En lærisveinarnir ellefu fóru til Galíleu, til fjallsins sem Jesús hafði stefnt þeim til. Þar sáu þeir hann og veittu honum lotningu. En sumir voru í vafa. Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ Mt. 28,16-20Tvisvar á ári er kristniboð í brennidepli í starfi kirkjunnar. Annars vegar á hvítasunnu á vorin þegar við minnumst úthellingar heilags anda og hins vegar á kristniboðsdegi á haustin. Í dag er kristniboðsdagur íslensku Þjóðkirkjunnar. Með þessum degi vill Þjóðkirkjan vekja okkur upp, minna okkur á og ýta við okkur: Við erum kölluð til að vera kristniboðskirkja, að fara og bera ávöxt.
Afríka á sunnudegi Í dag kemur fólk saman í þúsundatali á starfssvæði íslensku kristniboðanna í Eþíópíu og Keníu. Kirkjubyggingarnar eru misjafnar frá einum stað til annars. Margar eru þær hrörleg hús á íslenskan mælikvarða, moldarveggir og bert bárujárn án nokkurrar klæðningar. Bekkirnir eru sums staðar einfaldir trjábolir eða vel valdir steinar sem okkur þætti ágætt að tylla okkur á en ekki að sitja á í nokkrar klukkustundir. Sums staðar eru engir veggir og ekkert þak. Söfnuðurinn kemur saman undir tré til að fá skuggann og skjól fyrir brennheitri sólinni. Margir eru þessir söfnuðir ungir og fólkið fátækt.
Ytri umgjörð kirkjunnar er frábrugðin dýrum og fallegum kirkjubyggingum á Íslandi. En innra líf safnaðanna er kröftugt og mikið. Fólk er ekki komið á staðinn til að njóta visarveranna heldur til að eiga samfélag saman. Vissulega þrá þau að eiganst sína eigin kirkju, helst rúmgóða og fallega kirkju. Vonandi rætist sú þrá og sums staðar höfum við geta rétt söfnuðunum hjálparhönd í því efni. En kirkjan er söfnuðurinn og samfélagið. Þar sem komið er saman og hlustað á Guðs orð, beðið saman, Drottinn lofaður og tilbeðinn. Reyndar ekki við orgelleik heldur við taktfastan hljóm trommunnar, „kirkjuorgels“ Afríku.
Gestir sem heimsóttu okkur í Keníu og fóru með okkur í guðsþjónsutu höfðu orð á því hversu mikið líf væri í starfi kirkjunnar. Var það augljóst á vikulegri samkomu safnaðarins. Þar er sungið svo undir tekur. Þar er beðið af öllu hjarta og sál. Þar tekur safnaðarfólk til máls og talar um trú sína og hverju hún hefur breytt í lífi þess. Þar er gleypt við hverju orði. Þar er ekki kvartað þó svo setið sé í þrjá, fjóra og jafnvel fimm tíma – enda þurfa margir að komast að. Reyndar hjálpar það að fólk skuli hreyfa sig og jafnvel hoppa og dansa þegar sungið er. Einn gestanna sagði: „Þetta er frábært, hér fer maður í kirkju og líkamsrækt í leiðinni!“
Vitnisburðir fólksins eru margir einfaldir enda þarf ekki mörg orð til að segja að Jesús sé frelsari manns, að áður hafi vonleysi og andlegt myrkur bugað mann, ákveðnir siðir fjötrað mann, drykkjan eyðilagt mann og fjölskylduna og svo framvegis. En það er ekki aðalatriðið, heldur að Jesús fyrirgefur syndir, hann gefur nýtt líf í samfélagi og samfylgd við sig. Við erum ekki ein og yfirgefin. Vonin sem Jesús gefur er bæði fyrir þetta líf og hið komandi. Andspænis dauðanum erum við ekki lengur í óvissu, óttaslegin og hrædd. Jesús lifir og gefur eilíft líf, supon nyo po kokai, á pókotmáli, uzima wa milele á swahíli.
Að heyra þessa vitnisburði, að sjá gleðina sem skín úr augum fólksins og að fá að taka þátt í gleðinni af öllu hjarta – það er gleði kristniboðans – og allra sem standa að baki þessu góða og mikilvæg starfi.
Jesús og við öll Kirkjur hér á landi eru merktar með krossi. Víðast hvar í Afríku er því eins farið. Þar eru krossarnir yfirleitt málaðir utan á kirkjuna og innan á. Oft er notast við efni sem fæst úr náttúrunni til að búa til málningu. Fólk vill merkja kirkjuna sína og hún á að vera falleg í takt við efni og ástæður.
Krosstáknið bendir okkur á dauða Jesú og minnir okkur á hann í hvert skipti sem við sjáum það.
Krossinn bendir okkur á kærleika Guðs. Kærleikur Guðs birtist skýrast í Jesú Kristi, lífi hans, dauða og upprisu. Þann kærleika þurfum við að færa öðrum sem þekkja hann ekki. Um það snýst kristniboðsstarfið: Að leiða fólk á fund Jesú, að fólk læri að biðja til hans, treysta honum og lifa fyrir hann og með honum. Að fólk sjái og finni að Jesús lifir, er nálægur frelsari sem þekkir okkur, elskar og leiðir. Að allir fái að vita að við megum og getum beðið til hans öllum stundum.
Annað sjónarhorn á dauða Jesú er að hann fórnaði sér með dauða sínum á krossi. Hann var staðgengill okkar og tók á sig það sem var okkar, bresti okkar, mistök, brot okkar, meiðandi orð, illar hugsanir og annað sem skemmt hefur samband okkar við annað fólk og við Guð. Við höfum öll eitt og annað að skammast okkur fyrir ef við erum hreinskilin. En Jesús mætir okkur í kærleika sínum með opinn faðm.
Yfirgnæfandi elska og kærleikur fjarlægir alla skömm, sekt og synd. Við megum vera upplitsdjörf, því að við eigum Jesú að. Hann er með okkur, gengur við hlið okkar. Fyrir flestum í Afríku er hugsunin um fórn fyrir synd lykilatriði og eitthvað sem allir kannast við, þó svo við höfum týnt þeirri hugsun okkar á meðal. Meðal flestra þjóðflokka eru skýr ákvæði og reglur um hvernig skuli fórna og hverju. Oft er það seiðmaður sem sér um þann þátt lífsins. Margir hafa greitt mikið, fórnað miklu.
Einn af þekktustu söngvurum Tansaníu, Munishi, söng um allar fórnirnar fyrir nokkrum árum. Ég heyrði þennan söng fyrst á ferð með langferðabíl á leið til Nairobi þar sem söngurinn hljómaði hátt og skýrt um alla rútu. Munishi lýsti því hvernig hann fórnaði, bæði hænsnunum sínum, geitunum sínum, nautinu sínu og var í fjötrum fórnanna orðinn bláfátækur – þangað til hann kynntist Jesú, sem fórnaði sjálfum sér í eitt skipti fyrir öll, greiddi allt sem greiða þurfti og frelsaði hann. Nú þurfti hann ekki að fórna sjálfur.
Berum ávöxt Til að við sjáum þörfina á að segja öðrum frá Jesú þurfum við sjálf að þekkja hann, eiga þetta nána góða samband og samfélag við hann. Þá úthellir Guð kærleika sínum til annarra í hjörtu okkar og fyllir okkur löngun til að breiða hans ríki út um heim. Þau sem hafa þegið vilja gefa. Þau sem hafa eignast lífið með Jesú vilja að aðrir fái tækifæri til að eignast það líka. Jesús kallaði lærisveinana og sagði fyrst: Fylg þú mér – og bætti síðan við: Og ég mun gera ykkur að mannaveiðurum. Allt byrjar hjá Jesú.
Í lexíu dagsins, texta Gamla testamentisins, er talað um að ausa með fögnuði úr lindum hjálpræðisins. Það eru lindir Guðs, lindir fyrirgefningar, lindir nýrrar vonar, lindir kærleikans – það eru lindir Jesú Krists. Í framhaldinu segir:
Og á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottin, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið í minnum, að háleitt er nafn hans. Lofsyngið Drottni, því að dásemdarverk hefir hann gjört. Þetta skal kunnugt verða um alla jörðina.Leyfum Jesú að tala til okkar, að snerta við okkur. Leyfðum Guði að fá það rými sem hann þráir og er eiginlega hans, því hann er skapari okkar. Játum Jesú sem Drottin okkar og frelsara. Þar hefst kristniboðsstarfið því þar er kristniboðshugarfarið. Við sungum áðan í barnasálminum: „Mér gott barn gef að vera og góðan ávöxt bera…“ og „það ætíð sé mín iðja að elska þig og biðja…“ Líf kristins manns er að elska Guð og biðja og bera ávöxt Jesú í lífi okkar. Til slíks lífs erum við skírð. Meðal annars berum við ávöxt með þátttöku okkar í kristniboðsstarfinu. Það hefur borið ríkulegan ávöxt á akrinum á liðnum 50 árum. Sem dæmi má nefna að til kirkjunnar í Konsó í Eþíópíu teljast tæplega 40 þúsund manns, til kirkjunnar í Pókot í Keníu teljast um 20 þúsund manns. Drottinn hefur blessað starfið ríkulega. Tæplega 40 íslenskir kristniboðar hafa verið við störf í Afríku á liðnum 50 árum. Í kærleika Krists hefur tugþúsundum verið sinnt á heilsugæslustöðvum og spítölum og 70 skólar verið byggðir í Keníu. Þér er boðið að vera þátttakandi í þessu starfi með fyrirbæn og umhyggju í verki.
Jesús sagði: Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum… skírið… Enn vorum við minnt á þessa köllun í upphafi guðsþjónustunnar þegar barn var borið hér til skírnar og fært Jesú.
Leyfum Jesú að leggja þessa ábyrgð á herðar okkar. Hann vill að ég og þú berum ávöxt. Í því verki hefur hann lofað því að vera með okkur, alla daga, allt til enda veraldar.
Prédikun í Lindasókn á kristniboðsdaginn, 11. nóvember 2007