Og þú sem vinnur hjá Guði!

Og þú sem vinnur hjá Guði!

Vanmátturinn er ekki slæm tilfinning með öllu. Þegar við áttum okkur á því að við getum ekki í eigin krafti leyst þau verkefni sem mæta okkur, hljótum við að leita út fyrir okkur sjálf, sum okkar leita til æðri máttar.

Einu sinni var ég að elda kvöldmat ásamt 5 ára bróðurdóttur minni, sem þá var á ,,af hverju” tímabilinu sínu. Ekkert lát var á spurningaflóðinu: ,,af hverju ertu að þessu” ,,af hverju gerirðu þetta svona? ” ,,af hverju- af hverju - af hverju.” Vissulega gladdist ég að heyra hvað hún var fróðleiksfús, en allt er nú gott í hófi . Þegar sú stutta spurði enn og aftur, að mér fannst í hundraðasta skipti og allt að sjóða upp úr, þ.e. úr pottunum, svaraði ég í fljótu bragði: ,, ég bara veit það ekki”. Litla frænkan tók andköf, baðaði út höndunum og hrópaði forviða: ,,veistu það ekki? og þú sem vinnur hjá Guði!”

Já, þetta voru vonbrigði. Hún hélt að sjálfur presturinn myndi nú ekki standa á gati. En sannleikurinn er sá að engin eðlisbreyting varð á mér við vígsluna um árið. Ég er og verð sama manneskjan og áður. Með alla þá eiginleika og hæfileika sem Guð gaf mér. Og jafnframt áfram með mína bresti. Stundum sterk, stundum veik.

Börn virðast sum halda að við sem eigum að heita fullorðin, vitum allt og getum allt. Og mikið væri það nú stundum gott. Að hafa betri svör á takteinunum, að eiga töfraorð huggunar og sátta. Og ef maður ætti nú allan þann tíma sem þarf til að sinna verkefnum vikunnar og orku og krafta til að leysa þau enn betur en oft er raunin. Já hugsið ykkur ef við gætum plástrað allan heiminn svo þjáningin væri ekki svona mikil og átakanleg. Kannski finnum við enn meira til vanmáttar okkar gagnvart veröldinni, þegar við skynjum hve miklar væntingarnar eru. Eins og væntingar barnanna. En vanmátturinn er ekki slæm tilfinning með öllu. Þegar við áttum okkur á því að við getum ekki í eigin krafti leyst þau verkefni sem mæta okkur, hljótum við að leita út fyrir okkur sjálf, sum okkar leita til æðri máttar. Einn af mínum brestum er sá að ég fer ótrúlega oft fram úr sjálfri mér, held ég sé ofurkonan umdeilda. En ósjaldan enda ég í blindgötu. Þá kemur Guð. Og Guð sýnir mér lausnina. Guð opnar augu mín fyrir því sem betur má fara. Og Guð gefur mér styrk til að takast á við það sem er erfitt og veldur mér kvíða. Já Guð hefur oft gripið inní með því til dæmis að senda einhverja eða einhvern til að hjálpa mér og aðstoða. Við erum nefninlega öll í vinnu hjá Guði. Vígð eða ekki vígð. Því öllum stendur til boða samfylgdin við Jesú, leiðsögn hans og kraftur heilags anda.

Ég geri mér í hugarlund að lærisveinar Jesú hafi ekki aðeins verið sorgmæddir þegar hann dó, þeir hljóta að hafa verið líka vonsviknir hvernig fór, vanmáttugir og ráðvilltir í þessum aðstæðum. En því meiri var líka gleði þeirra þegar Jesús mætti þeim á ný, risinn upp frá dauðum. Hann dvaldi áfram með þeim um sinn, gladdist með þeim, leiðbeindi og hughreysti. Og þeir fylltust nýjum krafti. Nú vissu þeir að aldrei myndu þeir þurfa að lifa án Jesú. Eins er það með okkur. Við erum aldrei án Jesú.

Það er einmitt svo dásamleg trúarvissa, þegar við finnum ekki svörin við erfiðum spurningum lífsins, þegar ekkert er hægt að segja frammi fyrir hverfulleika tilveru okkar, þegar mátturinn er minni en viljinn. Jesús lofaði lærisveinum sínum að hann yrði með þeim og heilagur andi gaf þeim krafta til að halda starfi Jesú áfram. Það ber okkur einnig að gera. Að þjóna Guði og náunga okkar með gleði, sama hvernig blæs.