Aðventuhugvekja

Aðventuhugvekja

Góðu fréttirnar eru aldrei sagðar. Sjö strákar hittu ótrúlega skemmtilegan mann í bænum. Það eru engin tíðindi. Þvert á móti er líklegt að búið sé að innprenta strákunum að forðast skemmtilega manninn, því hann getur ekki verið skemmtilegur nema að hann hafi eitthvað vafasamt í huga.

Ekki tala um stórar þjóðir og litlar þjóðir, útkjálka, heimshorn og jaðra. Þetta er hnöttur; miðjan hvílir undir iljum þínum og færist úr stað og eltir þig hvert sem þú ferð.

Hér er landið þar sem heimsálfurnar skrifast á í leit sinni að þögn og grjóti. Sjáðu jökulinn, hvernig hann vappar um blámann einsog ísbjörn á leið yfir heiminn. Í draumnum opnast dyr og myrkrið flæðir sem tár gegnum svefninn.

Hér er landið þar sem tíminn fellur einsog dagblað í gegnum lúgu, en það er enginn áskrifandi, ekkert rúm, aðeins hyldýpi þar sem stjörnurnar glitra. Þegar við sökkvum í fen næturinnar drögum við okkur upp á hárinu.

Vetrarbrautin er gata í litlu þorpi, örlögin net sem leggjast yfir húsin, við skálum með hafdjúpin á milli okkar.

Norðurljósin loga við stíginn. ...

Við brugðumst vel við og sýndum heimili okkar. Gesturinn hugsaði: Þið búið vel. Fátækrahverfin eru innra með yður.

Þannig yrkir sænska skáldið Tómas Tranströmer og má segja að þarna birtist sannleikur ljóðsins, sá lífskjarni þess sem engin svið önnur ná yfir. Enginn veit hvað gerir ljóðið að handhafa þess sannleika sem ekki er hægt að orða með öðrum aðferðum. Þar koma til töfrar tungumálsins. Ljóð verður til þegar hugsun og tilfinningar renna saman.

“Það er fátt fréttnæmt í ljóðum. Engu að síður deyja margir á ömurlegan hátt vegna skorts á því sem þar er að finna,” orti annað skáld, William Carlos Williams, sem líka var læknir og vissi nákvæmlega um hvað hann var að tala.

Það segir því meira um nútímann en ljóðið hve fáir leita það uppi. Það nýtur ekki mikils fylgis í skoðanakönnunum og það hefur lengi gengið atvinnulaust í þjóðfélagi yfirborðsmennskunnar. En þetta segir ekki alla söguna, því ljóðið vaknar við furðulegustu aðstæður og nær máli. Þú getur sagt að ég sé draumóramaður, en ég er ekki sá eini.

Svona gæti ég haldið áfram að prjóna, en hvað með fátækrahverfin? Búa þau innra með okkur? Hvernig mælum við slíkan viðskiptajöfnuð? Er mikil verðbólga í sársaukanum? Hver er kauphallarvísitala gleðinnar? Eða eigum við að spyrja: Hvað varð um umhyggjuna í ríkidæminu? Eigum við ekki alltaf að spyrja: Hvað myndi Jesús segja? Hvað myndi Jesús segja um launamun kynjanna? Hvað myndi Jesús segja um auðsöfnun fárra og allsleysi margra? Myndi Jesús segja að einhver maður gæti verið ólöglegur? ... Líklega er maður orðinn gamall þegar maður mætir í kirkjuna í hverfinu þar sem maður sleit barnsskónum og heldur ræðu. Ég get samt vitnað í samræður tveggja drengja úr skáldsögunni Vængjasláttur í þakrennum.

Ég: Óli hefurðu tekið eftir því hvað dúfurnar eru með litla hausa? Heldurðu að þær séu ekki með neinn heila? Óli: Nei þær eru með vængi. Til hvers ættu þær að vera með heila? Ég: Meinarðu að það sé betra að vera með vængi en heila? Óli: Ég held að það væri best að vera með vængi á heilanum.

Þessar samræður hafa smám saman orðið boðskapur minn. Ég er með öðrum orðum að segja að við þurfum skáldskap í líf okkar. Við þurfum anda. Við þurfum flug. Vængi á heilann. Leitin býr í hugarfluginu og hugarflugið í leitinni og allt gerist í veruleikanum. Fiskar og fuglar, vængir og sporðar; þar á milli er maðurinn, í öllum sínum myndum, á öllum tímum. En þó að tíminn hafi liðið finnst mér þetta allt hafa verið í fyrradag. Ég sé fyrir mér prestana, séra Árelíus og séra Sigurð Hauk einsog heilaga anda í veruleikanum. Fyrst var séra Árelíus einn og svo kom séra Sigurður Haukur og á milli þeirra ríkti samkeppni um sálirnar, ég hugsa að þeir hafi líka verið barnalegir á sinn hátt, séra Árelíus fylgdi bókstafnum og Biblíunni en séra Sigurður Haukur var á léttu nótunum og fylgdi tískunni, auk þess sem hann var andatrúarmaður. Annar hafði rétt fyrir sér í ritningunni en söfnuðurinn fylgdi hinum. Við sáum Gög og Gokke í kirkjunni, fengum popphljómsveit til að spila og það var jafnvel lesið upp úr vafasömum ritum. Samt kom þetta allt út á eitt. Við fengum okkar guð hjá þeim báðum. Í rauninni var kirkjan að breytast í félagsmiðstöð, enda ekkert við að vera fyrir okkur unglingana nema heimilið, gatan og sjoppurnar. Kirkjan og sjoppurnar voru félagsmiðstöð okkar og kannski íþróttabragginn við Hálogaland sem bresku hermennirnir reistu í stríðinu. Út úr honum streymdu íþróttahetjurnar en ég man aldrei eftir að það hafi verið kvartað undan aðstöðuleysi.

Ég hef líka löngum dvalið í huganum á þessum slóðum og að hluta til haft það að atvinnu. Það er að mörgu leyti gott starf, að lifa í minningunum og túlka þær, en það eru um leið kjarni menningarinnar, að viðhalda minningunni, gleyma ekki og skáldskapur er hin gleymda minning. En þó þannig sé í pottinn búið hefur ótrúlega margt breyst. Kirkjan er til að mynda margfalt stærri en söfnuðurinn samt talsvert minni. Þegar við vorum flest í Vogaskóla vorum við um 2000 nemendur en þjóðin var þá sögð vera 200000 sem þýðir að við vorum eitt prósent af þjóðinni og þá var ekki búið að finna upp ýmsar þær stofnanir sem börnum eru búin í dag. Þannig að segja má að tvö þúsund stjórnleysingjar, tvö þúsund sagnahetjur, ráfuðu um göturnar, og hver með sínu sniði, í hverri götu var eitt þorpsfífl og í sumum mörg. Ég var eitt af fíflunum og við vorum mörg fíflin sem spjöruðum okkur ágætlega og komum vel undan vetri, og flestir fengu gott veganesti að heiman. Ekki að mig langi að segja að allt hafi verið betra þá, því svo var ekki, en þegar litið er í baksýnisspegilinn blasir samt lítið annað við en óendanlegt frelsið. Við áttum fjöruna þar sem nú er gámahöfn, við áttum túnin þar sem nú eru verslanir. Okkar uppeldistofnanir voru skipin í slippnum, sjúklingarnir á kleppi, mennirnir á verkstæðunum, húsmæðurnar í búðunum, rakararnir á rakarastofunum og svo auðvitað foreldrarnir, prestarnir og kennararnir.

Við strákarnir fórum niður bæ að selja blöð. Bærinn var fullur af blaðsöludrengjum. Og hver og einn spjaraði sig sjálfur. Maður fór út um allt. Inn á skrifstofur, kaffistofur, lagera, inn á alls konar kaffihús sem ekki eru lengur til, og væru eflaust kallaðar sóðabúllur, niður í skipin þar sem hálf áhöfnin sat að drykkju og spilum. Þarna gekk maður fram og aftur, kjaftaði við mann og annan. Einhver gerði kannski grín að manni, en sá hinn sami var vís með kaupa þrjú blöð. Þessi barnaveröld, sem mér finnst hafa yfir sér einhvern frjálsræðisblæ, er óhugsandi í dag.

Og þar kemur óttinn til skjalanna. Í hverju geta börn ekki lent í dag? Það eru dópsalarnir, það eru barnaníðingarnir. Að hluta til er þessi ótti sameiginlegur dagskrárliður. Neikvæð atvik sem gerast eru af eðlilegum ástæðum blásin út í fjölmiðlum. En úr atvikunum verður til eins konar alhæfing, svipað og að allir flugþegar eru allt í einu orðnir mögulegir hryðjuverkamenn. Góðu fréttirnar eru aldrei sagðar. Sjö strákar hittu ótrúlega skemmtilegan mann í bænum. Það eru engin tíðindi. Þvert á móti er líklegt að búið sé að innprenta strákunum að forðast skemmtilega manninn, því hann getur ekki verið skemmtilegur nema að hann hafi eitthvað vafasamt í huga.

Hin forna speki um að maður sé manns gaman er í hættu á okkar dögum og það var hún þessi forna speki sem ég tók með mér úr hverfinu, úr þessum söfnuði, þessari kirkju, og ég mun aldrei gleyma því hlutverki mínu að miðla henni áfram. Það er einmitt sú speki sem ber að halda á lofti nú þegar aðventan fer í hönd og við göngum inn í myrkrið og lýsum það upp, inn í svartsýni hugans og bjartsýni viljans, dveljum við kertaljós minninga og samveru, íhugum gildin í lífinu og gefum lífinu gildi, og minnumst þess að við erum öll jöfn fyrir guði. Því lýk ég þessari hugvekju minni á orðum fangans úr skáldsögu minni Rimlar hugans en hann segir:

Það mætti halda að ég sé byrjaður í guðfræði, því guð er að kenna mér margt þessa dagana. Ég meðtek af fullum krafti, læri og læri, en guð er ekkert að velta því fyrir sér hvar hann ber niður, í hvaða kennslustofu. Hann ruglar Litla-Hrauni auðveldlega við guðfræðideild háskólans og gerir engan greinarmun á mér og biskupnum.

Takk fyrir.