Getur það verið?

Getur það verið?

Mikil umfjöllun hefur verið undanfarna daga um stöðu samkynhneigðra gagnvart hjónbandinu. Þjónar kirkjunnar eru töluvert margir sem styðja frumvarp um ein hjúskaparlög sem liggur nú fyrir Alþingi. Þetta eru lög sem þingheimur mun að öllu óbreyttu samþykkja þar sem þverpólitísk sátt ríkir um þau.
fullname - andlitsmynd Arna Grétarsdóttir
07. maí 2010

Fjörur

Mikil umfjöllun hefur verið undanfarna daga um stöðu samkynhneigðra gagnvart hjónbandinu. Þjónar kirkjunnar eru töluvert margir sem styðja frumvarp um ein hjúskaparlög sem liggur nú fyrir Alþingi. Þetta eru lög sem þingheimur mun að öllu óbreyttu samþykkja þar sem þverpólitísk sátt ríkir um þau. Þessu fagna ég í mínu kristna hjarta. Fagna því að sjá kristið fordómaleysi, hugrekki, kærleika og réttlæti endurspeglast í lagasetningu hins háa Alþingis.

Það eru ekki allir sammála mér í fögnuði mínum. Það er m.a vegna þess að kristnar manneskjur aðhyllast mismunandi biblíutúlkun. Sú biblíutúlkun sem ég aðhyllist og gengur út á að lesa heilaga ritningu í ljósi Jesú Krists hugnast ekki öllum. Þessa aðferð vil ég kalla skuggsjár aðferð því hún viðurkennir það að við höfum ekki alla þekkingu á vilja Guðs, aðeins þeim sem Jesús birtir. Sumir notast við biblíutúlkun sem flokkar helst ekki textann í heilagri ritningu og lítur minna til samhengis þeirra eða textarannsókna. Þessi aðferð kallast bókstarfs aðferð því hver bókstafur skal hafa sama vægi þrátt fyrir allar mótsagnir. Hér sýnist mér að gert sé ráð fyrir að öll þekking á Guðs vilja sé opinber.

Sú aðferð sem ég nota við lestur á Orði Guðs leiðir mig að þeirri niðurstöðu að ég sem kona get verið prestur þrátt fyrir að ég geti fundið ritningarstaði sem túlka megi á annan veg.

Sú aðferð sem ég nota við lestur heilagrar ritningar leiðir mig að þeirri niðurstöðu að ég sé samkynhneigð sem hluta af Guðs góðri sköpun.

Sú aðferð sem ég nota við lestur Biblíunnar leiðir mig að þeirri niðurstöðu að ég get sem prestur gefið saman í hjónaband fráskilda einstaklinga og skrifað upp á sáttavottorð þegar samband er farið að valda vanlíðan, traust brotið og velferð barna ógnað.

Getur verið að þau sem nota aðra aðferð við lestur biblíunnar en ég, geti samt sem áður komist að sömu niðurstöðu?

Svo virðist vera á Íslandi, nema þegar kemur að afstöðu gagnvart samkynhneigð. Í allri guðfræðilegri umfjöllun í Noregi, sem ég hef kynnt mér, gengur þetta ekki upp. Þau sem aðhyllast ekki þá biblíutúlkun að lesa alla texta í ljósi Jesú Krists, þ.e þau sem lesa með bókstarfs aðferð geta ekki litið á mig sem prest því ég er kona. Þau geta ekki samþykkt að hjónaskilnaðir séu í sumum tilfellum til heilla og líta svo á að samkynhneigðir hafi syndugra eðli en gagnkynhneigðir og verði því að afneita kynhneigð sinni eða í það minnsta þurfi lækningar við. Bókstafs aðferðin svokallaða nær ekki að leiða til mismunandi niðurstöðu í þessum dæmum sem ég tek í guðfræðilegri umræðu í Noregi.

Getur verið að á Íslandi sé ekki allt sagt, að í guðfræðilegum efnum sé ekki allt uppi á borðinu, það kraumi eitthvað undir niðri, skoðanir sem fá ekki að heyrast nema í þröngum hópi, skoðanir sem fá aðeins útrás í umræðunni um kynhneigð. Skoðanir sem myndu varpa skýru ljósi á allt samtal síðustu ára um samkynhneigð innan kirkjunnar.

Getur verið að einhvern langi til að snúa við mér bakinu þegar ég tala af því að ég er kona?

Getur verið að einhver komi ekki til messu til mín þegar að það er altarisganga af því að ég er kona og því ekki fullgildur prestur?

Getur það verið að einhverjum finnist að biskupinn minn hafi framið helgispjöll þegar hann vígði mig til hins heilaga prests- og predikunarembættis af því að ég er kona?

Getur það verið?

Og getur það verið að allar skoðanir eigi rétt á sér?

Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis.(1.Kor.13.12a)