Ég geng við hliðina á þér

Ég geng við hliðina á þér

Mig langar sérstaklega að hvetja ungt fólk áfram, til að nýta og njóta allra hæfileika sinna og halda í stóru draumana sína. Undanfarin tvö ár hafa ekki verið draumadagar fyrir alla en það er alltaf von og í framtíðinni býr hún ekki síður en í nútíðinni, svo við skulum ekki gefast upp.
fullname - andlitsmynd Toshiki Toma
26. september 2010
Flokkar

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“ Þeir gátu engu svarað þessu. Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“ Lúk 14.1-11

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.

1. Guðfræðingur og fyrrum prófessor Union prestaskóla, dr. Kósuke Koyama sagði: ,,Það sem ógnar helst friði í heiminum er græðgi og sjálfsdýrkun manna en hvorttveggja er tengt skurðgoðadýrkun“. Græðgi felst í því að setja peninga eða veraldlega hluti sem peningar geta keypt í Guðs sæti. Sjálfsdýrkun er að taka sér vald að setjast sjálfur í Guðs sæti. Í gegnum sögu mannkyns hafa þessir tveir lestir, græðgin og sjálfsdýrkunin, birtist reglulega .

Ástæður bankahrunsins á Íslandi og afleiðingar stöfuðu að mörgu leyti af græðgi og sjálfsdýrkun fólks. Í kjölfarið sáum við aftur og aftur háttsett fólk detta úr söðli sínum í pólitíska heiminum, í viðskiptaheiminum og jafnvel kirkjunni okkar. Sum tilfelli má rekja beint til kreppunnar, önnur eiga sér aðrar rætur. Hvort sem er, þegar við sjáum fólk sem var í stjórnunarstöðum og var vel virt missa allt sitt, þá getum við ekki forðast að skynja skelfinguna sem felst í örlögum þessa fólks og spyrja okkur hvað þetta þýðir fyrir okkur sjálf. Við þurfum að endurskoða hvað velgengni í rauninni er.

Nú skulum aðeins hugleiða málið almennt og leiða hjá okkur það fólk sem hefur verið mikið í fréttum. Við skulum fyrst og fremst reyna að komast að því hvort það sé siðferðislega rangt eða á móti kenningu Biblíunnar að manneskja reyni að komast í stjórnunarstöðu í ákveðinni atvinnugrein. En áður en við leitum að svarinu, hugsum hvernig maður getur náið til stjórnunarstöðu.

Hér verðum við að skoða tvennt. Í fyrsta lagi samfélagslegu hliðina. Vestur- Evrópubúar og ekki síst Íslendingar hafa búið til samfélag sem hefur ákveðna stjórnskipan. Þessi skipan er oftast eins og stigi og manneskja verður að ganga upp stigann og ná upp í ákveðið þrep til þess að komast í stjórnunarstöðu. Höfum því í huga að til þess að komast í stjórnunarstöðu þarf fólk væntanlega að fara í gegnum ákveðið ferli í samfélagsskipan eins og hér er lýst. Við teljum stundum, fyrir misskilning, að samfélagsskipan eins og okkar sé sjálfgefin en það er ekki rétt. Enn í dag búa margar þjóðir við nánast enga fastmótaða samfélagsskipan. Fólk notar þá vopn, ofbeldi, svarta peninga eða það nær völdum með öðrum óheiðarlegum háttum. Samfélagskerfi okkar er vitaskuld ekki fullkomið, en það er samt ,,skipan“ til staðar í samfélaginu.

Í öðru lagi skulum við huga að því sem við getum nefnt persónulegu hliðinni. Ef manneskju langar að færast ofar í þjóðfélagsstiganum, þá þarf hún yfirleitt að leggja eitthvað á sig. Ef manneskja stefnir á hærri stöðu en almennt gerist, þá þarf hún jafnvel að beita sér enn meira. Þá verður að vera til staðar sterkur vilji og innri hvöt auk töluverðs sjálfstrausts, annars myndi hún gefast upp á leiðinni. Jákvætt viðhorf í eigin garð er ekki aðeins mikilvægt heldur nauðsynlegt. Við getum ef til vill sagt að íslenska samfélagið með sína ,,skipan“ sé opið almenningi og að sérhver maður geti átt möguleika á að láta drauma sína rætast, ef maður vill það sterkt, þótt samfélagið sé ekki fullkomið. 2. Að mínu mati er það alls ekki slæmt að manneskja gerir það að markmiði sínu að komast í stjórnunarstöðu, gerir jafnvel eitthvað gott fyrir fólk, breytir samfélaginu til hins betra, nýtur lífsins sem mest og lætur drauma sína rætast. Mig langar sérstaklega til að hvetja ungt fólk áfram, til að nýta og njóta allra hæfileika sinna og halda í stóru draumana sína. Undanfarin tvö ár hafa ekki verið draumadagar fyrir alla en það er alltaf von og í framtíðinni býr hún ekki síður en í nútíðinni, svo við skulum ekki gefast upp.

Margir telja að kristin trú kenni okkur að vera alltaf hógvær í okkar lífi. En að vera hógvær er ekki það sama og finnast lítið til sín koma. Að lifa í auðmýkt er ekki það sama og að vera óvirkur í lífi sínu. Guð gefur sérhverju okkar köllun og verkefni lífsins. Ef við viljum svara almennilega kölluninni frá Guði og taka verkefnið að okkur, þá þurfum við að efla sjálfstraust okkar og vinna með það. Það er jafnvel stundum nauðsynlegt að standa upp og segja: ,,Já, ég er hér til þess að sjá um þetta verkefni!“ Það er mikilvægt að lifa lífi sínu á virkan hátt.

Jakob glímdi við Guð og óskaði eftir blessun til sín. (1Mós.32:23-33) Jesaja stóð upp og sagði Guði: ,,Hér er ég, send þú mig!“ (Jes.6:1-6) Kanversk kona óskaði eftir miskunn Jesú fyrir dóttur sína svo sterklega og hún þoldi að kalla sjálfa sig hund. (Mat. 15:21-28) Biblían kennir aldrei að við eigum að lifa lífi okkar á óvirkan hátt eða hafa minnimáttarkennd. Líf okkar er dýrmætt og það á skilið að því sé lifað. Við erum Guðsbörn og sérhvert okkar er einstakt. Það er allt annað mál að við erum syndarar og getum ekki notið lífsins án náðar Guðs. Við skulum ekki blanda þessu tvennu saman.

3. Guðspjall dagsins felur í sér tvo atburði. Fyrsti atburðurinn er spurning um hvíldardag og hvort hann eigi skýlaust að halda heilagan. Jesús sá mann, á hvíldardag, sem hafði verið með vatnssjúkdóm lengi. Jesús spurði, meðvitað, lögvitringa og farísea sem voru í staðnum: ,,Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“ (Lk. 14:3) og læknaði manninn. Ég kem að því síðar hvers vegna Jesús gerði þetta. Annar atburðurinn var áminning Jesú í veislu sem Jesú var boðið í. Þar sá Jesús að margir gestanna reyndu að ná í gott sæti hjá matarborðinu og kenndi lærisveinunum sínum: ,, ... Set þig ekki í hefðarsæti.... Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða“. (Lk.14:10-11)

Þessir tveir atburðir líta ekki út fyrir að tengjast saman fyrir utan það að þeir gerðust á sama daginn, en þeir gera það samt. Í stuttu máli sagt, fjalla báðar uppákomur um sjálfsdýrkun manna og græðgi sem fylgir henni. Uppákoman um lækningu á hvíldardeginum varðar sjálfsdýrkun í samfélags- og trúarlegu kerfi en uppákoman í veislunni varðar þá sjálfsdýrkun sem býr inni brjósti hvers manns.

Skoðum fyrst atburðinn lækningar á hvíldardegi. Lögmál gyðinga voru mikilvæg fyrir samfélagsleg skipun þeirra. Lögin um hvíldardag voru á meðal æðstu laganna. Jesús braut þau meðvitað. Hann gæti hafa læknað sjúklinginn að loknum hvíldardeginum en hann kaus að lækna hann strax á staðnum. Af hverju? Virtur guðfræðingur Karl Barth segir þetta um hvíldardaginn: ,,Allar gjörðir manna eru stöðvaðar með hvíldardegi og þannig viðurkenna menn takmörk sín“. Barth segir að hvíldardagur hafi verið settur sem tákn um að menn eru menn en ekki Guð. Þess vegna mátti ekki vinna á hvíldardögum og Guði var tileinkaður dagurinn.

Engu að síður, gerðu prestar gyðingadóms og farísear hvíldardaga að tækifærum, þar sem þeir gátu stoltir sýnt hve hlýðnir þeir voru Guði. En þegar manneskja byrjar að njóta trúarlegrar sjálfumgleði á þennan hátt, þá er manneskjan þegar fallin í sjálfsdýrkun. Með tímanum verður Guð bara skreyting og manneskjan situr sjálf í sæti Guðs. Jesús sá þessa hættu meðal lögvitringanna og faríseanna, og því hann braut lögin um hvíldardag. Skilaboðin voru þau: ,,Menn geta ekki sett Guð í samfélagskerfi og takmarkað hlutverk hans“. Reyni menn gera slíkt jafnvel ómeðvitað, er það upphafið að sjálfsdýrkun manna. Hvíldardagurinn varðaði samfélagskerfi gyðinga og áminning Jesú fólst í að vara við hættunni á trúarlegri sjálfumgleði og um leið sjálfsdýrkun.

Í veislunni var Jesús hins vegar að höfða til okkar innri manns. Við erum sífellt að meta fólk persónulega og raða því jafnvel upp eftir mikilvægi þeirra. Þetta á við t.d. hverjum við bjóðum í afmælisboð eða til hverjum við sendum jólakort. Við metum mannkosti fólks, sem við þekkjum ekki líka á örskotsstundu eftir útliti þess eða upplýsingum sem við fáum eins og hvort viðkomandi sé ríkur, frægur og svo framvegis. Um leið miðum við okkur við annað fólk og reynum að meta hvar við stöndum í þessu ,,mat“-boði. Hvar og hvernig stend ,,ég“ sjálfur meðal annarra? Tel ég mig eiga hefðarsæti skilið? Eða á ég að velja sæti á almenningnum?

Jesús segir: ,,... Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða“. En ekki misskilja orð Jesú hér. Málið er hvorki hvaða sæti við skulum velja handa okkur sjálfum né hvort við skulum þykjast að vera hógbær. Skilaboðin Jesú eru þau: ,,Hið persónulega mat mannanna gildir ekki í Guðs ríki. Mat á manneskjum jarðar í Guðs ríki er búið til af Guði en ekki mönnum“. Ef við, manneskjur á jörð, byrjum að hugsa eins og mat okkar gildi einnig í Guðs ríki eins og sem það stendur, þá er það líka byrjun sjálfsdýrkunar.

Jesús braut niður sjálfsdýrkun sem hafði birst annars vegar í lögum um hvíldardaga og hins vegar í hegðun manna í veislu. Það sem tilheyrir Guði tilheyrir Guði, en ekki okkur mönnum. Hér er lína sem við eigum ekki að stíga yfir.

4. Ég sagði áðan að það er eitt að lifa lífi sínu á virkan hátt og njóta lífsins, það er annað að lifa lífi sem syndari en samt með náð Guðs og við skulum ekki blanda þessu tvennu saman. Að njóta lífsins er alls ekki á móti lífi manneskju sem viðurkennir synd sína og iðrast frammi fyrir Guði. Það sem við verðum að gæta að er sjálfsdýrkunin. Og græðgi sem fylgir henni. Sjálfsdýrkun birtist í lífi okkar, bæði í samfélagslegum samskiptum og í persónulegum samskiptum. Hún reynir að tileinka sér það sem tilheyrir Guði, stig af stigi í leyni, þangað til að hún situr að lokum í sæti sjálfs Guðs. Sjálfsdýrkun er skurðgoðadýrkun af því að hún dýrkar sjálfa sig sem er ekki Guð, sem Guð. Sjálfsdýrkun er að ljúga að sjálfum sér.

Að þessu leyti er sjálfsdýrkun aldrei í samræmi við að njóta lífsins, af því að manneskja getur aldrei notið lífsins fullkomlega þegar hún lýgur að sjálfri sér. Til þess að njóta lífsins þurfum við að vera sátt við okkur sjálf. Við erum ekki fullkomin, því við höfum bæði kosti og galla. Það er jákvætt þegar við reynum að nýta góðu eiginleika okkar til fullnustu annars vegar, og reynum að bæta úr göllum hins vegar. En til þess þurfum við að þekkja okkur sjálf og vera einlæg. Við erum ekkert meira eða minna en við erum. En að vera við sjálf kemur ekki sjálfkrafa, heldur. Við þurfum að nota og njóta hæfileika okkar og lífsins, og samtímis þurfum við að vera meðvituð um synd okkar og þakka Guði fyrir náð sem hann gefur okkur gegnum Jesú Krist. Þegar okkur tekist þetta, verðum við ,,við sjálf“ og það er sönn velgengni fyrir okkur.

Tomihiro Hoshino er þekktur kristinn maður í Japan, en hann er málari og ljóðaskáld. Hann var íþróttakennari en lenti í slysi þegar hann var enn ungur. Líkami hans lamaðist allur og þannig hefur hann lifað í 40 ár. Tomihiro tók kristna trú eftir að hann lamaðist. Hann lærði að mála með penna í munni og yrkja á rúmi á spítalanum. Hér er eitt ljóð eftir hann:

Eftir ég mætti þér hætti ég að ganga í miðju vegar Miðjan er fyrir þig Ég geng við hliðina á þér

Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú. Amen.