Samræða og fyrirgefning

Samræða og fyrirgefning

Þessa dagana ver ég frístundum mínum við lestur gamalla skjala frá embættistíð Brynjólfs biskups Sveinssonar en í ár fögnum við því að 400 ár eru liðin frá fæðingu hans.

Ef bróðir þinn syndgar gegn þér , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna. Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.

Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.

Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra. Mt 18.15-20

Þessa dagana ver ég frístundum mínum við lestur gamalla skjala frá embættistíð Brynjólfs biskups Sveinssonar en í ár fögnum við því að 400 ár eru liðin frá fæðingu hans. Brynjólfur var svo sem kunnugt er duglegur embættismaður og reisti víða á starfstíma sínum þar sem hann heimsótti kirkjur, hélt prestastefnur árlega í það minnsta og reyndi hvað hann gat til þess að koma einhverri skikk á kirkju Krists hér á köldum og afskekktum útjaðri hinnar kristnu Evrópu.

Brynjólfur Sveinsson

Embættismaður á 21. öld sem hefur öll þau meðöl sem nöfnum tjáir að nefna til þess að létta sér störfin furðar sig á því hvernig Brynjólfi og undirsátum hans tókst yfir höfuð að halda utan um söfnuðina þarna á 17. öld. Það hefur ekki verið lítið afrek að halda hlutunum í skorðum á þessum öldum – vitandi það að á miðöldum geysaði hér nánast stöðugur ófriður af því tagi sem best mætti líkja við borgarastríð.

Við frumstæð skilyrði, fátæklegar kirkjur, illa búin prestsetur og meirihluta kennimanna sem rétt dró fram lífið af launum sínum og hlunnindum tókst Brynjólfi að koma á undraverðri festu og sátt í kirkjuna.

Ofan á allt þetta bættist sú staðreynd að þegar hann tók við embætti 1639 þá aðeins 34 ára gamall var ekki liðin öld frá því landsmenn játuðust undir nýjan sið og kirkjan mátti una við mun þrengri kost en verið hafði á þeim dögum þegar menn lutu hér páfanum í Róm.

Ekki bara hafði kirkjan glatað miklum eignum – klausturjarðirnar hurfum t.a.m. beint til konungs – heldur misstu kirkjan sjálfstæði sitt. Nú var konungurinn í Danaveldi æðsti yfirmaður hennar en ekki páfinn í Róm og ríkið tók að sama skapi yfir nokkrar af skyldum kirkjunnar, s.s. fátækraþjónustu.

Upphaf velferðarsamfélagsins

Fyrir vikið hefur tími þessi á margan hátt þótt síður spennandi efni til umfjöllunar en aldirnar á undan. Þarna er þó lagður hornsteinn að samfélaginu okkar bæði hér á Íslandi og á Norðurlöndum.

Sagnfræðingar hafa og bent á að ákvæði í kirkjuordinansíum Norðurlanda um að ríkið beri ábyrgð á líknarþjónustu sé í raun yfirlýsingin sem velferðarríki þessa heimshluta hafa æ síðan byggt á. Lútherska þjóðkirkjan hefur upp frá því verið einkenni og aðalsmerki Norðuarlandanna og ef grant er skoðað er hún það eina sem þau öll eiga sameiginlegt og greinir þau frá öðrum ríkjum.

Ólíkt því sem margur heldur um kirkjuna á tíma rétttrúnaðarins ber ekki mikið á hörku í garð sóknarbarna í þessum skjölum. Kirkjan hafði auk þess engin úrræði til þess að beita fólk þvingunum – ólíkt því sem verið hafði á dögum Jóns Arasonar þegar biskupssveinar hans voru vopnaðir og knúðu menn til hlýðni við kirkjuhöfðingjann.

Slíku var ekki að heilsa í lútherskri kirkju enda hefur sá tími sem hún hefur verið við lýði á öllum Norðurlöndum einkennst af innanlandsfriði og almennri sátt og reglu í samfélögum þessum sem hefur gert þeim kleift að halda uppi mun hærra þjónustustigi og jöfnuði en þekkist í flestum öðrum löndum.

Samtal í stað ofbeldis

Eitt hafði lúthersk þjóðkirkja þó sem gerði henni kleift að halda utan um flokk sinn og gera sitt til þess að fyrirbyggja átök og sundurlyndi í þeim anda sem voru viðvarandi á miðöldum.

Kemur þar að guðspjallstexta dagsins í dag. Texti þessí í Mattheusi var kirkjunni fyrirmynd að því hvernig ætti að taka á þeim sem brutu gegn náunga sínum og unnu spjöll á því samfélagi sem kirkjan vildi varðveita. Í textanum gefur Kristur leiðsögn um það hvernig bregðast eigi við þegar menn hafa syndgað gegn bræðrum sínum.

Í fyrstu segir hann frá því að menn eigi að fara og tala um fyrir honum og sé það samtal í trúnaði. Þarna lýsir Kristur því hvernig fyrirgefningin vinnur og hvernig samfélagið sem byggt er í kringum boðskap Krists á að leysa sín vandamál. Með þessi orð að fyrirmynd fóru fram samræður prests og sóknarbarna þar sem sem fólk játaði syndir sínar frammi fyrir prestinum og lýsti iðrun.

Því voru trúnaðarsamtöl þar sem fólk gat létt af hjarta sínu og samvisku mikilvægur þáttur í starfi kirkjunnar og svo er enn. Hefði fólk brotið gegn náunga sínum var það hvatt til þess að biðja hann fyrirgefningar og sýna í verki það hversu mjög hann iðraðist. Enn þann dag í dag býður kirkjan upp á sálgæsluviðtöl. Fólki er boðið að létta á hjarta sínu í trúnaðarsamtali við prestinn. Í framhaldi af slíkum játningum getur fólk svo unnið betur í sínum málum. Gert upp þær sakir sem ókláraðar eru og haldið síðan áfram á þeirri braut sem leiðir til farsældar og velferðar.

Ef slíkt tiltal dugir ekki er næsta skref stigið eins og fram kemur í guðspjallinu. Þá voru kölluð til vitni. Þessi texti er fyrirmyndin að þeim eiðum sem menn hið forna voru látnir vinna sem ekki viðurkenndu þau brot sem á þá voru borin. Kölluðu þeir þá til valinkunna einstaklinga sem til þeirra þekktu og báru þeir þá vitni um að viðkomandi einstaklingur væri hæfur til þeirra yfirlýsinga sem hann gaf.

Lokaúrræðið er að sá brotlegi lýsi broti sínu frammi fyrir söfnuðinum. Þeir sem þekkja til ævi Brynjólfs biskups vita söguna af því þegar dóttir hans Ragnheiður tók slíka opinbera aflausn er hún lýsti því yfir frammi fyrir söfnuðinum í Skálholti að hún væri ekki í sambandi við Daða Halldórsson, kennara sinn. Sú harmsaga er mörgum kunn og verður ekki farið nánar út í hana hér.

Loks ef menn voru ekki tilbúnir að játa syndir sínar í neinu því samhengi sem þarna er lýst voru þeir settir út af sakramentinu eins og það var kallað. Þá fengu þeir ekki að ganga fram fyrir altarið að taka á móti brauðinu og víninu í samfélagi við önnur sóknarbörn sökum þess að þeir áttu ókláraðar sakir við aðra í sókninni. Enn þann dag í dag er undanfari altarisgöngunnar syndajátning þar sem söfnuðurinn játar syndir sínar og lýsir yfir vilja sínum að lifa í kærleika og sátt við alla menn.

Mikilvæg fyrirmynd

Með þessari siðvenju er sótti fyrirmynd sína í heilaga ritningu var kirkjunni unnt að halda friðinn milli sóknarbarna án þess að ofbeldi væri beitt. Vitaskuld var veraldlegt vald ekki saklaust af slíku. Þar stunduðu menn harðar refsingar fyrir brot gegn landslögum en sá friður sem kirkjan vildi skapa viðhélst í krafti þessarar hefðar sem sótt var í guðspjall dagsins.

Þetta er kristin leið til þess að sætta óeiningu. Á henni hvíla forsendur þess mannúðarsamfélags sem við höfum hér á Íslandi og í okkar heimshluta. Þótt við býsnumst stundum yfir því sem viðgengst í stjórnmálum, opinberri stjórnsýslu og pólitík – og það oft með réttu – er því ekki að neita að hvergi er spillingin minni en í þeim löndum sem byggja á þessum grunni. Þótt konur bendi með réttu á launamisræmi og að langt sé í land með að fullu jafnrétti sé náð á ýmsum sviðum er staða kynjanna hvergi betri en á okkar slóðum.

Vegna þess að hér er hefð fyrir því að ræða málin. Hér er gengið út frá því að friðsamlegar lausnir séu heppilegri þeim sem kalla á ofbeldi. Hér er gengið út frá því að yfirlýsing þess sem brotið hefur af sér og sönn iðran geti leyst vandamál. Og ekki síst er litið svo á að það að játa syndina leysi menn undan oki samviskunnar. Slíkt held ég og trúi að sé sannleikur sem nær út yfir tíma og rúm.

Kristið samfélag

Í guðspjalli dagsins er fjallað um samfélag – eða öllu heldur hugsjón um samfélag – sem með réttu má kalla kristna. Það gengur út frá þeirri hugmynd að trú leiði af sér betra líf. Trúað fólk gefi því meiri gaum hvernig það hegðar sér gagnvart náunga sínum og þeim fyrirmyndum sem það lifir eftir. Því vilji menn í einlægni játa það sem þeir hafa gert rangt jafnvel þótt þeim sé ekki hótað með meiðingum eða vítisvist. Páll postuli talar hér um karlmennsku (sem er nokkuð kyndugt að skuli koma upp í dag – degi fyrir kvennafrídag!) en þar á hann við staðfestu, kjark og heiðarleika – mannkosti sem vitaskuld eru jafn kvenlegir og þeir eru karlmannlegir.

Birtist í mörgum myndum

Þessi samræðuhefð hefur birst í mörgum myndum í gegnum tíðina og kemur fyrir enn þann dag í dag – jafnvel í þeim úrræðum sem þykja nýstárleg og frumleg á okkar tímum.

Í krafti hennar tókst vanmáttugri kirkjunni á Íslandi eftir siðbreytingu að viðhalda frið og einingu í landinu í gegnum ótrúlegar ytri hremmingar sem dundu á landsmönnum á þeim tíma. Önnur mynd hennar er hugsjónin um bræðralag þar sem menn setjast jafnir að borði og ganga þaðan jafningjar. Sá tónn er áberandi í guðspjallinu þar sem enginn er undanþeginn því að játa syndir sínar og iðrast frammi fyrir þeim sem brotið hefur verið á.

Þessi leið var farin í S-Afríku þegar yfirráðum hvíta minnihlutans lauk þar á 10. áratugnum. Ný stjórn sem skipuð var fólki af öllum kynþáttum leitaði leiða til þess að gera upp sakirnar við þá sem beitt höfðu kúgun og ranglæti. Niðurstaðan var sú að hinir brotlegu voru kallaðir fram fyrir þá sem þeir höfðu brotið gegn og þeim var boðið að játa syndir sínar. Engin refsing fylgdi. Þeir voru álitnir fórnarlömb ekki síður en þeir sem beittir höfðu verið ofbeldi. En bara það að játa sektina, bara það að horfa í augun á þeim sem þolað hafði ofbeldið og ranglætið, var afar stórt skref. Á þeim grunni hafa menn leitast við að byggja upp sameinað samfélag í stað þeirrar sundrungar sem áður var.

Við sjáum enn og aftur sömu stefin í nýjustu kenningum um meðferð ungra afbrotamanna. Í stað þess að loka þá inni á svokölluðum betrunarstofnunum sem skila þeim aftur út í samfélagið í enn verra ástandi er leitað nýrra leiða sem byggja á þessum grunni. Þeim gert að horfast í augu við þann sem þeir hafa brotið gegn. Þeir mæta honum og játa sök sína.

Mannúðarsamfélagið er þarna að verki. Og samfélag þetta byggir á orðum Krists. Þeir sem fylgja orðum hans eftir og leita til hans sem fyrirmyndar mega líka vita það að í því samfélagi þar sem þeir starfa á þeim forsendum er Kristur einnig nálægur.

Lexían: Sl 8, Pistillinn: 1Kor 16.13-14, Guðspjallið: Mt 18.15-20