Kristniboðsdagurinn er á sunnudag, annan sunnudag í nóvember. Ár hvert er raust upp hafin, bréf send, hvatningarorð látin heyrast og sjást, til þess að minna þjóðkirkjufólk á köllun kirkjunnar: Að fara út um allan heiminn og gera allar þjóðir að lærisveinum.
Aðferðin er ekki flókin og ekki þörf á mörgum verkfærum. Kristniboð snýst umfram annað um það að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist. Það er reyndar hlutverk hennar öllum stundum og alls staðar, þó svo freistandi geti verið að láta nærsamfélagið duga, ekki síst er á móti blæs.
Í mótbyr er auðvelt að missa móðinn. Mótbyrinn getur verið af mörgum toga. Reynt er að gera kirkjuna og boðunarstarf hennar tortryggilegt. Sumt fólk gengur lengra og reynir að gera lítið úr boðuninni, kirkjunni sem slíkri og Jesú Kristi Drottni hennar. En það má ekki stöðva okkur. Það getur samt gert eða haft þau áhrif að við förum að hafa hægt um okkur. En mótlætið ætti frekar að hvetja okkur til dáða og að hafa hátt um það sem er okkur dýrmætast. Trúin á ekki að vera feimnismál, en samt er hún það mjög víða.
„Þið munuð öðlast kraft er heilagur andi kemur yfir ykkur og þið munuð verða vottar mínir,“ sagði Jesús áður en hann hvarf augum lærisveinanna. Og hann sagði hvar: Í Jerúsalem (nærsamfélaginu), í allri Júdeu (nærsveitunum), í Samaríu (meðal þeirra sem höfðu villst af leið að mati Gyðinga) og allt til endimarka jarðarinnar (meðal heiðingjanna).
Kraftur Jesú stendur okkur til boða, djörfung hjartans til að benda á Jesú og bera honum vitni, nær og fjær. Andanum hefur verið úthellt. Postulasagan er saga um mótlæti og andspyrnu en jafnframt um mikla djörfung og kirkjuvöxt. Kirkjan var í frumkristni boðandi og benti fólki aftur og aftur á Jesú Krist, krossfestan og upprisinn.
Kirkju án kristniboðs hefur verið líkt við gluggalaust kirkjuhús. Innan kirkjuveggjanna er notalegt, öruggt og gott að vera. En glugginn sýnir okkur heiminn og við erum kölluð til að horfa út, til nærsamfélagsins og til ystu endimarka jarðarinnar. Kirkjan er kölluð til að fara. Hún þarf ekki að skammast sín fyrir það eða vera feimin. Tilvist hennar er undir því komin að hún sé boðandi. Þess vegna er hún til og nær um víða veröld. Ylur tilbeiðslunnar að leiða okkur á fund náunga okkar hvort sem hann býr í næsta húsi, í Eþíópíu eða Japan. Hann þarf á Jesú að halda.
„Lát frelsandi kraft fagnaðarerindis þíns vera boðað öllum þjóðum þessarar jarðar.“ (Úr kollektu á kristniboðsdag).