Kvennahlaup

Kvennahlaup

Minnumst einnig þeirra sem styðja okkur enn í dag og eru okkur fyrirmyndir. Konur sem á einhvern hátt tengjast ættu að nota þetta tækifæri til að hittast og hreyfa sig saman til góðs. Hvetjum hvor aðra og styðjum.
fullname - andlitsmynd Guðbjörg Arnardóttir
14. júní 2012
Flokkar

Allar konur í Ísrael komu hlaupandi til að sjá Júdít og þær blessuðu hana og sumar dönsuðu henni til heiðurs. Sjálf tók hún laufstafi sér í hönd og gaf konunum sem með henni voru. Bæði hún og hinar konurnar settu upp ólífuviðarsveiga. Júdít dansaði fremst í flokki kvennanna, sem fóru fyrir. Júditarbók 15.12-13

Kvennahlaup 2001Víða um land hlaupa konur í Kvennahlaupi ÍSÍ og er markmið þess að hvetja og styðja konur á öllum aldri til aukinnar heilsueflingar. Mér varð hugsað til þessarar myndar af því tilefni. Myndin er tekin í Kvennahlaupinu 2001, þar er ættmóðirin, amma mín, Ágústa Þórhildur Sigurðardóttir ásamt nokkrum af barnabörnum sínum. Saman hlupum við og gengum í hlaupinu þetta ár, ég fylgdi ömmu alla leiðina og var ég ótrúlega stolt af henni því aldrei kvartaði hún þó ég hefði áhggjur af því að þetta væri henni of erfitt. Fyrir rúmi ári síðan missti ég báðar ömmu mínar með nokkra daga millibili. Ég minnist þeirra með virðingu og þakklæti fyrir svo ótal margt sem þær gáfu mér. Ég var svo heppin að hafa alist upp með þær báðar í nánasta nágrenni svo þær höfðu mikil áhrif á líf mitt. Á seinni árum var svo gott að finna stuðning þeirra þegar þær fylgdust alltaf með því sem ég var að gera, sýndu því áhuga og hvöttu mig áfram. Þær gátu líka látið í sér heyra ef þeim mislíkaði eitthvað og vildu leiðbeina mér. Ég sagði þeim aldrei með berum orðum hversu vænt mér þótti um þær en ég lagði mig fram um að eiga með þeim samverustundir og fyrir þær eru ég þakklát. Eftir að ég tók vígslu sem prestur var amma eitt sinn í heimsókn í Odda, hún var búin að baka með mér pönnukökur og við sátum úti í garði í sólskini. Ég rauk síðan til og hengdi út á snúru, amma horfði vandlega á mig og sagði svo bæði með stolti og glettni: ,,Ég hef aldrei áður séð prest hengja út á snúru, ” svo hlóum við. Fáum finnst það kannski merkilegt að sjá prest hengja út á snúru nú til dags en vissulega fannst ömmu það merkilegt af því að presturinn var kona og konan var barnabarnið hennar. Ég hugsa til margra kvenna sem höfðu ekkert val hvað varðar lífshlaup sitt og gengu inn í hefðbundin hlutverk sem þeim voru ætluð, það var sannarlega í þeirra verkahring að hlaupa út á snúru og hengja upp þvottinn en ekki að verða prestar sem hengdu út á snúru. Margar báru harm sinn í hljóða vegna þess að geta ekki gengið í hvaða verk sem var vegna þess að þær voru konur. Á þeim var brotið og þeim kennt að þær væru ekki þess verðar eða aldrei veitt tækifæri til þess að sinna sömu hlutverkum eða störfum og karlar. Reglulega verðum við að minna okkur á þetta, á baráttu og lífshlaup þeirra kvenna sem ólu okkur upp. Ekki síður að bera virðingu fyrir þeim störfum sem konur hafa í gegnum árin unnið bakvið tjöldin á sinn hljóðláta en örugga hátt. Kvennahlaupið og eins 19. júní er tækifæri sem við ættum að nýta til að hugsa um stöðu okkar í dag og ryfja upp söguna. Tökum sem flestar þátt í Kvennahlaupinu og þegar við hlaupum eða göngum minnumst í hverju skrefi þeirra kvenna sem gengu skrefin á undan okkar, sem tróðu þá greiðu leið sem við göngum. Minnumst einnig þeirra sem styðja okkur enn í dag og eru okkur fyrirmyndir. Konur sem á einhvern hátt tengjast ættu að nota þetta tækifæri til að hittast og hreyfa sig saman til góðs. Hvetjum hvor aðra og styðjum. Stöndum saman um að gleyma ekki þeirri baráttu sem háð hefur verið fyrir jafnrétti. Sofnum ekki á verðinum með því að halda að fullt jafnrétti hafi náðst því svo er ekki. Enn er spurt og efast um hvort konur og karlar sé jafn hæf í öll störf. Enn er því haldið fram konur en ekki karlar eigi að hengja út á snúru. Enn fá konur minni laun fyrir sömu vinnu og karlar. Sofnum ekki á verðinum. Göngum eða hlaupum fyrir gengnar kynslóðir, þökkum Guði fyrir allt sem konurnar sem við söknum og minnumst með virðingu gáfu okkur. Biðjum Guð að blessa framtíðina og blása okkur baráttanda og gleði í brjóst þegar við hlaupum glaðbeittar og hugrakkar mót framtíðinni.