við þerruðum þannig tárin, hver og ein manneskja í augum Jesú á hverjum degi. Framtíðin væri þannig daglega bjartari veruleiki og eitthvað til að hafa trú á.

Í framtíðarsýninni verður nefninelga líka að felast von og vonin er það máttugasta sem trúin felur í sér. Þegar gatið í sálinni er fyllt af góðum Guði, þegar sálin er heil, skapast um leið rými fyrir vonina.

Læt orð Miroslav Volf sem ég vitnaði í hér fyrir í ræðunni verða lokaorðin hér í dag en hann skrifarum hina kristnu von: „Vonin í kristnum skilningi er kærleikur sem teygir sig inn í framtíðina! Þegar ég vona, vænti ég einhvers af framtíðinni.“