„Hvers þarfnast Þjóðkirkjan?“

„Hvers þarfnast Þjóðkirkjan?“

En annað er það þó sem kirkjan þarfnast umfram allt. Það er það sem mestu varðar því án þess er kirkjan einskis virði. Hún þarfnast þess umfram allt að vilja vera Krists.
fullname - andlitsmynd Gunnar Sigurjónsson
28. febrúar 2012

Víst er að margir spyrja sig að því og hafa ólík svör á reiðum höndum. Þótt spurningin láti ekki mikið yfir sér varðar hún sannarlega miklu. Þjóðkirkjan horfist í augu við breyttar aðstæður. Íslenskt samfélag hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og áratugum. Mjög margt er nú með öðrum hætti en kirkjan átti lengi að venjast. Þjóðkirkjan hefur ekki farið varhluta af þeim breytingum og deilt er um hversu vel henni hefur tekist að bregðast við þeim. En hverju sem því líður er víst að í breytingum felast áskoranir á hendur kirkjunni og um leið tækifæri, en jafnframt hættur sem ber að varast.

Sagt er að Þjóðkirkjan þurfi nú einna helst á siðbót að halda. Sú siðbót eigi einkum að felast í breytingum á innra skipulagi kirkjustofnunarinnar, ekki síst hvað snertir stjórnsýslu hennar, eflingu lýðræðis og dreifingu valds. Með því megi efla tiltrú fólks til kirkjunnar og endurheimta glatað traust í hennar garð.

Allt er þetta rétt svo langt sem það nær. Þetta eru verðug og sjálfsögð – og sístæð – markmið sem ég vil vinna að í samstarfi við alla þá sem láta kirkjuna sig varða og vilja veg hennar sem mestan. Raunin er sú að í þessum efnum hefur Þjóðkirkjuna að sumu leyti borið af leið. Sem stofnun á Þjóðkirkjan að vera til fyrirmyndar að öllu leyti. Hún á að rækja af festu þær skyldur sem lagðar eru á opinberar stofnanir með réttsýni og jafnrétti að leiðarljósi.

En annað er það þó sem kirkjan þarfnast umfram allt. Það er það sem mestu varðar því án þess er kirkjan einskis virði. Hún þarfnast þess umfram allt að vilja vera Krists. Jesús Kristur er grundvöllur kirkjunnar. Allt sem lýtur að kirkjunni sem stofnun hlýtur að skoðast í því ljósi.

Þetta höfðu líka lærisveinarnir. Þeir vildu umfram allt vera Krists og fylgja honum. Lærisveinarnir voru engir snillingar þrátt fyrir allt sitt ágæti. Þeir voru breyskir og mistækir menn rétt eins og við. Þeir voru ekki lögspekingar, stjórnsýslufræðingar eða viðskiptafræðingar síns tíma. Þeir voru ekki einu sinni guðfræðingar síns tíma. Þeir misskildu Jesú á stundum og jafnvel véfengdu. En þeir vildu vera hans. Þeir höfðu það umfram aðra. Þeir fylgdu Jesú í orði og verki. Þeir höfðu dug og þor til að vera hans þrátt fyrir alla sína ágalla og alla þá áhættu sem því fylgdi. Í trausti til hans tókust þeir á við eigin bresti og vanda hversdagsins og fundu lífi sínu tilgang og merkingu í honum.

Þetta er það sem kirkjan þarfnast umfram allt. Hún þarfnast þess að vilja vera Krists. Á því þekkist kirkja sem er trúverðug og traustsins verð. Ég vil umfram allt efla þann vilja kirkjunnar svo að hann megi koma skýrt fram í öllu skipulagi hennar og starfi. Hér liggur án efa mesta áskorun kirkjunnar í breyttu samfélagi. Framtíð kirkjunnar mun ráðast af því hvernig henni tekst að mæta þeirri áskorun. Sr. Gunnar Sigurjónsson