Hvar eru vígðu konurnar?

Hvar eru vígðu konurnar?

Á síðastliðnu hausti kom nýkjörið kirkjuþing saman í fyrsta skipti. Á nýju kirkjuþingi hefur konum í hópi kirkjuþingsfulltrúa fjölgað úr tæpum 29% í 34,5%. Þetta verður að telja veruleg aukning, sérstaklega í ljósi þess að aðeins ein kona sat á kirkjuþingi á árunum 1998 - 2001.

Á síðastliðnu hausti kom nýkjörið kirkjuþing saman í fyrsta skipti. Á nýju kirkjuþingi hefur konum í hópi kirkjuþingsfulltrúa fjölgað úr tæpum 29% í 34,5%. Þetta verður að telja veruleg aukning, sérstaklega í ljósi þess að aðeins ein kona sat á kirkjuþingi á árunum 1998 - 2001. En fleira verður að teljast athyglisvert, þegar bornar eru saman tölur um kynjasamsetningu þessa nýkjörna kirkjuþing og þess sem kosið var vorið 2002. Þegar niðurstöður þessara tveggja kirkjuþingskosninga eru skoðaðar ber að hafa í huga að heildarfjöldi fulltrúa jókst úr 21 í 29 á milli kosninga.

Hvar eru vígðu konurnar? Þegar fjöldi leikra kvenna er skoðaður þá kemur í ljós að jafnvægi er nú náð á milli kynjanna í hópi leikra fulltrúa. Konur eru nú 8 af 17 kirkjuþingsfulltrúum og hefur fjölgað úr 25% í 47% á milli kjörtímabila. Þetta er frábær árangur, ekki síst þar sem engar leikar konur sátu á kirkjuþingi frá 1999 til 2001. Þegar hins vegar kynjahlutfallið í hópi vígðra fulltrúa er skoðað kemur í ljós að konum hefur fækkað í hópi vígðra fulltrúa, eða frá því að vera 3 af 9, í það að vera 2 af 12, eða úr rúmum 33% niður í tæp 17 %. Þetta er um helmings fækkun í þessum hópi á milli kjörtímabila, sem er verulegt áhyggjuefni, sérstaklega þar sem vígðum fulltrúum fjölgaði á þessu þingi um alls 3 fulltrúa, auk þess sem konum í hópi vígðra þjóna kirkjunnar hefur fjölgað jafnt og þétt á undanförnum árum (eins og biskup minnti á í synodusræðu sinni á nýafstaðinni prestastefnu). Í kosningum til kirkjuráðs á síðastliðnu kirkjuþingi var sama upp á tengingum og í kosningunum til kirkjuþings, en konum fækkaði í kirkjuráði úr 2 í 1 á milli kjörtímabila. Engar vígðar konur sitja nú í kirkjuráði. Það sem er alvarlegast í þessari kosningu til kirkjuráðs, er að með henni braut kirkjuþing gegn ríkjandi stefnu kirkjunnar í jafnréttismálum, stefnu sem það sjálft samþykkti átta árum áður. Því hlýtur að vera eðlilegt að spyrja: Getur verið að vígðir þjónar kirkjunnar treysti ekki konum úr sínum hópi?

Jafnréttisáætlun kirkjunnar, sem var samþykkt á kirkjuþingi haustið 1998 og tók gildi 1. janúar 1999, var mikilvægt skref í átt til aukins kynjajafnréttis í íslensku þjóðkirkjunni. Í jafnréttisáætluninni er lögð áhersla á fimm málefni. Eitt þeirra er að stuðlað sé að því að „jafna aðild kynjanna að nefndum og ráðum og yfirstjórn kirkjunnar.“ Eins og þegar er komið fram þá sat ein kona (sem kom úr hópi vígðra) á kirkjuþingi þegar jafnréttisáætlunin tók gildi. Fyrsta jafnréttisnefnd kirkjunnar tók til starfa í upphafi árs 1999 og hafði það hlutverk að vinna að framgangi nýrrar jafnréttisáætlunar innan kirkjunnar. Jafnréttisnefndin setti strax á oddinn að vinna að fjölgun kvenna á kirkjuþingi. Til að ná því markmiði lagði hún í mikið kynningarstarf á innihaldi jafnréttisáætlunarinnar í prófastsdæmunum. Og árangurinn lét ekki á sér standa, en konum fjölgaði úr 1 fulltrúa í 6, eða úr tæpum 5% í tæp 29% í kirkjuþingskosningunum vorið 2002.

Í þessu ljósi vekja niðurstöður kosninganna vorið 2006 blendin viðbrögð. Á meðan við hljótum að fagna fjölgun leikra kvenna, þá veldur vonbrigðum sú mikla fækkun sem orðið hefur á vígðu konunum í hópi kirkjuþingsfulltrúa. Reynslan hefur sýnt að jafnrétti kynjanna er ekkert sem gerist af sjálfu sér. Það er með öðrum orðum ekkert náttúrulögmál hér á ferðinni. Hvað varðar stöðu vígðra kvenna innan íslensku þjóðkirkjunnar vil ég leyfa mér að fullyrða að síðustu kirkjuþings- og kirkjuráðskosningar séu stórt skref aftur á bak, á leiðinni til jafnrar stöðu kvenna og karla innan kirkjunnar okkar.

Eins og kemur fram í jafnréttisáætluninni þá ber að skoða jafnrétti kvenna og karla innan kirkjunnar í samhengi við boðskap Krists um grundvallarjafnrétti allra barna Guðs. Hér er því ekki um að ræða undirlægjuhátt við pólitískan rétttrúnað, heldur öllu heldur trúfesti við fagnaðarerindið sem kennt er við Krist. Af þeim sökum hefur staða jafnréttismála innan kirkjunnar óhjákvæmilega áhrif á trúverðugleika hennar. Það er því grafalvarlegt mál þegar á sama tíma og konum fjölgar á meðal vígðra þjóna kirkjunnar fækkar þeim í yfirstjórn kirkjunnar. Það er ljóst að það er til lítils að hafa góða og framsækna jafnréttisáætlun ef ekki er starfað í anda hennar. Hér berum við öll ábyrgð, en meiri ábyrgð eftir því sem ofar dregur í valdapíramída kirkjunnar. Þó að kosningar til kirkjuþings séu leynilegar þá er mikilvægt að þau sem kjósa finni til þessarar ábyrgðar og kjósi í samræmi við afgerandi stefnu kirkjunnar í jafnréttismálum. Sömuleiðis er það ábyrgð kirkjuþings við kosningu kirkjuráðsfulltrúa að sjá til þess að kynjajafnrétti ríki í valdamestu stofnun kirkjunnar. Ef að þetta hefur eitthvað vafist fyrir kirkjuþingsfólki á síðastliðnu hausti þá legg ég til að þau dusti rykið af jafnréttisætluninni og rifji upp þau skýru ákvæði sem þar er að finna og kirkjan hefur sett sér varðandi jafnrétti kvenna og karla, Upphafsorð jafnréttisætlunarinnar lýsa vel þeim anda sem hún er skrifuð í. Þar segir:

Jafnréttisáætlun kirkjunnar er ætlað að marka leiðir í átt til þess að þjóðkirkjan verði stofnun og samfélag sem geti með sanni mælt af reynslu: „Guð fer ekki í manngreinarálit.“ „Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð öll eitt í Kristi Jesú.“ Og þetta á ekki að vera orðin ein, heldur raunveruleiki, viðurkenning manngildis og jafnréttis allra jarðar barna og lifandi viðmiðun sem áminni, ákæri, leiðbeini og leiðrétti kirkjuna þegar hún fer afvega.“
Til þess að ná þessum háleitu markmiðum þarf kirkjan, allir þegnar hennar, þjónar og valdastofnanir, að vinna markvisst og einhuga. Öðruvísi verðum við aldrei það samfélag sem við erum kölluð til að vera.