Godot - sólardans - Guð

Godot - sólardans - Guð

Skerið af kristindóminum páskana og þá verður tilvera kristins manns að einum samfelldum föstudegi, langavitleysa í biðstofu Godot. Takið af kristninni upprisuna þá hverfur dansinn og eftir verður fallegur siðaboðskapur góðs manns, sem var líflátinn fyrir mistök. Ertu páskabarn eða ertu kannski barn föstudagsins langa?
Flokkar

Þá er hvíldardagurinn var liðinn, keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: Hver mun velta fyrir oss steininum frá grafarmunnanum? En þegar þær líta upp, sjá þær, að steininum hafði verið velt frá, en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju og þær skelfdust. En hann sagði við þær: Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjá, þarna er staðurinn, þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann, eins og hann sagði yður. Mark. 16.1-7

Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn

Fagnaðarfréttin

Engin smátíðindi, heldur það sem öllu breytir. Af því að Jesús Kristur hefur komið lifandi út úr steinþró sinni er ekki skrítið, að fagnað sé í þessari kirkju, í veröldinni og líka upp í festingunni. Þá er eðlilegt að tunglið brosi, stjörnurnar skríki og sólin dansi. Ef eitthvað gefur tilefni til fagnaðar er það, að Guðssonurinn gengur heill fram úr dauðagrjótinu.

Sólardansinn

Sigríður Hannesdóttir, átta ára, á Þórustöðum í Ölfusi, var á fótum við sólarupprás á páskadag árið 1858. Þá sá hún og líka allt heimilisfólkið, að sólin dansaði. Magnús Gíslason segir frá þessu í sagnakveri sínu og bætir við, að margir hafi, allt fram á 19. öld, trúað að dansundrið yrði hvern páskadagsmorgun. Væri heiðríkt veður ættu menn að sjá sólardansinn. Í kverinu er haft eftir Sigríði, að himinn hafi verið heiðríkur og svo segir: “... aðeins eitt skýdrag neðst við sjóndeildarhringinn í austri og loftaði lítið eitt undir það. Sáum við þá hvað sólin kom upp með hraða miklum norðan við skýdragið og fór í bogalínu upp á loftið og hvarf svo aftur við suðurenda skýdragsins ... Endurtók þetta sig uns sólin hætti að ganga undir og við gátum sökum ofbirtu ekki horft á hana lengur. Öllum fannst þetta dýrðleg sjón og opinberun um fögnuð náttúrunnar yfir þessari sigurhátíð kristinna manna. Efaðist enginn um ... að sólin dansaði í raun og veru hvern páskadagsmorgun, sem rétt væri haldinn til minningar um upprisu Krists frá dauðum.”

Þetta er áhrifarík frásögn. Menning er lífsseig og túlkun siða er slitsterk. Hvað veldur að náttúran bifast? Eitt er líklegt, að gyðingagleði gægist fram í þessari danshefð. Jesús hélt páska eins og landar hans. Hátíðin var vorhátíð til að fagna nýbornu ungviði og hinni sögulegu lausn í Egyptalandi, þegar Hebrear sluppu forðum úr þrælakistunni. Hvað gerir fólk á hátíðum? Jú, það gleðst og dansar líka. Svo þegar undrið mikla varð, að Guðssonurinn gekk úr úr fangelsi dauðans, var tilefni ærið fyrir alla Guðs sköpun að fagna. Gyðingagleðin færðist upp í hvelfinguna. Tunglið mátti brosa, stjörnurnar skríkja og sólin dansa.

Tímasetning páskanna

Páskarnir eru á breytilegum tíma í vestrænni kristni, eru hræranleg hátíð, eins og sagt var. Meðan ekki voru gefin út almanök reiknaði fólk út hvenær halda skyldi páska. Sólardansinn var eitt af teiknum um, að rétt hafi verið reiknað og páskarnir væru á réttum tíma.

Þú hefur væntanlega fylgst með, að við erum komin fram yfir vorjafndægur. Svo hefur þú kannski séð þetta stóra tungl, sem glotti á austurhimninum í liðinni viku. Jafndægur og fullt tungl tengjast páskum og reglan um páska í okkar kirkju er, að páskadagur sé fyrsti sunnudagur eftir fyrsta fullt tungl frá og með 21. mars, en þá eru yfirleitt vorjafndægur. Reglan leiðir til þess, að páskadagur getur í fyrsta lagi verið 22. mars og í síðasta lagi 25. apríl, en getur líka verið alla aðra daga þar á milli.

Íslenska hómilíubókin, er merkilegt og skemmtilegt prédikanasafn frá miðöldum. Í þeirri góðu bók er minnt á, að páskar séu haldnir eftir jafndægur af þeirri ljósu ástæðu, að birtuhluti sólarhringsins verði að vera lengri en hinn myrki. Dagurinn vitnar um, að Guð lýsir veruleika sköpunar sinnar. Þegar menn hafa upplifað og sannfærst um, að veröldin er Guðs verður allt mögulegt. Líka að náttúruöflin geti látið gleðilátum, fagnað þegar stórtíðindi verða, dansað.

Beðið eftir Godot og það í þungum þönkum

Ég gluggaði í rit Samuel Becket þegar ég var liðlega tvítugur, fannst höfundurinn ískyggilega spennandi. Leikrit hans um biðina eftir Godot hefur orðið eins klassíker um hetjulegt guðleysi, þá afstöðu að manneskjan sé skammær blossi, sem fuðrar upp um stund en lognast síðan útaf. Löngum hefur Godot-biðin verið túlkuð sem bið eftir Guði, sem ekki kemur. Ástæða þess að ég nefni Becket er, að á föstudaginn langa, voru hundrað ár liðinn frá fæðingu hans (fæddur 13. apríl 1906). Ég held reyndar að fæðingardagur hans hafi verið honum svo hugleikinn, að hann hafi strandað þar og ekki náð lengra. Í ritum sínum lýsti Becket síðan stöðu manna, sem búa við atburði þess dags, að Guð er dáinn.

Fólk föstudags eða sunnudags

Getur verið, að á páskadegi ættum við að staldra við og íhuga föstudaginn langa? Hvert er samhengið milli þessara ólíku daga? Annar er myrkur og dapurlegur, hinn svona bjartur og gleðilegur. Segja þeir okkur eitthvað um lífið, veröldina og okkur sjálf? Er til föstudagsfólk og páskafólk?

Konurnar gengu hnípnar út að gröfinni, í þeim var föstudagur og hann mjög langur, spannaði á þriðja sólarhring. Lærisveinarnir voru blúsaðir líka. Hið alvarlega er að það eru margir, sem hafa tamið sér langa föstudaga í lífsafstöðu, gera sér litlar vonir, eru niðurlútir fremur en upplitsdjarfir, híma í sút fremur en kátínu, eru neikvæðir fremur en jákvæðir.

Svo eru þau, sem hafa misst mikið og orðið fyrir svo sárum harmi að allt virðist tapað, æran farin, eignirnar, vinnumöguleikar, heilsan og ástvinirnir, sem hafa verið svo mikilvægir. Þessi verða eins og útlendingar í lífinu, ein og vegamóð, eins og segir í ljóði Davíðs Stefánssonar. Ef fólk kemst ekki út úr þessu útlandi, heldur reikar þar áfram án tilgangs og möguleika er það fast í föstudeginum langa. Það þjáist eins og krossfest væru, sér ekki út úr eigin þjáningu, trúir ekki og jafnvel vill ekki trúa að lífið eigi sér gæði og gleði framar. Til þessa fólks þarf páskaboðskapurinn að berast. Boðskapurinn á erindi við alla, ekki síst við þau, sem þarfnast gleðiauka.

Hver lyftir bjarginu?

Hver mun velta steininum frá? spurðu konurnar á leið út að gröf Jesú. Þær voru að fara að sinna heiðursskyldu, smyrja líkið, sem þær höfðu ekki náð að gera áður en hvíldardagshelgin hófst. Nú var sá sabbatinn liðinn en þær voru áhyggjufullar. Allt í einu gerðu þær sér grein fyrir að steinninn fyrir grafarmunnanum var alger fyrirstaða.

Hér frammi í forkirkjunni er bjarg, undir bænaljósaskálunum og tréskurðarmynd Ágústs Sigmundssonar af hinum upprisna Jesú. Steinninn á að minna okkur á grjótið fyrir steinþró Jesú, þungt og illviðráðanlegt. Konurnar fóru allt í einu að hugsa um bjargið. Svo mætir þeim þessi ljósvera, sem talar við þær í stuttaralegum bloggstíl, eða kannski fremur SMS-skeytastíl, og segir þeim helstu framvindustaðreyndir. Ekki aðeins var kletturinn frá, heldur það sem meira var - hinn látni var lífs. Þá verður undrið í lífi þessara kvenna og þær dönsuðu til baka fullar af birtu nýs dags veraldar, þennan dag þegar allt myrkur jarðar var upplýst af birtu himinsins.

Hvar viljum við vera í þessari sögu og hvernig túlkum við? Skerið af kristindóminum páskana og þá verður tilvera kristins manns að einum samfelldum föstudegi, langavitleysa í biðstofu Godot. Takið af kristninni upprisuna þá hverfur dansinn og eftir verður fallegur siðaboðskapur góðs manns, sem var líflátinn fyrir mistök. Hvað merkja þá páskar í þínu lífi? Ertu páskabarn eða ertu kannski á milli föstudagsins og sunnudagsins? Ertu laugardagsbarn? Margir vilja helst vera þar og lifa í flatneskju þess sem er hvorki-né.

Ekkó eilífðar

Kristindómurinn er ekki um dauða eða að deyja vel, heldur boðskapur um lífið. Ef þú reikar um í landi föstudags eða laugardags máttu gjarnan heyra að lífið lifir og dauðinn dó, að nú er tími til að halda hátíð. Það eru engin tíðindi, að Jesús dó, en það eru stórkostleg tíðindi, að Jesús lifir þrátt fyrir dauða. Í því eru fólgin alger skil í sögu lífs og veraldar og hefur áhrif á hvernig við túlkum og bregðumst við lífinu. Ef svo merkilegur atburður hefur orðið setur maður upp ekki bara ný gleraugu, sem maður horfir á veröldina með, heldur ný augu. Allt fær nýja merkingu.

Það, sem við verðum fyrir, förum við að sjá í samhengi við lífvefnað himinsins. Þegar við njótum líknar á sjúkrahúsum sjáum við í þeim gjörningum kraftaverk. Þegar maki þinn eða vinur segir: “Ég elska þig” þá heyrum við ekkó frá ástarópi himinsins. Allt verður í framhaldi af og samtengt eilífðinni. Þá er líka hægt að skilja gamlar sagnir um sólardans. Þegar ofurfréttirnar berast um líf Jesú Krists er eðlilegt, að fólk temji sér gáskasýn gagnvart lífinu. Það eru ekki aðeins suður-amerískir rithöfundar, sem hafa einkarétt á töfraraunsæi. Kristinn maður lærir að gleðjast yfir hinu hversdagslega og tengja hinu himneska. Líf mannsins er ekki lengur bið eftir Godot, heldur er Godot er kominn úr grjótinu. Þá er ekki lengur beðið, heldur glaðst og dansað í sólstöfum af hæðum.

Ertu barn föstudagsins langa eða páska? Viltu myrkur eða sólarsýn?

Krossfestur og upprisinn

Kristur er krossfestur - já, Kristur er sannarlega krossfestur. Það var engin blekking. Hann dó og við menn deyjum líka. En svo þarf viðbótin að koma, sem breytir öllu.

Kristur er upprisinn - Kristur er sannarlega upprisinn.

Því dansar sólin, sálin syngur og þú mátt þú lifa og gleðjast.

Amen +