Hugleiðing um heillaráð

Hugleiðing um heillaráð

„Unglingar sem stunda reglulega íþróttir eða annað skipulagt æskulýðsstarf eru síður líkleg til neyslu fíkniefna,“ er eitt heillaráðið sem haldið er á lofti í tengslum við Forvarnardaginn 2006. Þessa fullyrðingu geta eflaust flestir tekið undir og þeim sem eiga unglinga er án efa mjög mikið í mun að þeir taki þátt í einhverju slíku.
fullname - andlitsmynd Sigurður Grétar Sigurðsson
28. september 2006

„Unglingar sem stunda reglulega íþróttir eða annað skipulagt æskulýðsstarf eru síður líkleg til neyslu fíkniefna,“ er eitt heillaráðið sem haldið er á lofti í tengslum við Forvarnardaginn 2006.

Þessa fullyrðingu geta eflaust flestir tekið undir og þeim sem eiga unglinga er án efa mjög mikið í mun að þeir taki þátt í einhverju slíku. Reyndar er hægt að snúa þessu á hvolf og halda því fram að unglingur sem líklegur er til fíkniefnaneyslu sé ólíklegri til að taka þátt í skipulögðu íþrótta- eða æskulýðsstarfi en ella.

Hvers vegna skyldu sumir unglingar leiðast út í fíkniefnaneyslu? Er það vegna þess að þau mættu ekki á íþróttaæfingarnar eða í félagsstarfið? Eða er það e.t.v. frekar vegna dýpri ástæðna sem leynast í sálarlífi þeirra? Er um einhverja spennufíkn og forvitni að ræða eða flótta frá raunveruleikanum? Ekki hef ég s.s. gert sértaka vísindalega könnun á því en ég held því fram að í yfirgnæfandi meirihluta er um verulega brotna sjálfsmynd að ræða og gjarna brotinn bakgrunn þó vissulega sé enginn óhultur fyrir „fíkniefnadjöflinum“. Fræðimenn hafa haldið því fram að unglingar með ofvirkniröskun séu í meiri áhættuhóp en aðrir. Ofvirkniröskun er einkum líffræðilegt fyrirbæri en tengist ekki uppeldi þó uppeldi og gott utanumhald skipti sköpum varðandi meðferð við ofvirkni.

Ég set þessi orð ekki á blað til að rugla lesendur í rýminu heldur frekar til að benda í stuttu máli á hversu flókið þetta getur verið. Hvað er orsök og hvað afleiðing. Margir foreldrar eru uppfullir af sjálfsásökun ef barnið þeirra villist af beinu brautinni. Stundum er ástæða til en stundum alls ekki. Saklausustu grey geta fallið í þá gryfju sem eiturlyfjasalar reyna miskunnarlaust að grafa. Á einni helgi getur líf unglings umsnúist og allt hans gildismat farið á hvolf.

Hvað er það við íþrótta- og æskulýðsstarf sem hefur hið raunverulega forvarnargildi? Ég held því fram að þar sé að finna hæfilega áskorun fyrir marga unglinga, félagslega viðurkenningu, aga, umhyggju, skemmtun, gleði, tilfinningalega útrás, sjálfsskoðun, öryggi og festu. Allt þetta styrkir sjálfsmynd viðkomandi sem hlýtur að skipta höfuðmáli þegar unglingurinn stendur frammi fyrir því að segja já eða nei. Enginn svarar fyrir hann. Þessu held ég fram af áralangri reynslu af vinnu með unglinga á kirkjulegum vettvangi í söfnuðum eða sumarbúðum. Þess vegna skiptir líka svo miklu máli að þeir sem bera ábyrgð á málaflokknum leggi ríka áherslu á að hæfir leiðbeinendur sem eru sterkar fyrirmyndir starfi að þessum málum hvort heldur sem er innan kirkjunnar, íþróttafélaga, félagsmiðstöðva eða hvar sem unglingar koma saman. Allir þessir aðilar eru einskonar stoðkerfi fyrir heimilin og með samstilltu átaki eru miklar líkur á því að hægt sé að vernda ungmenni fyrir fíkniefnavánni og hjálpa þeim að standa með sjálfum sér svo þau geti óhikað sagt NEI.