Bræður munu berjast

Bræður munu berjast

Samt hömpum við ekkert endilega körlum dag hvern, við látum okkur hafa að segja opinberlega og kinnroðalaust að þeir hafi litla tilfinningagreind, kunni ekki á þvottavélar og séu réttdræpir.
fullname - andlitsmynd Yrsa Þórðardóttir
13. mars 2011
Flokkar

Kristur mér auk þú enn elsku til þín er sálmur sem fjallar um ástarsamband okkar og Guðs. Elska er kannski ekki orðið sem við notum oftast nú til dags um ást, og oft er talað um kærleika þegar Guð er annars vegar, það þykir svona betur við hæfi en ást, af einhverjum orsökum.

En textar dagsins fjalla óneitanlega um tilfinningar, meting, virðingarstiga, gjöf og fórn og móttöku, höfnun og annað, afbrýðisemi, morð og synd. Það verður spennandi að takast á við þetta allt.

Tilefnið er upprisuhátíð Jesú Krists. Við komum alltaf saman á sunnudögum í kristnum kirkjum til að minnast sigurs lífs á dauðanum, vegna þess að frelsari okkar reis upp á sunnudegi. Í ljósi þess sigurs lífsins, viljum við lesa alla okkar ritningartexta, biðja okkar bænir og borða saman kleinur, það er okkar guðsþjónusta og svar okkar við ást Guðs.

Svo að við byrjum á að taka fyrir bróðurmorðið, varð Kain hræðilega afbrýðisamur þegar Guð tók fegins hendi við fórn Abels en fúlsaði við fórn Kains. Ritskýrendur allra alda hafa brotið heilann um hvað það var við gjafir þessara bræðra sem fékk Guð til að taka þeim ekki á sama hátt. Bent hefur verið á að Guði sé þóknanlegri sláturfórn en akuryrkja, eða að Kain gaf bara einn ávöxt en Abel eitthvað tvennt, sumsé af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra. En þegar ég fer einu sinni sem oftar í smiðju til franska sálgreinisins Marie Balmary, setur hún setningarnar upp hlið við hlið, orð fyrir orð, til að greina mismuninn. Hann er þarna, það er eignarfornafn.

Kain færði Drottni fórn af ávexti jarðarinnar. Abel færði Drottni fórn af frumburðum hjarðar sinnar og feiti þeirra.

Með öðrum orðum, Abel tók við gjöf Guðs, því láni að fá að vinna og gleðjast yfir velgengni og ávöxtun síns fjár, hann eignaði sér afraksturinn og gaf Guði hlut með sér í vel heppnuðu starfi. Kain hinsvegar tók einhverja ótilgreinda ávexti og fórnaði Guði.

Guð fór þá að spyrja Kain út í þetta, eins og til að segja: Elsku Kain minn, ef ég tek við þessari gjöf, reynist ég þér ekki góður Guð, því að þá gæti þér skilist að mér sé þóknanlegt að þú vinnir firrandi vinnu, þar sem þú átt ekki hlutdeild í höfuðstólnum eða afrakstri, þar sem þú bara vinnur án starfsánægju og bara geldur mér skatt en eignar sjálfum þér ekki neitt. Syndin situr um þig Kain og getur gert þig að samfélagslegum þræl sem enga ást átt til bróður þíns, sjálfs þín eða mín, viltu ekki hugleiða þetta og taka höndum tveim það sem ég gaf þér? Viltu ekki verða samverkamaður minn, samskapandi Guðs og Abels og foreldra þinna, Adams og Evu. En nei, Kain vildi það ekki heldur bara drap Abel.

Guðspjall dagsins er í sama dúr. Bræður að berjast, þ.e. lærisveinar, að metast um hver þeirra sé mestur. Jesús leit væntanlega ekki í velþóknun til þeirrar deilu heldur drap henni á dreif með einum af sínum óvæntu líkingum. Að vanda sneri hann öllu á hvolf, þar sem hin síðustu verða fyrst og hin fyrstu síðust, þar sem aðeins börn geta skilið flókin guðfræðihugtök, þar sem konur mega meðtaka hin dýpstu sannindi um Guð og þar sem þjónar eru æðri húsbændum. Ég er á meðal ykkar eins og þjónninn, sagði Jesús.

Hvað var Jesús lengi búinn að reyna að útskýra þetta fyrir þeim, svona eins og Guð átti orðastað við Kain forðum daga? Hvað var ekki Jesús búinn að upphugsa margar óvæntar sögur og nýja fleti til að útskýra hið óútskýranlega: þjónustan við Guð er ekki falin í þrælsótta og fórnum heldur í ást og gleði. Guð er eins og forrík húsfreyja sem felur allt sitt í hendur heimilisfólki sínu, fer svo í fjarlægt land og er þar býsna lengi. Svo kemur hún dag einn í heimsókn og vonast til að allir hafi ávaxtað sitt pund, eignað sér gjöfina og séu orðin frjáls og sjálfráða. Þetta var sagan um talenturnar sem við höfðum til umfjöllunar á konudaginn. Í dag er það sagan um metinginn.

Við metumst, við mismunum fólki, borgum körlum oftast hærri laun en konum og flokkum fólk eftir húðlit, útliti, eignum og ýmsu sem okkur dettur í hug hverju sinni. Samt hömpum við ekkert endilega körlum dag hvern, við látum okkur hafa að segja opinberlega og kinnroðalaust að þeir hafi litla tilfinningagreind, kunni ekki á þvottavélar og séu réttdræpir. Þetta síðasta kemur kannski á óvart en hvernig á að lesa annað út úr fréttum af styrjöldum þar sem tiltökumál þykir ef börn og konur deyja en ekki endilega karlmenn. Reyndar er skilgreiningin önnur, verið er að tala um óbreytta borgara, börn og konur og karlmenn sem eru ekki hermenn, svo kemur næsti hópur við, þessi réttdræpi, karlar sem eru hermenn.

Við þekkjum það aðeins úr fjarska hér, barnunga karlmenn í bíómyndum eða heimildamyndum, sem sendir voru í skotgrafir fyrri heimsstyrjaldar, flugvélar síðari heimstyrjaldar, regnskóga Víetnam og eiturhernað eyðimerkur í Kuwait. Er allt í lagi með okkur að líta svo á karlmenn að það megi siga þeim á aðrar þjóðir, senda þá út í opinn dauðann eða öruggan sigur og láta þá snúa aftur hafandi tortímt heilu byggðunum?

Þekking okkar á ómskoðun, flugi, kjarnorku og svo mörgu öðru kemur úr þessum stríðum því að þá loksins var lögð nótt við nýtan dag að finna upp þeyssi leyndarmál og þróa, til að hægt yrði að drepa sem flesta. Þekking okkar og nútímatækni er frekar byggð á bróðurmorðinu en gleðilegum gjöfum okkar til Guðs.

En sem betur fer varð einnig til annars konar reynsla í stríðum sem við erum enn að heyra um í útvarpinu. Í Líbýu er t.d. verið að hjúkra hlið við hlið samverkamönnum Gaddafis og uppreisnarmönnum. Rauði Krossinn og AFS, American Field Service, spruttu upp úr hjálparstarfi og samningastarfi óbreytts fólks sem fór um vígvelli og hjúkraði og hlynnti að öllum, sama hvert erindi þeirra var á vígstöðvum. Síðar spruttu upp hliðargreinar af þessu hjálparstarfi, sem er mikið kennd í öllu MBAnámi og stjórnmálafræðum, sem eru pælingarnar sem af því hljótast að hitta á einum stað fólk af gerólíkum uppruna. Ég vann við það um sex ára skeið í Evrópuráðinu að tala mörg tungumál í einu með frjálsum félagasamtökum ungs evrópsks fólks sem vildi breyta heiminum og þurfti til þess að yfirvinna fordóma og misskilning, því að það er ekki sama hvernig maður talar við hvern, það fer eftir uppruna hvers og eins hvernig hann eða hún skilur það sem sett er fram. Þegar við sem unnum þessa vinnu í Evrópuráðinu fórum að taka saman í hefti frumtextana í fræðunum sáum við okkur til mikillar undrunar og blendinnar gleði að rekja mátti þá aftur til stríða og til kaupahéðna sem vildu hafa gagn af óvininum eða óþekkta fólkinu, selja þeim varning sem þau þurftu kannski ekki, eða komast að því hver þau voru til að nota sér kunnáttuna. Við þóttumst svo göfug, við vorum að eigin mati að stuðla að friði, einingu, lýðræði og mannréttindum. Þau voru að hugsa um hernað og græðgi.

En friðsamleg samfélög okkar hér í Evrópu byggja á arðráni þriðja heimsins að fornu og nýju. Þrælasala þá og nú, barnaþrælkun, kaup á nýrum og börnum og öllu því sem er falt, er nauðsynlegur hluti þess að við getum fengið allt sem við viljum, jarðarber í janúar og ódýra vöru. Við ættum nú að skilja hann Kain sem fannst auðveldara að stúta Abel en að ræða óþægilega hluti við Guð.

Við metumst um hvert okkar á að ráða, hver á að fá hæstu launin og sitja í viðhafnarsæti. Finnst okkur réttlátt að karlar gjaldi fyrir það með lífi sínu að fá hærri laun? Eiga þeir þá að vinna firrandi vinnu, vera í fremstu víglínu, standa frammi í stafni, stýra dýrum knerri, halda svo til hafnar, höggva mann og annan? Segjum við eins og spartneska móðirin þegar sonur hennar sagðist eiga styttra sverð en hinir, farðu þá feti framar sonur sæll.

Við ætlum að syngja fallega sálminn hennar Eyglóar Eyjólfsdóttur Mjúka mildings höndin þín, sem vísar til mýktar og ástar og örlætis þess konungs sem Guð getur verið í okkar lífi. Þetta er einn af uppáhaldssálmum Kvennakirkjunnar enda er lagið fallegt og orðin einnig og góð tónlist og skáldskapur geta unnið stórvirki í ómeðvitund okkar, svo að við komumst nær Guði. Tónlist almennt dvelur stundum í fylgsnum hjarta okkar og mér koma oft lög og textar í hug við ýmis tilefni og átta mig svo á því að oft er það hending í laginu sem mér dettur í hug sem kemur upp um eitthvað sem ég er að hugsa ómeðvitað. Slíkur er textinn sem ég fann í barnasöngbók sem ég handlék á dögunum þegar ég ætlaði að segja öldruðum í Digraneskirkju frá dálæti mínu á Strassborg og veru minni þar. Bókina keypti ég í guðfræðibókabúðinni í Strassborg og þar eru Alsacelög, ýmisskonar, á frönsku, þýsku og Elsassmáli. Eitt lagið sem heitir Signir sól sérhvern hól á íslensku, finnst mér svo hræðilegt á þýsku því að það var notað einu sinni í bíómynd um nasista og sýnt hvernig hitlersæskan var uppbyggð og hvernig börn hurfu upp á fjallstind í útilegu, en vísað var til barna sem hurfu almennt í dauðann í sama stríði. Svo skoðaði ég lagið og sá að textinn er lang tí frá óhugnanlegur, en kemur við móðurhjartað, því að Hans litli ætlar út í hinn stóra heim og mömmu hans finnst það auðvitað sorglegt en vonar að allt fari vel og Hans komi til baka. Líður og bíður og sjö árum síðar snýr til baka myndarlegur vöðvastæltur sólbrúnn karlmaður en enginn þekkir hann, hvorki systir hans né þorpsbúar, þar til móðir hans sér hann, segir sisona, Hans, mein Sohn! Auðvitað fagnar hún syni sínum og þekkir hann aftur, eitthvað annað en sorgleg kveðja móðurinnar í Spörtu.

Þannig þurfum við finnst mér að þekkja aftur karlemennina sem fara frá mæðrum sínum til að verða fullorðnir. Við verðum að kannst við þá, vita að þeir eru upprunnir í okkar menningu, afsprengi hennar. Þeim ber vernd og ást, rétt eins og börnum og mæðrum. Við höfum lofað að virða mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna á friðartímum og í stríði, þar sem rétturinn til að giftast og kvænast, njóta lista, tómstunda og menntunar er sjálfsagður. Það á við karla og konur á öllum aldri, réttinn til að fá aðstoð við að fara í bað og sækja skóla, réttinn til að eigna sér starfið sitt og gleðjast af því.

Rétturinn til að vera karlmaður eða kona felur ekki í sér réttinn til virðingarsætis umfram annað fólk, en það felur í sér skýlausan rétt til virðingar, ástar og staðfastrar verndar réttarríkisins, af því að við ákváðum það saman.

Þessi bleika messa er enn eitt tákn um aðild okkar að samfélagi þjóðanna. Við erum kristin, við fögnum upprisu frelsara okkar og alla þessa viku sem nú er að hefjast ætlum við að berjast fyrir því að karlar njóti sannmælis, fái að vera á lífi, þeim sé ekki att út í miskunnarlausa hringiðu klikkaðs vinnumarkaðar þar sem tilfinningar eru bannvara. Við skuldbindum okkur til að þekkja þá sem bræður okkar og samherja, syni, feður, frændur og elskaða og virta menn. Við kappkostum að koma auga á þeirra bræðraþel og sjónarmið og útréttu hjálparhendur við að sníða og smíða nýjan heim þar sem fullt jafnrétti ríkir. Ekkert af þessu mun takast nema við hlustum á Guð og tökumst á við óþægilegu þankana sem Kain vildi ekki tala um. Við höfum samfélag kristins fólks, kirkjurnar okkar, skólana, vinnustaði og heimili og við getum tekið fram skruddurnar sem kaupahéðnarnir skrifuðu um brýr á milli menningarheima. Ísland er fjölþjóðlegt samfélag þar sem töluð eru mörg tungumál og fólk trúir á Guð, eða engan eða ekkert eða aðra guði en við. Öll saman ætlum við í bleikum anda að finna ráð til að elska hvert annað og virða. Meiri hluti þessarar þjóðar er í þjóðkirkjunni, frjálsum félagasamtökum í sífelldri siðbót. Tökum öll virkan þátt í störfum kirkjunnar, styrkjum hana og bætum, svo að við megum öll gæfu af hljóta. Amen.