Samkirkjulegt starf

Samkirkjulegt starf

Það er gríðarlega mikilvægt að kristið fólk snúi bökum saman á okkar tímum. Þar er bænin grundvallaratriði. Hún sameinar kristið fólk um víða veröld. Hún er stórkostlegt tæki sem Guð hefur gefið okkur, enda er hún oft nefnd andardráttur trúarinnar.
fullname - andlitsmynd Bjarni Þór Bjarnason
27. janúar 2009

Nú er alþjóðleg samkirkjuleg bænavika nýafstaðin. Af því tilefni er gott að leiða hugann að samkirkjulegi starfi yfirleitt. Mikilvægi þess er óumdeilt, enda sagði Jesús að kristið fólk ætti að vera eitt í samfélaginu við sig. Samkirkjulega bænavikan er góður vettvangur til þess að stuðla að þessari einingu. Við það tækifæri sameinast kristið fólk í bæn og beiðni ásamt þakkargjörð. Það finnur fyrir þessari samsemd þrátt fyrir að tilheyra mismunandi kirkjudeildum, sem hver hefur sínar áherslur. Samsemdin birtist í samfélaginu sem fólkið á við hvert annað í tilbeiðslunni. Á heilagri bænastund skiptir ekki máli hvaða kirkjudeild við tilheyrum. Aðalatriðið er að eiga trú á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn.

Jesús sagði, að í húsi föður hans væru margar vistarverur. Hann sagði aldrei að við ættum að vera nákvæmlega eins í tjáningu trúar okkar. Við erum ólík og einnig trúartjáning okkar. Í þessu sambandi hefur kirkjudeildunum stundum verið líkt við akreinar á vegi. Þessar akreinar liggja hlið við hlið. Allar mynda þær sameiginlega þennan veg sem liggur til eilífa lífsins. Samræður og samstarf á milli kirkjudeildanna hafa verið í gangi áratugum saman. Þjóðkirkjan hefur tekið virkan þátt í þessu starfi. Hún er þátttakandi í Alkirkjuráðinu og Lútherska heimsambandinu. Þá starfar hún náið með anglíkönskum söfnuðum bæði í Evrópu og Norður-Ameríku.

Það er gríðarlega mikilvægt að kristið fólk snúi bökum saman á okkar tímum. Þar er bænin grundvallaratriði. Hún sameinar kristið fólk um víða veröld. Hún er stórkostlegt tæki sem Guð hefur gefið okkur, enda er hún oft nefnd andardráttur trúarinnar.

Í síðustu viku átti ég þess kost að taka þátt í samkirkjulegum alþjóðlegum biblíuleshópi í Reykjavík. Það var ánægjuleg reynsla. Í hópnum eru háskólanemar frá Bandaríkjunum, Kanada, Englandi og Þýskalandi. Þeir eru meðlimir fimm mismunandi kirkjudeilda, en allir voru þeir eitt í samfélaginu við Jesú Krist. Þetta er samkirkjulegt starf eins og það gerist best. Ungt fólk sem lætur ekki mismunandi guðfræðilegrar kennisetningar trufla sig. Í þessum biblíuleshópi eru þau samhuga í trúnni á Jesú Krist, sem er líka það sem skiptir öllu máli.