Póstkort frá Haití

Póstkort frá Haití

Maya hjálpaði mér að sjá meira en það sem er augljóst. Hann hjálpaði mér að sjá hvað það merkir að þjóna náunga okkar. Hann var nefnilega með okkur í Jacmel þegar jarðskjálftinn reið yfir. Í fjóra daga einbeitti hann sér að því að halda okkur gangandi, ásamt félaga sínum, Verbo.
fullname - andlitsmynd Halldór Elías Guðmundsson
19. janúar 2010

Jarðskjálftinn í Haiti - mynd: http://www.flickr.com/photos/37913760@N03/4274632760/

Maya eða Luckner Fond-rose, eins og hann heitir víst, er ein af þessum manneskjum sem við flest hittum allt of sjaldan. Einlæglega yfirvegaður og rólegur hvað sem á dynur og ég endurtek: Hvað sem á dynur. Ég hafði heyrt um hann frá sameiginlegum vinum. Að hitta hann var mjög merkilegt. Það fyrsta sem ég tók eftir voru rákirnar á ofanverðu höfðinu. Þegar hann var fjögra ára var hann sendur til ættingja í höfuðborginni, þar sem fjölskyldan gat ekki séð fyrir honum. Hann var hafður sem þræll á heimili ættingja sinna, sá um þrif, borðaði afganga og svaf á gólfinu um nokkurra ára skeið. Hann fékk enga skólagöngu. Þegar hann var tólf ára varð honum á að kaupa ranga tegund hrísgrjóna þegar hann fór á markaðinn. Eigandinn höfuðkúpubraut Maya og í kjölfarið flúði hann út á götu.

Sagan hans er lengri og segir frá því hvernig hann komst í kynni við hreyfingu sem hjálpaði honum að fá menntun og gaf honum tækifæri til að nýta stjórnunar- og skipulagshæfileika sína. Hvernig götustrákur varð ástfanginn og eignaðist konu og dóttur.

Hann stýrir í dag heimili fyrir andlega fötluð börn ofan við höfuðborgina, tekur virkan þátt í stjórnun hjálparsamtaka sem styðja við verkefni í landinu og hefur nýlega tekið þátt í að þróa fræðsludagskrá í nálægum strandbæ fyrir „resteviks“ eða barnaþræla, þar sem þeir koma einu sinni til tvisvar í viku til að læra lestur, skrift og stærðfræði.

Maya hjálpaði mér að sjá meira en það sem er augljóst. Hann hjálpaði mér að sjá hvað það merkir að þjóna náunga okkar. Hann var nefnilega með okkur í Jacmel þegar jarðskjálftinn reið yfir. Í fjóra daga einbeitti hann sér að því að halda okkur gangandi, ásamt félaga sínum, Verbo. Maya leiddi okkur í gegnum svarta myrkur í Jacmel nokkrum klukkustundum eftir jarðskjálftann, fyrst að heimavistarskólanum sem hreyfingin sem hann starfar með rekur og síðar, þegar fréttir komu um að SÞ hefðu sett upp neyðarsvæði við flugbrautina, hjálpaði hann okkur þangað. Hann svaf með okkur á flugbrautinni, dvaldi með okkur á hótelinu sem SÞ útveguðu og hjálpaði okkur að sjá og skilja hvað var í gangi.

Ég spurði hann nokkrum sinnum um fjölskyldu hans, ég vissi að hann hafði áhyggjur. Hann sagði mér einfaldlega að þetta væri erfitt, en hann gæti ekkert gert fyrir þau. Hann kæmist ekki til Port au Prince og það væri engar fréttir að hafa. Á hinn bóginn gæti hann hjálpað okkur að komast burt heil á húfi og það hygðist hann gera. Ef kona hans og dóttir væru látnar, gæti hann ekkert gert í því og ef þær væru á lífi hefðu þær tengsl sem myndu getað hjálpað þeim. Það er erfitt að skrifa hvernig vonin í rödd hans skein í gegnum orðin, meira að segja orðið erfitt fól í sér von. Ég hugsaði að þetta gæti ég aldrei skilið.

Á föstudeginum fékk ég síðan tölvupóst í iPhoninn minn frá Colorado í Bandaríkjunum. Skilaboðin voru skýr:

Tell Maya that his wife and child are safe!

Þar sem ég stóð í anddyri SÞ hótelsins í Jacmel og las bréfið sá ég að Maya stóð við hlið mér. Ég hikaði andartak og velti fyrir mér hvort ég ætti að lesa bréfið fyrir hann, en ákvað að rétta honum símann og leyfa honum að lesa sjálfum. Það var stórkostlegt að sjá brosmilt andlitið taka kipp. Hann kallaði hópinn okkar saman og sagði: „Pastor Chad just e-mailed. My wife and child are safe!“

Þegar þetta er skrifað hefur Maya enn ekki komist til að hitta konuna sína og dóttur. Hann hefur samt heyrt í þeim nokkrum sinnum í síma og veit að þau eru örugg. Eftir að hafa fylgt okkur sjóleiðis til Dóminikanska lýðveldisins, tekur hann nú virkan þátt í að stýra flutningum á neyðargögnum sjóleiðis frá Dóminikanska lýðveldinu eftir strönd Haití til bæjarins Jacmel, í samráði við bæjaryfirvöld í Jacmel og með stuðningi Haiti Timoun Foundation.

Mynd: